Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Hæstv. menntmrh. er fjarverandi og verður það í tvær vikur. Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram.
    Fleiri hafa ekki kvatt sér hljóðs um þingsköp. Hér hafa mörg orð verið látin falla, misþung í hita umræðunnar eins og oft gerist hjá okkur, en því hefur verið beint til forseta að fresta því að láta þessa kosningu fara fram, að það sé sanngjörn krafa og eðlileg rök fyrir henni. Forseti sagði það fyrr á þessum fundi að hún gæti ekki séð að það væru eðlileg rök fyrir þeirri kröfu af þeirri einföldu ástæðu að hér er aðeins um það að ræða að einn þingflokkur þarf að endurnýja umboð fulltrúa sinna í þessu tiltekna ráði, útvarpsráði. Forseti sagði aldrei að það væri við venjulegar aðstæður heldur einmitt við óvenjulegar aðstæður. Þetta gerist hjá Sjálfstfl. að þessu sinni. Þetta getur komið fyrir hjá hvaða flokki sem er, það þekkjum við öll. Það hefur gerst þó að það hafi ekki endilega verið í tiltekið útvarpsráð heldur í aðrar stjórnir eða nefndir að þurft hefur að endurnýja umboð manna á óvenjulegum tíma við óvenjulegar aðstæður og það hafa aldrei verið gerðar athugasemdir við það af öðrum þingflokkum heldur slíkt látið fara fram eins og viðkomandi þingflokkur hefur óskað eftir.
    Nú liggur fyrir að þingflokkur Sjálfstfl. hefur þegar valið nýja fulltrúa í útvarpsráð í stað þeirra sem óskuðu eftir því að vera leystir frá störfum. Forseti hefur þessi bréf undir höndum. Það er mjög skýrt og skorinort frá þeim öllum, hverjum fyrir sig, að þeir óska eftir því að verða leystir frá störfum á þeim degi sem bréfin eru skrifuð. Þess vegna telur þingflokkur Sjálfstfl. nauðsynlegt og óskar eftir því að fá að láta kjósa nýja fulltrúa í útvarpsráð. Og ég er þess fullviss að þingflokkur Sjálfstfl. mundi aldrei koma í veg fyrir það að annar þingflokkur sem óskaði eftir slíku né einhver annar tiltekinn þingflokkur koma í veg fyrir það undir slíkum kringumstæðum.
    Það hefur komið fram í þessum umræðum núna að hér séu óvenjulegar aðstæður sem eru m.a. raktar til þess að það sé öðruvísi stjórnun á þinginu. Forseti getur ekki fallist á það. Forseti er sannfærður um að hvaða forseti sem væri mundi verða við þessari ósk. Aðstæðurnar eru óvenjulegar af því að við erum að byrja þingstörfin og ýmis viðkvæm mál hafa verið á döfinni og skapa þessar umræður. Nú bið ég hv. þm. að sýna þann skilning og þetta umburðarlyndi gagnvart þeim þingflokki sem óskar eftir að þessi kosning fari fram og láti þar við sitja. Þetta er ósk forseta til hv. þm. vegna þess að forseti telur að ef þessu máli verður frestað nú sé verið að skapa fordæmi sem geti átt eftir að endurtaka sig hvað eftir annað í framtíðinni þegar slíkar óvenjulegar aðstæður koma upp.