Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:32:00 (141)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
     Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Í upphafi þings ganga þingmenn til kirkju til að njóta menningar og listar á kyrrlátri stund í erli dagsins. Þannig erum við minnt á menningararfleifð þjóðarinnar sem er samofin íslenskri kirkju. Þetta er í senn hátíðleg og virðuleg athöfn sem sæmir vel Alþingi Íslendinga.
    Inn um glugga Dómkirkjunnar berst hávaði. Hann kemur frá ungmennum sem hafa safnast saman á Austurvelli til að mótmæla. Þetta unga fólk mótmælir því sem það kallar aðför að jafnrétti til náms, skerðingu námslána, innritunargjöldum í skóla og ýmsu fleiru. Þarna standa meðal annarra þingmenn framtíðarinnar sem í fyllingu tímans takast á hendur ábyrgð á stjórn landsins. Mér dettur ekki í hug að halla á íslenska æsku. Þar fer fallegt, frjálslegt, heilbrigt og mannvænlegt fólk, enda alið upp við nægtir og makræði þess velferðarþjóðfélags sem við höfum byggt upp hér á landi. Þarna voru börnin okkar þúsundum saman.
    Þessi mótmæli vöktu með mér hugrenningar um að lífið er ekki tómur gleðileikur. Við þurfum ætíð að vera viðbúin mótlæti. Þetta vissu forfeður okkar í landi sem er háð

duttlungum náttúrunnar í einu og öllu. Og þrátt fyrir alla tækni erum við enn minnt á þessa staðreynd er aflasamdráttur blasir við og þar með minnkandi þjóðartekjur. Það þarf sterk bein til að þola góða daga. Mér þótti við þessar aðstæður tónninn í mótmælum námsmannanna ekki með öllu sanngjarn. Við höfum til skamms tíma getað búið vel að námsfólki okkar og viljum gera það áfram. Hitt er ljóst að til að svo megi verða þurfum við að tryggja framtíð Lánasjóðs ísl. námsmanna með ráðdeild og raunhæfum aðgerðum.
    Það er heldur ekkert óeðlilegt við hófleg innritunargjöld. Þau eru hugsuð þannig að framhaldsskólarnir ákveði sjálfir hvort þeir leggi slík gjöld á eða nái fram sparnaði í rekstri til að brúa það bil sem þeim er ætlað að fylla. Þar að auki má minna á þá staðreynd að innritunargjöld hafa lengi tíðkast í skólum hér á landi.
    Í útvarpinu á dögunum var viðtal við nokkra nemendur í Garðaskóla í Garðabæ. Þau tóku þátt í nemenda- og kennaraskiptum við þekktan skóla í Frakklandi. Tvennt vakti athygli mína í þessu viðtali. Annars vegar sú alþjóðlega samvinna sem þarna átti sér stað og það stórkostlega tækifæri sem krakkarnir fengu til að kynnast erlendum jafnöldrum sínum. Hins vegar hvað þeim fannst skilja þjóðirnar að. Íslendingarnir nefndu strangan aga í Frakklandi, bæði í skóla og heima. Frakkarnir nefndu sérstaklega hvað Íslendingar færu seint að sofa. Mér fannst þessir krakkar þótt ungir væru býsna glöggir á kviku íslensks samfélags sem hefur á síðustu áratugum einkennst öðru meir af agaleysi hvert sem litið er. Þetta agaleysi birtist á heimilum, í skólum, atvinnulífi og hjá ríki og sveitarfélögum. Það kemur m.a. fram í því að ekki hefur verið gætt þess aðhalds sem skyldi og nú er svo komið að óhjákvæmilegt er að bregðast við þeim vanda sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir. Það verður að stöðva eyðsluna og skuldasöfnunina. Við höfum lifað um efni fram og þá er ekki um annað að ræða en spara í stóru og smáu, jafnt einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar. Þar verður ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi og það er raunar sterkasta leiðarljós þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við völd.
    Heimurinn í dag er annar en í gær. Vaxandi samvinna þjóða kallar einnig á aukna samkeppni. Menntun er undirstaða framfara. Það veltur á menntuninni hvernig okkur reiðir af í samvinnu og samkeppni við aðrar þjóðir. Þess vegna ber að leggja þyngri áherslu á menntun þjóðarinnar í framtíðinni. Um menntunina þarf að fjalla á málefnalegan og gagnrýninn hátt. Ég er ekki með þessum orðum að segja að menntun eigi að vera dýrari. Ég er að leggja áherslu á gæði menntunar og að við nýtum til hins ýtrasta þá fjármuni sem til hennar er varið. Ég vænti þess að við eigum hér í vetur málefnalegar og uppbyggilegar umræður um menntamál þjóðarinnar.
    Góðir áheyrendur. Meginhlutverk íslenskra stjórnmálamanna á næstu árum verður að koma íslensku samfélagi á réttan kjöl að nýju eftir eyðslustefnu og fyrirhyggjuleysi síðustu missira. Við þurfum að treysta undirstöður samfélags þar sem fólk og fyrirtæki fá að njóta sín, samfélags þar sem fólk þorir að eiga sér hugsjónir og drauma og hefur aðstæður til að hrinda þeim fram. Án slíks verða engar framfarir. Það er rík tilhneiging til þess í fari okkar Íslendinga að mála sterkum litum. Þótt móti blási um stund megum við ekki missa kjarkinn og leggjast í sekk og ösku, heldur þvert á móti nota andstreymið til að sigrast á þeim erfiðleikum sem nú blasa við. Vilji er allt sem þarf.