Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 21:08:00 (133)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég vil taka undir heillaóskir hæstv. forsrh. til

bridsspilaranna í Japan. Það er satt að segja stórkostlegt hvernig íslenskir íþróttamenn halda oft hátt á loft merki lands og þjóðar en þó sjaldan með meiri glæsibrag en nú. Það er mikil landkynning sem í þessu felst.
    Það var skynsamlegt hjá þeim Viðeyjarbræðrum að skrifa sem minnst niður af því sem þeir urðu ásáttir um út í eyjunni. Að vísu hefur heiðursmannasamkomulagið ekki reynst vel en ég er sá bjartsýnismaður að ég leyfi mér að vona að þeir séu enn þá nokkuð margir jafnaðarmennirnir innan Alþfl. og þeir í Sjálfstfl. sem ekki hafa ánetjast frjálshyggjunni sem hefðu ekki samþykkt samning sem hefði boðað það sem gerst hefur á undanförnum mánuðum.
    Ég átti hins vegar von á því að við fengjum að heyra hjá hæstv. forsrh. ítarlega hver stefna ríkisstjórnarinnar væri. En hæstv. forsrh. er við sama heygarðshornið. Hann leitar að sökudólg. Sautjánda júní voru það kerlingarnar með kaffipokana. Nú er það fyrrv. ríkisstjórn og alveg sérstaklega fyrrv. forsrh., sem hér stendur. Það er satt að segja stórkostlegt, ég held að það hafi aldrei gerst áður, að fyrrv. forsrh. fær svo gífurlega mikið rúm í mikilvægri stefnuræðu forsrh. Það er hreint og beint ótrúlegt. Að vísu fá athafnamennirnir dálítið pláss því hann telur að stjórnendum fyrirtækja hafi orðið á mistök sem þeir hafi ekki fengið að gjalda fyrir.
    En það er æðialvarlegt margt sem er sleppt í stefnuræðu hæstv. forsrh. Þar er hvergi minnst á þjóðarsátt eða kjarasamninga. Og ég hélt satt að segja að það væri eitthvert stærsta verkefni sem fram undan væri. Ætlar hæstv. ríkisstjórn á engan máta að taka þátt í því að hér megi nást viðunandi kjarasamningar? Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að semja við opinbera starfsmenn? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að beita sér fyrir því að þeir sem lægst launin hafa fái einhverjar kjarabætur? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að sýna dug til þess að færa einhvern hluta af hinum gífurlega arði fjármagnsins yfir til launþega? Arði sem hefur vaxið stórum skrefum upp á síðkastið. Við fáum ekkert um slíkt að vita.
    Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til þess að blása lífi í íslenskt atvinnulíf sem nú er í kreppu? Það eina sem hæstv. forsrh. benti á eru álsamningar. Og því miður þá líta þeir nú mjög illa út. Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi, til að virkja þær miklu auðlindir sem við eigum í fólkinu í landinu, til að stuðla að aukinni ferðaþjónustu? Svona gæti ég lengi talið. Á þetta er ekki nokkurn skapaðan hlut minnst. Við verðum þess vegna að meta stefnu núv. ríkisstjórnar af því sem hún hefur gert undanfarna mánuði og að vísu er þar af nógu að taka.
    Áður en ég kem að því vil ég þó leggja á það áherslu að síður en svo er ég að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem blasa við íslensku atvinnulífi nú með þann samdrátt sem verður í sjávarútvegi. Og síður en svo vil ég draga úr öllum skynsamlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að sparnaði í ríkisrekstri. En allar slíkar aðgerðir verður að skoða á grundvelli þeirrar aðstöðu sem er í þjóðarbúinu nú og það er ekki nokkur vafi á því að það versta sem hægt var að gera íslenskum atvinnuvegum var að hækka vextina og það voru fyrstu aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. Á sama tíma og íslensk ríkisstjórn hækkar vexti segir einkavinur hæstv. forsrh., Bush Bandaríkjaforseti, í stefnuræðu sinni að honum hafi tekist að lækka vexti um helming í Bandaríkjunum og stuðla þar með að auknum hagvexti. Um svipað leyti kemur boðskapur frá þeim sjö iðnríkjum sem hittast tíðum og þar er eindregið lagt til að vextir verði lækkaðir, en hér í kreppunni eru þeir hækkaðir. Enda er nú svo komið, sem hver maður getur séð sem skoðar reikninga fyrirtækjanna, að þessi mikla sprenging á vöxtum dregur óðum til sín alla þá góðu afkomu sem þau höfðu á síðasta ári. Hún er horfin. Hún er búin.
    Hæstv. forsrh. boðar það að ríkisstjórnin muni ekki skipta sér af atvinnuvegunum. Hún ætlar sem sagt ekki að aðstoða íslenskt atvinnulíf í þeim erfiðleikum sem nú eru. Ég

er sannfærður um að það er fyrsta ríkisstjórnin á Íslandi sem það gerir ekki. Viðreisnarstjórnin, sem hæstv. forsrh. hælir mjög í ræðu sinni, hafði þó dug til þess þegar erfiðleikarnir skullu á 1967 og 1968 að setja upp nefndir um land allt sem áttu að stuðla að því og unnu að því að draga úr atvinnuleysi. Nú má ekkert slíkt gera. Nú er það frjálshyggjan blessuð sem allt á að leysa. Það verður ekki annað sagt en að þessir menn séu kaþólskari en páfinn.
    Nei, þetta boðar svo sannarlega ekki gott. Hæstv. forsrh. finnur nú gjarnan sök hjá þeim sjóðum sem settir voru á fót af fyrri ríkisstjórn til að bjarga íslensku atvinnulífi frá hruni. Í raun og veru þarf ég ekki að svara því. Það hafa aðrir gert svo ágætlega eins og t.d. alþýðuflokksmaðurinn, forseti Alþýðusambands Vestfjarða, sem rakti í fjölmiðlum hvernig fyrirtækin allt í kringum landið hefðu hrunið ef ekki hefði verið gripið til slíkra aðgerða. Ég leyfi mér að fullyrða að kostnaður ríkissjóðs hefði orðið margfaldur ef ekki hefði verið komið í veg fyrir það gjaldþrot sem blasti við, svo ég tali nú ekki um kostnað einstaklinganna og kostnað fyrirtækjanna, kostnað þjóðarbúsins í heild sinni.
    Hæstv. forsrh. talar enn þá um laxeldið. Það er eins og hann einn hafi ekki vitað að laxeldið var í erfiðleikum. Hann fullyrðir að þar hafi verið farið leynt með. Á hverju byggði t.d. hv. 1. þm. Vestf. það ágæta frv. og athyglisverða sem hann flutti á þinginu sl. vetur um aðstoð við fiskeldið? Á hverju haldið þið að hann hafi byggt það? Á hverju byggðist það samkomulag sem varð á milli ríkisstjórnar og flm. frv. um aðgerðir í þágu laxeldis sem byggðu fyrst og fremst á því frv. Byggðu þær á því að einhverju var haldið leyndu? Ég held það sé ekki nokkur einasti maður sem trúir slíku. Og að hugsa sér að fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík skuli tala um sóun á opinberu fé. Það verður með sanni sagt að þar kastar grjóti sá sem í glerhúsinu býr.
    Nú er kominn út nýr boðskapur og menn tala um varanlega velferð. Hvað þýðir svona slagorð? Kemur hin varanlega velferð fram í því sem hæstv. heilbrrh. hefur verið að gera? Kemur hin varanlega velferð fram í þeim handahófskenndu aðgerðum sem hann gerði og áttu að draga úr lyfjakostnaði? Kemur hún t.d. fram í því að foreldrarnir með ungu börnin sín verða nú að greiða fullu verði fúkkalyfin þegar börnin fá eyrnabólgu eða hálsbólgu? Ég hitti slíka foreldra í sumar sem hurfu frá því að kaupa slík lyf. Hvernig í ósköpunum getur einn ráðherra við sitt skrifborð ákveðið að þetta lyf skuli greiða fullu gjaldi og annað ekki? Að sjálfsögðu er þetta ekkert annað en sjúklingaskattur.
    Hvað boðar sá sparnaður í heilbrigðiskerfinu sem við höfum hlustað á upp á síðkastið? Hvað boðar það t.d. að loka því sjúkrahúsi sem hagkvæmast er og með lægstu daggjöldin og án þess að veita fjármagn til hinna sem hljóta að þurfa að taka við sjúklingunum? Er það þessi varanlega velferð?
    Það eru æðimargar slíkar spurningar sem ekki hefur verið svarað. Ég sé ekki betur af því sem hefur gerst og met þannig stefnu þessarar ríkisstjórnar að frjálshyggjan fari með lausan tauminn og hér sé í raun og veru það að gerast að verið sé að rífa niður það velferðarkerfi sem íslenska þjóðin hefur byggt upp áratugum saman af miklum dugnaði.
    Hæstv. forsrh. segir að ég hafi sagt að byggðastefna framsóknarmanna hafi brugðist. Þarna er nú ein af þessum hálfkveðnu vísum hans. Ég sagði að byggðastefna undanfarinna ára hefði ekki náð þeim árangri sem að var stefnt og það er rétt. Þrátt fyrir stórkostlegar aðgerðir, t.d. í samgöngumálum, fjarskiptamálum, hafnamálum, þá flytur fólkið enn þá búferlum frá dreifbýlinu til þéttbýlisins og ég held að við hljótum að viðurkenna þetta öll.
    En hvernig ætlar núv. hæstv. ríkisstjórn að taka á þessu máli? Hæstv. forsrh. sagði ekki alls fyrir löngu að það yrði að svipta Byggðastofnun fjárræði. Hann minnist ekki á það nú. Voru þetta marklaus orð? Ég spyr. Getur einhver upplýst það hér í kvöld? Stendur enn þá til að svipta Byggðastofnun fjárræði? Að vísu treysti ég formanni Byggðastofnunar til að koma í veg fyrir slíkt glapræði, en af hverju talaði forsrh. svona? Ég vildi gjarnan fá á þessu skýringar.
    Það er varla hægt að standa hér án þess að ræða lítillega um Evrópskt efnahagssvæði þó tími minn leyfi ekki að fara ítarlega út í það. Að vísu kom lítið fram um það hjá hæstv. forsrh. nema helst að hann sér þar einhvern bjargvætt í erfiðu íslensku ástandi. Hins vegar hefur mér heyrst að hæstv. utanrrh. sé nú kominn að allt annarri niðurstöðu en fyrir örfáum mánuðum. Sagði hann ekki að hann væri orðinn hundleiður á EB? Mér sýnist að hæstv. utanrrh. sé nú farinn að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd að EB eru einhver harðsvíruðustu sérhagsmunasamtök sem til eru í þessum heimi. Evrópubandalagið kappkostar, hvort sem það er gagnvart Afríku eða Íslandi, að fá inn hráefni sem ódýrast en standa sem mest gegn því að fullunnar iðnaðarvörur fái aðgang. Það er í raun og veru í hnotskurn þetta sem við erum að stríða við og verðum vitanlega að taka til mjög alvarlegrar athugunar.
    Hæstv. forsrh. sagði í upphafi sinnar ræðu fáein orð sem eru mjög athyglisverð og ég vil taka undir. Okkur Íslendingum hefur tekist á undanförnum áratugum að koma hér á fót þjóðfélagi sem er að mörgu leyti sérstætt og við búum við afar góð lífskjör, bæði efnahagslega og góð persónuréttindi. Ég hygg að hæstv. forsrh. hafi nokkurn veginn orðað þetta svo. Þetta er athyglisvert þegar litið er svo á það sem á eftir fylgdi í ræðu hæstv. forsrh. En þetta er staðreynd. Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp eitt hið ágætasta velferðarþjóðfélag sem þekkist. Hvernig hefur það gerst? Það hefur gerst fyrst og fremst með dugnaði einstaklinganna, stjórnenda fyrirtækjanna og samstarfi þeirra við stjórnendur bæði ríkis og sveitarfélaga. Það er sú samstaða sem hefur fyrst og fremst náð þeim gífurlega árangri sem við Íslendingar búum að.
    Þessa samstöðu má ekki rjúfa í fábrotnu íslensku efnahagslífi. Stjórnvöld verða að vera reiðubúin til þess að vera sá bakhjarl í íslensku efnahagslífi sem þarf þegar á móti blæs. Annars mun okkur ekki takast að brúa þær miklu sveiflur sem íslenskt efnahagslíf þarf svo sannarlega oft að búa við.
    Það er alveg óþarfi að vera að draga hér upp einhverja svartsýnismynd af íslensku efnahagslífi og framtíð okkar Íslendinga. Vissulega blæs á móti nú, en það hefur oft gert það áður. Það gerði það, eins og ég sagði, á árunum 1967 til 1968, ekki síður en það gerir nú. En við eigum í þessu landi mikinn hóp af dugmiklum einstaklingum, einstaklingum sem eru vel menntaðir, nokkuð sem við þurfum að leggja áherslu á. Ég vil í því sambandi segja það skýrt og skorinort að Framsfl. mun aldrei fylgja því að leggja skólagjald á nemendur og draga þannig úr menntahvöt einstaklingsins. Þetta er einhver sú mesta auðlind sem við Íslendingar eigum.
    Á grundvelli þessarar auðlindar, grundvelli dugnaðar einstaklingsins, framsýni stjórnvalda, vonandi einhvern tímann bráðum, getum við Íslendingar tryggt okkur gott líf í þessu landi um langan aldur. Ég á þá von heitasta að þessari ríkisstjórn takist ekki að rífa niður það mikla sem hefur verið upp byggt. --- Ég þakka þeim sem hlustuðu.