Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 21:42:00 (136)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Alþfl. hefur um árabil barist fyrir breytinum á því kerfi sem helsta auðlind þessarar þjóðar, sjávarútvegurinn, býr við. Það var fyrir tilstilli jafnaðarmanna að lögfest var að fiskstofnar við Ísland væru sameign þjóðarinnar en ekki séreign örfárra útgerðarmanna. Ekki síst til að gera þetta ákvæði virkt og til að tryggja nauðsynlegar umbætur á starfsumhverfi sjávarútvegsins gekk Alþfl. til samstarfs í þessari stjórn. Um þessar mundir er að koma betur og betur í ljós hversu óheillavænlegar afleiðingar fylgja því að ekki skuli vera búið að koma á hugmyndum jafnaðarmanna um veiðileyfagjald eða kvótaleigu. Er enn við lýði það fáheyrða skipulag að útgerðarmönnum eru afhentar endurgjaldslaust heimildir til að veiða fiskinn í sjónum sem við, fólkið í landinu, eigum þó lögum samkvæmt. Þetta hefur verið kallað mesta eignatilfærsla Íslandssögunnar. Eðlilega ganga útgerðarfyrirtækin á lagið. Þannig er nú að verða alsiða að fyrirtækin eignfæri kvótann, þessi ,,eign`` er svo afskrifuð í ársreikningum og afskriftirnar notaðar til að búa til falskan rekstrarkostnað sem annaðhvort dregur úr sköttum eða í versta falli byggir upp tap sem eigendurnir geta síðan selt. Þess eru jafnvel dæmi að stór útgerðarfyrirtæki noti kvótann með þessum hætti til að laga eiginfjárstöðu sína áður en þau fara í útboð á hlutafé. Með þessu geta þau náð til sín verulegu fjármagni á hlutafjármarkaðnum og síðan notað þetta fjármagn til að kroppa til sín enn meiri kvóta frá byggðarlögum sem eru þó þegar farin að líða stórlega fyrir kvótamissi. Það þarf því engan að undra að Alþfl. leggur höfuðáherslu á að þessu fráleita kerfi verði breytt og innan stjórnarinnar er þetta verk þegar hafið. Þannig er því lýst skorinort yfir í starfsáætlun stjórnarinnar að veiðiheimildir Hagræðingarsjóðs verði seldar á markaðsverði. Með þessu teljum við jafnaðarmenn að verið sé að stíga fyrsta skrefið að því að aflaheimildir verði ekki færðar útgerðarmönnum á silfurfati heldur leigðar árlega gegn gjaldi. Það er hins vegar ekki nóg að koma á kvótaleigu. Við Íslendingar þurfum líka að stórefla fiskmarkaðina. Þess vegna leggur Alþfl. ríka áherslu á að sem mest aflans fari yfir innlendan markað þannig að tryggt sé að sem stærstur hluti hans sé unninn á Íslandi. Ég staðhæfi að með því að stórefla hlutverk fiskmarkaðanna er hægt að vinna upp mikinn hluta tekjutapsins sem kvótaskerðingin veldur þó að vissulega skipti máli að hagstæðir samningar náist um Evrópskt efnahagssvæði.
    Lýðræðið er dýrmætt en það er viðkvæmt. Í litlu þjóðfélagi eins og okkar er það afar hættulegt ef of mikil völd safnast á hendur of fárra einstaklinga eða hagsmunahópa. Þá skapast einokun sem ævinlega er dragbítur á framfarir og vitaskuld andstæð hagsmunum neytenda. Þetta hefur því miður gerst í okkar litla þjóðfélagi. Hér ríkir fákeppni eða hrein ríkisvernduð einokun á allt of mörgum sviðum. Lítil og miðlungsstór útflutningsfyrirtæki í fiskvinnslu eru nú stödd á heljarþröm vegna þess að stóru sölusamtökin hafa nánast lögverndaða einokun á útflutningi. Eimskipafélagið ræður flutningum á sjó. Það beitir öllu sínu afli til að koma í veg fyrir að upp komi ný samkeppni. Sama félag hefur nú náð miklum áhrifum í Flugleiðum. Þannig ráða örfáir menn nánast því sem þeir vilja um verð og tilhögun flutninga til og frá landinu. Sami hópur ræður líka stærsta einkabanka landsins og stærsta tryggingafélaginu. Þannig liðast armar kolkrabbans um flesta mikilvægustu þætti athafnalífsins og drepur í dróma frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja sem ná að ógna einhverjum hluta hans um stundarsakir. Þessi einokun vinnur gegn hagsmunum neytenda. Það er því sérstakt fagnaðarefni að ríkisstjórnin hefur lýst því yfir skorinort að löggjöf verði sett gegn hringamyndun og einokun. Því munu þingmenn Alþfl. fylgja mjög fast eftir.
    Jafnaðarmenn hafa fyrir sitt leyti markað þá stefnu að hófleg þjónustugjöld megi nota til að auka aðhald og sparnað. Það er hins vegar ófrávíkjanleg forsenda af hálfu jafnaðarmanna að sérstakt tillit verði tekið til barnafólks og aldraðra. Af þeirri ástæðu höfnum við því afdráttarlaust að gjöld verði tekin fyrir sjúkrahúsvist og af sömu ástæðu er veruleg andstaða innan Alþfl. við handahófskennd skólagjöld. Og til að taka af öll tvímæli er rétt að fram komi að þessi þingmaður hér mun aldrei greiða skólagjöldum sitt atkvæði.
    Stjórnarandstaðan hefur geisað mjög gegn þjónustugjöldum og látið eins og hún hafi aldrei heyrt á þau minnst áður. En vel á minnst, hver skyldi nú fyrst hafa innleitt umræður um þjónustugjöldin. Var það sá illi þrjótur Davíð Oddsson? Nei. Var það kannski Jón Baldvin Hannibalsson? Nei. En var það kannski fyrrv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson? Já, það var nefnilega hann. Það var nefnilega minn gamli fóstri, Ólafur Ragnar Grímsson, sem hóf þá umræðu með því að halda sérstaka ráðstefnu um þjónustugjöld á vegum fjmrn. Og

það var sami Ólafur Ragnar Grímsson sem opnaði á það fyrstur íslenskra fjmrh. að skólagjöld yrðu látin standa undir sérstökum rekstrarkostnaði Háskólans. Og þetta varð til þess m.a., svo að ég hressi örlítið upp á minni hæstv. fyrrv. fjmrh., að stúdentaráð Háskóla Íslands sá sérstaka ástæðu til þess að álykta gegn þessu og samkvæmt ályktun sem samþykkt var 1. október 1990, segir, með leyfi forseta:
    ,,Menntamálanefnd stúdentaráðs Háskóla Íslands mótmælir harðlega hugmyndum fjármálaráðherra um skólagjöld við Háskóla Íslands í hvaða mynd sem er.``
    Þarf þá frekari vitna við um hver á krógann? Hefur Alþb. gleymt þessu? Ef svo er, þá get ég lofað forustu Alþb. því að ég mun minna hana á þetta frumkvæði hennar hér í sölum Alþingis aftur og aftur og aftur. En núna hlakka ég til að sjá formann Alþb. koma hér upp á eftir. Hann mun þá væntanlega skýra þjóðinni frá því hvort Alþb. sé á á sömu stefnu og hann var í fyrra í skólagjaldamálinu, hvort hann hyggist kannski halda fleiri ráðstefnur um þjónustugjöldin eða hvort hann sé kannski eins og systurflokkur Alþb. í Danmörku, sósíalíski þjóðarflokkurinn, búinn að vernda sínu kvæði í kross og farinn að styðja hófleg þjónustugjöld eins og allaballar hennar hátignar Danadrottningar. Menn þurfa því ekki að undra þó að forusta Alþb. sé heldur óstyrk þegar hún talar um þjónustugjöld og sumir reyndar svo mjög að þeir minna helst á slánalegar fermingarstelpur sem eru að stelast til að prófa háu hælana hennar mömmu.
    Góðir Íslendingar. Mæt fyrrv. þingkona Kvennalistans hefur lýst mæðrahyggju listans þannig að í henni felist tilhneiging til að siða til óknyttadrengina í kring. Nýir þingmenn eins og ég sjálfur hafa síðustu daga horft upp á hluta stjórnarandstöðunnar láta þannig í þessum öldnu og virðulegu sölum að þó sumir þeirra hafi troðið marvaðann á þingi í vel á annan áratug, þá kemur mér ekkert betra orð í hug til að lýsa þeim en óknyttadrengir. Þeir hafa jafnvel ekki skirrst við að veitast með heldur dapurlegum hætti að þeim ágæta og virðulega forseta sem hér stýrir endranær fundi. Ég vil því enda mál mitt með því að skora á þingkonur Kvennalistans að siða nú til óknyttadrengi stjórnarandstöðunnar í anda hinnar fornu mæðrahyggju. Þá getur þetta þing kannski loksins farið að vinna. --- Ég þakka.