Hvítbók ríkisstjórnarinnar

4. fundur
Miðvikudaginn 09. október 1991, kl. 15:45:00 (122)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Ég vil, svo að ekkert fari nú á milli mála, formlega óska eftir því fyrir hönd þingflokks framsóknarmanna að þessu riti sem kallað hefur verið hvítbók verði komið í hendur þingmanna flokksins og þá alþingismanna allra áður en stefnuræðan fer fram. Svo sem kom fram hjá hæstv. umhvrh. hér áðan telur hann ekki þetta plagg fullunnið. Enn lifir mikið dags og kunna þeir nú að geta bætt þar úr. En það er ákaflega óheppilegt að mínum dómi og óeðlilegt að hefja hér annað kvöld umræður um stefnuræðu forsrh. ef slík grundvallargögn, eins og mér skilst að þessi hvíta bók eigi að vera, liggja ekki fyrir. Varðandi þá athugasemd að ekki sé búið að prenta bókina þá nægir okkur alveg að fá hana í vélrituðu eða ljósrituðu formi fyrst um sinn og ég óska eftir því að hún liggi hér fyrir áður en umræður um stefnuræðu fara fram, því að sjálfsögðu er þarna um stefnuskrá ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að ræða og það er mjög óeðlilegt að hún sé ekki þingmönnum tiltæk með eðlilegum fyrirvara áður en umræðan fer fram.
    Ég man nú ekki betur en að í vor hafi hæstv. forsrh. lýst því yfir eða látið að því liggja að bók þessi mundi verða tiltæk í þingbyrjun. Nú er þingið komið af stað og bókin hefur ekki borist okkur. Ég vil formlega óska eftir því fyrir hönd þingmanna Framsfl. að við fáum þessa bók í hendur enda liggur ljóst fyrir að fréttamenn hafa hana undir höndum.