Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:22:00 (140)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Einu sinni fyrir langa löngu sat vond stjórn á Íslandi. Myrkrið grúfði yfir landinu, það var miðstýring, höft og skömmtun. En þá komst góða stjórnin til valda og sjá: Það varð viðreisn. Sólin braust fram úr skýjunum og frelsið blómstraði. Það syrti í álinn um sinn en menn beittu skynsemi og áræði þannig að hagur þjóðarinnar fór batnandi á ný. Samt komst vonda stjórnin aftur til valda og það liðu mörg, mörg ár með þrútið loft og þungan sjó, ægilegri miðstýringu, sjóðasukki og halla á ríkissjóði. Deyfilyfjum var dælt í helsjúkt atvinnulífið. Frelsisflokkurinn stóð hnípinn hjá og fékk ekkert að gert.
    Þá gerðist það að vorlagi að Davíð og Jón Baldvin hittust í Viðey og sóru þess dýran eið að koma aftur á frelsi og létta oki miðstýringarinnar af þjóðinni. Þeir skyldu ekki verða sakaðir um dulið dálæti á ríkisafskiptum eins og drengirnir hennar Margrétar Thatcher. Þeir gengu saman út í bjarta vornóttina til að skapa nýja viðreisn.
    Góðir áheyrendur. Þessa svarthvítu söguskoðun las ég út úr þeirri stefnuræðu hæstv. forsrh. sem hér var flutt í kvöld. Menn hafa löngum leikið sér að því að túlka söguna sér í vil og það verður að segjast að það sakleysi Sjálfstfl. sem skín út úr þessari ræðu er harla ósannfærandi. Það er eins og Sjálfstfl. hafi ekki komið nálægt stjórn landsins nema á viðreisnarárunum. Á þeim 47 árum sem liðin eru frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur Sjálfstfl. setið í stjórn í 33 ár, gott betur en 2 / 3 hluta lýðveldistímans. Hann ber ekki síður en hinir gömlu flokkarnir ábyrgð á þeirri miðstýringu, ríkisafskiptum, forsjárhyggju, byggðaröskun, fjárfestingarmistökum, bruðli og sóun sem hæstv. forsrh. gagnrýnir nú svo ákaft. Sjálfstfl. er ekki síður en aðrir þeir sem setið hafa í stjórn flekkaður af spillingarkerfi þar sem embættum er úthlutað til flokksgæðinga þvert á faglegar kröfur og hagsmuni þjóðarinnar. Ég hygg að enn sitji menn hér í þessum sal sem tekið hafa þátt í að

færa vald frá sveitarfélögum til ríkisins, frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, frá fólkinu til valdhafa.
    En hæstv. forsrh. kýs að kasta öllum syndum Sjálfstfl. bak við sig og sjá þær aldrei meir. Hann vill gleyma hliðarsporum með Framsókn og Sósíalistaflokknum og muna bara góðu árin með elskunni sinni í viðreisn. En hvernig var þessi viðreisn? Hún fór vel af stað og vissulega var losaði um höft. Aflabrögð voru góð og síldarævintýrið færði björg í bú. En einn góðan veðurdag var síldin búin. Verðfall varð á mörkuðum, atvinnuleysi, landflótti, gengisfellingar á gengisfellingar ofan, verkföll svo vikum skipti, átök á götum Reykjavíkur og námsmenn gerðu uppreisn. Þannig endaði sú sæla. Þjóðin fékk sig fullsadda af viðreisninni og stjórnin féll árið 1971.
    Nú hafa viðreisnaröflin náð völdum á nýjan leik og fara ekki með friði frekar en hið fyrra sinni. Það eru boðaðar miklar breytingar. Frjálshyggjubókmenntum rignir yfir þing og þjóð. Það á að taka upp þjónustugjöld í skólum og á sjúkrastofnunum. Launafólki er tilkynnt að launahækkanir verði engar, afskiptum af atvinnulífinu verður hætt í einum grænum hvelli, einkavæðing er boðuð í atvinnurekstri og skólum, stofnanir verða lagðar niður eða seldar. Það skal beitt leiftursókn til að ná niður ríkishallanum. Reiknimeistarar frjálshyggjunnar liggja yfir tölum og línuritum og reikna með ískaldri ró út hagræðingu, gróða eða halla. Það er ekki spurt um þarfir, gæði eða gott mannlíf, orsakir eða afleiðingar, hvað þá vilja fólksins í landinu. Konur í Reykjavík skulu sviptar vali á fæðingarstofnunum, fyrirmyndarhjúkrunarheimili í hjarta borgarinnar þar sem gamla fólkið getur fylgst með iðandi athafnalífi skal burt. Skurðstofum á að loka og breyta vel reknu sjúkrahúsi Hafnfirðinga í hjúkrunarheimili. Lánasjóði ísl. námsmanna sem gert hefur þúsundum námsmanna kleift að afla sér margvíslegrar menntunar verður breytt á þann veg að annað tveggja hlýtur að gerast, námsmönnum mun stórfækka eða stór hópur menntafólks mun búa við afar kröpp kjör að loknu námi vegna þungrar skuldabyrði. Og er þá aðeins fátt eitt nefnt af því sem stjórnin boðar.
    Ég spyr: Hver hefur gefið ríkisstjórninni umboð til slíkra breytinga? Ekkert þessu líkt var rætt í kosningabaráttunni sl. vor. Ekkert samráð hefur verið haft við einn eða neinn. Stjórnin er með aðgerðum sínum að koma aftan að þjóðinni, enda blæs nú ekki byrlega í segl hennar. Verkalýðshreyfingin er á móti henni. Námsmenn eru á móti henni. Meiri hluti kjósenda styður hana ekki lengur ef marka má skoðanakannanir. Vinnuveitendasambandið gagnrýnir hana. Og jafnvel heggur nú sá er hlífa skyldi. Sjálft Morgunblaðið reynir að koma vitinu fyrir stjórnina með því að kalla til vitnis breskan íhaldsmann sem fengið hafði sig fullsaddan af frjálshyggjuvitleysunni í Thatcher og ráðgjöfum hennar. Þeir stjórnarliðar sem enn eru eftir geta gert orð Jóns Grindvicensis í Íslandsklukkunni að sínum: ,,Minn herra á öngvan vin.`` Ríkisstjórn sem er svo vinafá og snauð stjórnar í óþökk þjóðarinnar og á að segja af sér áður en draumar Davíðs og félaga breytast í martröð þjóðarinnar.
    Í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í Evrópu hlýtur að fylgja umrót og uppstokkun þeirra hugmynda sem ráðið hafa för í pólitískri þróun álfunnar. Þar eru ekki á ferð einhverjir tveir tærir meginstraumar sem takast á líkt og segir í ræðu hæstv. forsrh. heldur hafa líka orðið til ýmsar blöndur sem bæði hafa fætt af sér gott og illt. Nú er komið að því að vega og meta hvað er nothæft og hverju þarf að henda úr þessum hugmyndaheimi sem haft hefur áhrif á alla stjórnmálaflokka og flestar þær pólitísku hreyfingar sem nú starfa.
    Mörgum spurningum þarf að svara. Við þurfum að skilgreina hlutverk ríkisvaldsins upp á nýtt. Karlmenn verða að opna augu sín fyrir kröfum kvenna um breytt þjóðfélag og láta hluta af völdum sínum. Börnin verða að öðlast sess sem mikilvægasti fjársjóður samfélagsins á hverjum tíma. Við verðum að finna leið til að nýta okkur kosti markaðsbúskapar, sem vissulega eru til staðar, án þess að það bitni á náttúrunni eða ábyrgð okkar á bræðrum okkar og systrum. Við þurfum að bæta gæði mannlífsins í stað þess að dansa stöðugt hraðar kringum gullkálfa eyðslu og sóunar. Við verðum að koma okkur saman um meginlínur í þeirri velferðarþjónustu sem við viljum reka. Það þarf vart að minna á hve gott velferðarkerfi er mikilvægt fjölskyldum þessa lands og það er grundvöllur aukins frelsis kvenna til að velja sér lífsfarveg.
    Síðast en ekki síst bíður allra jarðarbúa það risavaxna verkefni að taka á vandamálum mannkynsins en þau eru: vaxandi andstæður milli ríkra þjóða og fátækra, mengun, gífurleg fólksfjölgun, eyðing skóga og ósonlags ásamt sjúkdómum, t.d. eyðni, sem kosta mun mannkynið miklar upphæðir á næstu árum, enda útbreiðslan hröð. Spennufallið í samskiptum risaveldanna og það ánægjulega afvopnunarkapphlaup sem nú er hafið gefur ríku þjóðunum tækifæri til að snúast í sameiningu gegn eyðingaröflunum. Samvinna, gagnkvæm virðing og skilningur á því að við eigum aðeins eina jörð verður að ráða för eigi að takast að snúa dæminu við.
    Hverjir eiga að leiða þá miklu vinnu sem fram undan er í heiminum? Svo mikið er víst að frjálshyggjuöflunum er ekki treystandi til þess. Í þeirra húsum sitja hagsmunir stórfyrirtækjanna í fyrirrúmi. Það er ekki tilviljun að helstu dragbítar á sameiginlega umhverfisvernd í heiminum, meðal þeirra ríkja sem geta beitt sér, eru Bandaríkin, Bretland og Japan, ríki þar sem markaðsöflin leika lausum hala. Heimurinn þarf á nýrri stjórnmálastefnu að halda, stefnu sem sameinar virðingu við náttúru og mannlíf, stefnu sem nýtir hið besta úr reynslu karla og kvenna, stefnu sem setur mannréttindi, mannúð og réttlæti í öndvegi.
    Góðir áheyrendur. Fram undan eru tímar samdráttar vegna minnkandi afla. Á slíkum tímum er mikilvægt að endurskoða tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, skipta jafnar og réttlátar því sem til er. Við verðum að nýta betur það sem við eigum, auka rannsóknir, gera tilraunir og leita nýrra leiða til atvinnusköpunar. Íslenskt samfélag þarf svo sannarlega á endurskipulagningu, uppbyggingu og nýsköpun að halda. En til að árangur náist þarf að ríkja sæmileg sátt um hvert stefna skuli.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar lítur svo á að hún hafi vald til þess að koma stórfelldum breytingum nánast umræðulaust. Hún hefur ákveðið að taka krappa hægri beygju inn á einstefnugötu markaðslögmálanna á ólöglegum hraða. Það er þjóðarinnar að stöðva þennan hættulega hraðaakstur sem allra fyrst áður en hann veldur stórslysum.