Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:45:00 (143)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Það verður ekki með sanni sagt að sú ræða sem hæstv. forsrh. flutti hér áðan hafi verið efnisrík eða stefnumarkandi. Fremur var það nú hið gagnstæða. Hún var í stíl við þá stefnuræðu eða vísi að stefnuræðu sem hann flutti á vorþinginu og kaffipakkaræðuna sem hann flutti á Austurvelli 17. júní sl. Ég tel að hæstv. forsrh. þurfi að fá sér betri aðstoð við ræðugerð.
    Út frá þessari stefnuræðu er ekki auðvelt að festa hendur á því hvað ríkisstjórnin vill. Í lok stjórnarmyndunar í Viðey var enginn eiginlegur málefnasamningur gerður, bara svona heiðursmannasamkomulag, og þá boðaði hæstv. forsrh. með talsverðu steigurlæti að með haustinu yrði gefin út svokölluð hvítbók með nánari útfærslu á stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Þar yrðu nú bakskjölin aldeilis birt. Þessa bók hefur okkur loksins tekist að særa út úr ríkisstjórninni nú í morgun. Ég sá mig í gær tilneyddan að fara hér í ræðustól til þess að krefjast þess fyrir hönd þingflokks okkar að okkur yrði afhent þessi hvítbók, enda var hún þá komin í hendur fréttamanna. Við þessari kröfu er nú loks orðið. Þó var ekki eftir miklu að slægjast. Hvítbókin er full af skrúðmælgi og óskhyggju en í of litlu samræmi við verk ríkisstjórnarinnar. Þó finnast þar háskalegar hótanir. Hæstv. utanrrh. veifaði þessari bók hér áðan og ljóstraði upp um nokkrar af þessum hótunum. Það sem máli skiptir er það að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur með verkum sínum og framgöngu síðan hún tók við valdataumunum sýnt sitt rétta andlit.
    Við framsóknarmenn ákváðum það í vor að gefa nýrri ríkisstjórn starfsfrið ef það mætti verða til þess að hún næði tökum á verkefni sínu. Við höfum sýnt henni umburðarlyndi en nú verður ekki lengur undan því vikist að reyna að koma vitinu fyrir hana eða að öðrum kosti reyna að koma í veg fyrir að henni takist að framkvæma sumt af því sem hún hefur á prjónunum. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er að skemma þjóðfélagið.
    Við Íslendingar eigum gott land og gjöfult haf. Við höfum á undanförnum áratugum byggt hér þjóðfélag sem hefur að flestu leyti verið til fyrirmyndar. Hér hefur verið komið á velferðarkerfi þar sem allir hafa haft nóg að bíta og brenna og búið við félagslegt öryggi. Aldraðir og sjúkir hafa átt aðgang að læknisþjónustu og lyfjum án tillits til efnahags. Jafnrétti hefur verið til náms þannig að allir sem gátu og vildu hafa getað numið án tillits til efnahags. Atvinna hefur verið næg, þjóðarsátt ríkt á vinnumarkaði og verðbólga hefur með sameiginlegu átaki aðila vinnumarkaðarins, bænda og ríkisvalds verið færð í bönd þannig að hér ríkti efnahagslegt jafnvægi og stöðugt verðlag.
    Þegar ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók til starfa urðu mjög glögg þáttaskil í þjóðfélaginu. Þrátt fyrir það að nú hafi verið gefin út svokölluð hvítbók sem heitir ,,Velferð á varanlegum grunni`` --- þetta er fallegt nafn --- sú velferð sem hér er lagður grunnur að er ekki velferð allra, aðeins velferð fárra. Og grunnurinn, þar er boðuð efnahagsleg velferð fjölskyldnanna fjórtán og lagður grunnur undir þær en einungis grunnur fyrir þessar fjórtán fjölskyldur. Ríkisstjórnin þykist aðhyllast markaðsbúskap og frjálsa samkeppni og hún boðar löggjöf um bann við hringamyndun í hvítbókinni sömu dagana og verið er að kyrkja Ríkisskip í þágu Eimskipafélagsins og skaffa Flugleiðum einokunaraðstöðu. Ríkisstjórninni hefur á sínum stutta valdaferil tekist að færa ótrúlega margt til verri vegar. Þrátt fyrir það gengur stefnuræða forsrh. fyrst og fremst út á það að reyna að sverta fyrrv. ríkisstjórn og forsrh. hennar. Viðskilnaður ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var að flestu leyti góður. Þó hafði ekki unnist tími til að koma fullkomnu lagi á fjármál ríkisins og vextir voru enn þá of háir. En í stað þess að halda áfram góðu verki ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar greip ríkisstjórn Davíðs Oddssonar til þess ráðs sem óviturlegast var. Hún hafði forgöngu um að hækka vextina í landinu. Það hafði aftur þær afleiðingar að fyrirtæki og einstaklingar sem skulduðu fé fengu mörg hver ekki risið undir stóraukinni vaxtabyrði og skriða gjaldþrota hófst, beinlínis fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar.
    Ríkisstjórnin lýsti því yfir að hún mundi ekki standa fyrir neinum aðgerðum til aðstoðar fyrirtækjum eða atvinnuvegum í vanda. Ríkisstjórnin brást þeirri frumskyldu sinni að jafna út sveiflur og stuðla að því að atvinnulífið gæti gengið og því væru sköpuð eðlileg starfsskilyrði. Fyrirtækin voru knúin í gjaldþrot fullkomlega án þess að það væri athugað að í mörgum tilfellum var það ríkinu fjárhagslega miklu óhagkvæmara heldur en að rétta þeim hjálparhönd. Gjaldþrotin voru látin ganga yfir gjaldþrotanna vegna. Ríkisendurskoðun varð í sumar að breyta fyrri álitsgerð og vitnaði til þess að nú væri komin önnur stjórnarstefna þannig að gjaldþrot mundu stóraukast. Hæstv. forsrh. vitnaði hér áðan í hina síðari álitsgerð Ríkisendurskoðunar. Sú greinargerð var samin með hliðsjón af því að hann var kominn til valda og að ríkisstjórnin var hætt að létta undir með atvinnulífinu, fremur hið gagnstæða.
    Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar reynir að innleiða hér hið mannfjandsamlega og ískalda kenningakerfi frjálshyggjunnar og taka upp stjórnarhætti og vinnubrögð sem alls ekki eiga við á Íslandi eða verða með nokkrum hætti löguð að íslenskum veruleika, án þess að það leiði til hins mesta ófarnaðar.
    Atvinnulífið er látið lönd og leið. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar koma kjarasamningar ekkert við. Í stefnuræðunni er varla minnst einu orði á kjarasamninga eða þróun launamála. Ríkisstjórnin hefur lagt fram fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Þetta fjárlagafrv. er framúrskarandi óraunhæft. Þótt það sé morandi í hótunum við velferðarþjóðfélagið, þá örlar þar varla á raunhæfum sparnaði eða aðhaldi. Sjálfstæðismenn sögðu fyrir kosningar að þeir ætluðu að lækka skatta. Reyndar er hv. 2. þm. Norðurl. v. Pálmi Jónsson undantekning því hann glopraði því út úr sér eða var svo hreinskilinn að segja að það væri ekki hægt. Þá ruku nú talsmenn Sjálfstfl. upp og töldu hann ekki mæla fyrir munn Sjálfstfl., þeir ætluðu aldeilis að lækka skattana.
    Þetta fjárlagafrv. boðar stórfelldar skattahækkanir svo nemur mörgum milljörðum. Skattahækkanirnar eru ekki ætlaðar þeim sem breiðust hafa bökin, nei. Sjúkum, öldruðum, barnafólki og námsmönnum er ætlað að bera meginþungann af þessum skattahækkunum. Svo kalla þeir þetta þjónustugjöld og ég veit ekki hvað og hvað og skólagjöld. Svo á að skerða barnabætur. Þá eru stórauknar álögur á atvinnuvegina. Þannig vegur ríkisstjórnin af fullkomnu miskunnarleysi að þeim sem minna mega sín og gerir það með bros á vör. Það er engu líkara en ráðherrunum þyki gaman að leggja á skólagjöld og leggja þannig af jafnrétti til náms án tillits til efnahags. Það eru engu líkara en þeir hafi gaman af því að svipta sjúka og aldraða félagslegu öryggi til að geta fengið lyf og læknisþjónustu án tillits til efnahags. Nei. Hér eftir á besta læknisþjónusta að vera sérréttindi þeirra sem hafa fé til að greiða hana. Þetta gera mennirnir sem gengu til síðasta landsfundar undir kjörorðinu: Mannúð og mildi.

    Ríkisstjórnin gerir gælur við að afhenda einkaaðilum skólana. Það er ekki í anda þess að varðveita jafnrétti til náms. Skólagjöld og skerðing námslána koma þungt niður á barnafólki og hinum efnaminni. Skólagjöld sem tekjuöflunarleið fyrir ríkisskóla er algert nýmæli sem betur fer. Stefna ríkisstjórnarinnar er landsbyggðinni einstaklega andsnúin og því atvinnulífi sem þar er stundað. Jafnvel þótt ýtrustu kröfum Alþfl. um að þröngva kosti landbúnaðarins og sjávarútvegsins hafi ekki verið sinnt samkvæmt hvítbókinni og reyndar ekki heldur fjárlagafrv. Veiðileyfagjald er næstum því eingöngu skattur á landsbyggðina.
    Við höfum átt í samningum um myndun Evrópsks efnahagssvæðis. Framsóknarmenn tóku þátt í því að sest var að því samningaborði, enda væri nauðsynlegum fyrirvörum haldið til haga og hagsmuna Íslands gætt vandlega. Það er ástæða til að óttast að núv. ríkisstjórn hafi ekki gætt hagsmuna Íslands nægilega. Slakað hefur verið á fyrirvörum og því miður eru fremur litlar horfur á að við eigum kost á viðunandi samningi. Þingflokkur framsóknarmanna mun meta það samningsuppkast, sem gert kann að verða, vandlega og með aðgát og taka að því búnu afstöðu til þess. Ekki kemur til greina að fallast á að veita útlendingum aðgang að fiskveiðilögsögunni, aðgang að útgerð eða aðild að útgerð og fiskvinnslu í stað tollaívilnana. Ekki má opna fyrir verulegan innflutning búvöru og rústa þannig íslenskan landbúnað með niðurgreiddri búvöru frá Evrópubandalaginu. Íslendingar verða áfram að eiga land sitt sjálfir og varðveita stjórnarfarslegt sjálfstæði.
    Góðir Íslendingar. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ekki vandanum vaxin. Hún fylgir hættulegum úrræðum frjálshyggjunnar í blindni og það mun leiða okkur í ógöngur. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er meira að segja að innleiða hér á Alþingi sömu vinnubrögð og sjálfstæðismeirihlutinn í Reykjavíkurborg notar, að taka aldrei ótilneyddur tillit til minni hlutans og sýna alltaf ýtrustu hörku í samskiptum við hann. Innan stjórnarflokkanna og hér á Alþingi er fjöldi mætra manna sem bæði hafa þekkingu á atvinnulífinu og ættu að hafa ábyrgðartilfinningu og burði til þess að hafa vit fyrir sínum mönnum í ráðherrastólunum. Hvað dvelur orminn langa?
    Eftir að Davíð Oddson yfirgaf borgarstjórastólinn hefur komið æ betur í ljós hve illa hann hefur stjórnað Reykjavíkurborg. Þar hefur allt vaðið í sukki og stjórnleysi. Hér hafa verið nefnd tvö dæmi, ráðhúsið og Perlan. Dæmin eru miklu fleiri. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Nú þykist hann hafa efni á því að gagnrýna góða stjórn fyrirrennara síns í embætti forsrh. Maður, líttu þér nær. Davíð Oddsson þykist ekki þurfa á efnahagsráðgjöf að halda. Þess í stað er hann að ráða sér hermálafulltrúa. Ríkisstjórn hans hefur fengið sitt tækifæri, hún hefur klúðrað því, hún er að skemma okkar góða þjóðfélag. Hún verður að fara frá sem fyrst. --- Góðar stundir.