Fjáraukalög 1991

4. fundur
Miðvikudaginn 09. október 1991, kl. 15:56:00 (129)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um atkvæðagreiðslu) :
     Virðulegi forseti. Mér er nú nokkur vandi á höndum og kannski fleiri þingmönnum vegna þess að á þeim tækjum sem hér eru fyrir framan þingmenn eru fimm hnappar. Ég hef spurt sessunauta mína hvað hnappurinn yst til hægri og hvað hnappurinn yst til vinstri merki og sessunautar mínir hafa hvorugur getað gefið mér svör við því. Nú er það auðvitað þannig og við erum fullfær hér í þingsalnum að ýta á rauða hnappinn, alla vega við í Alþb., og umhvrh. kannski fullfær að ýta á græna hnappinn og Sjálfstfl. á núll-hnappinn, en vandinn er sá að okkur hefur verið sagt að með því að ýta á annan hvorn þessara hnappa sem eru yst til vinstri eða yst til hægri sé hægt að fá skráningu á því hvaða þingmenn taki þátt í atkvæðagreiðslunni. Og af því að okkur kann að vera nokkur forvitni á því að fá að vita hvernig menn greiða atkvæði og hverjir séu viðstaddir og hverjir ekki, hvort það séu t.d. við í stjórnarandstöðunni sem séum að hjálpa ríkisstjórninni við að koma þessu máli í gegn af því að það séu kannski fleiri stjórnarandstæðingar hér í þingsalnum heldur en stjórnarliðið --- og það sýnir nú samvinnulipurð stjórnarandstöðunnar við ríkisstjórnina og forsetann að það séu kannski atkvæði stjórnarandstæðinga hér í salnum sem verði til þess að hægt sé að koma þessu frv. til nefndar --- þá tel ég nauðsynlegt að fá leiðbeiningar forsetaembættisins um það á hvaða hnapp ég á að ýta til þess að ég geti fengið það skráð hvert sé hlutfall stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðuþingmanna í þessari atkvæðagreiðslu svo að á spjöldin komi skýrt fram hve sanngjarnir, samvinnuliprir ( Gripið fram í: Og heiðarlegir.) og heiðarlegir við stjórnarandstæðingar erum í störfum þingsins, að það erum við sem tryggjum það að ríkisstjórnin kemur hér málum áfram en ekki stjórnarliðar.