Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 22:59:00 (144)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ólafur Ragnar Grímsson talaði mikið um velferðarríkið hér áðan. Hvernig lauk hv. þm. ferli sínum sem fjmrh.? Hann hreykir sér af því hér í þingsölunum að með því að undirrita búvörusamninginn og viðhengi hans með flokksbróður sínum Steingrími J. Sigfússyni hafi hann skuldbundið ríkissjóð á næsta ári til þess að greiða 2--3 þúsund millj. kr. meira í styrki til landbúnaðarins en á yfirstandandi ári. Þetta voru skuldbindingarnar sem hæstv. fyrrv. fjmrh. undirritaði sem vörðuðu velferð sauðskepnunnar. Hann undirritaði hins vegar enga samninga sem vörðuðu velferð gamla fólksins, barnafólksins eða sjúklinganna. Nei, þvert á móti skópu þessar aðgerðir hæstv. fyrrv. ráðherra vanda hjá gamla fólkinu, sjúklingunum og barnafjölskyldunni því að velferð sauðskepnunnar kreppir nú meira að velferð mannskepnunnar en hún gerði áður.
    Hv. þm. Svavar Gestsson gekk ungur til liðs við þá stefnu sem þá réði hálfum

heiminum. Þessi stefna hefur nú lagt í rúst efnahag þeirra ríkja í Evrópu sem fyrir rúmum mannsaldri voru í hópi auðugustu ríkja heims. Þar ríkir nú vesöld, fátækt og armóður. Leifarnar af hinu fyrrum fjölmenna stuðningsliði þessarar stefnu eru þó enn sums staðar á kreiki. Gera Íslendingar sér það ljóst hversu lánsamir þeir eru að hafa aldrei gengið undir ok þeirrar stefnu sem Svavar Gestsson og sumir félagar hans boðuðu? Sovét-Ísland, óskalandið, það kom aldrei, svo sé guði fyrir að þakka. Hefði það komið, þá mundi ríkja hér á Íslandi það misrétti sem ríkt hefur í löndum kommúnismans. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar miða ekki að því að koma á fót slíku misrétti, hvorki í heilbrigðismálum né í öðrum málum heldur þvert á móti að varðveita kjarna velferðarríkisins, þann kjarna að við viljum tryggja öllum lífsafkomuöryggi, hvort sem er um að ræða gamalt fólk, barnafólk eða sjúklinga.
    Við Íslendingar eigum nú að baki lengsta samfellda tímabil stöðnunar í efnahagslífi frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Allt frá árinu 1988 hefur ríkt kyrrstaða og afturför í þjóðarbúskapnum. Eftir því sem við best fáum séð eigum við ekki von á því að mikið rofi til á næstu 4--5 árum. Eina von okkar að auka þjóðartekjur í nánustu framtíð er að okkur takist að ná samningum um aukið aðgengi fyrir tollfrjálsar íslenskar afurðir á erlendum mörkuðum og álver á Keilisnesi. Ef ekki mun áfram ríkja kyrrstaða og afturför í íslenskum þjóðarbúskap þar sem þjóðin getur jafnvel átt von á því að lífskjör hennar rýrni um allt að 2% á ári á sama tíma og aðrar Evrópuþjóðir í kringum okkur halda áfram að sækja fram. Þetta er hið erfiða viðfangsefni sem stjórnvöld glíma nú við, þetta er kjarni málsins. Halldór Laxness hefur sagt: Því hefur verið haldið fram, segir skáldið, að Íslendingar beygi sig ekki fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og þó enn síður fyri rökum trúarinnar en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekkert kemur málinu við en verða skelfingu lostnir og setur hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.
    Umræðurnar sem orðið hafa á Alþingi að undanförnu og endurteknar eru í kvöld af hálfu stjórnarandstöðunnar eru góð lýsing á sannleiksgildi þessara orða skáldsins. Stjórnarandstaðan ræður ekki kjarna málsins. Að vísu setur hana ekki hljóða en sumir hengja sig í aukaatriðin, aðrir lemja höfðinu við steininn, sumir hrópa og kalla og aðrir fara að flengja sjóinn. Ef slíkar aðferðir væru líklegar til að leysa vandann væri stjórnarandstaðan að gera gagn með málflutningi sínum. Þar sem aukaatriðin skipta hins vegar ekki máli, höfuðið gefur eftir á undan steininum og sjórinn skilar ekki meiri afla þó að hann sé flengdur, þá er þessi málflutningur stjórnarandstöðunnar okkur gagnslaus.
    Þegar ég kom í heilbr.- og trn. lét ég það verða mitt fyrsta verk að biðja um úttekt á stöðu mála þar. Í þeirri úttekt kom fram að útgjaldaflokkar heilbr.- og trmrn. stefndu 1.700 millj. kr. fram úr heimildum fjárlaga. Sú fjárvöntun samsvarar því að fyrirvinna fjölskyldu hefði á síðari hluta ársins 1990 þurft að greiða meira en 14 þús. kr. í viðbótarskatt í ríkissjóð til að mæta þessum aukna kostnaði. Og hver var ástæðan fyrir þessari fjárvöntun? Hún var m.a. sú að aðgerðir sem fyrrv. ríkisstjórn hafði boðað um sparnað og aðhald voru aldrei framkvæmdar. Lyfjaútgjöldin ein saman stefndu 600--700 millj. kr. fram úr því sem fjárlög heimiluðu.
    Í Danmörku eru lyf álíka dýr og á Íslandi og er það eina landið í allri Vestur-Evrópu þar sem lyfjaverð er álíka hátt og hér. Danir kaupa lyf fyrir um 13.600 ísl. kr. á mannsbarn á ári. Íslendingar voru farnir að kaupa lyf fyrir yfir 20 þúsund ísl. kr. á mannsbarn á ári. Er það goðgá þó hugað sé að því hvort ekki megi lækka þennan mikla lyfjakostnað?
    Umræðan í kjölfar þeirra breytinga sem ég gerði um mitt ár er dæmi um hvernig hægt er með óvönduðum aðferðum að þyrla upp rakalausu og ástæðulausu moldviðri sem

byggist aðeins á því að einn étur fullyrðingu upp eftir öðrum uns úr verður tilhæfulaus múgæsing. Fullyrt var að gamla fólkið hefði orðið að flýja á vit félagsmálastofnana. Sagt var að foreldrar hefðu ekki lengur efni á að kaupa meðul fyrir börnin sín, að mikið veikir sjúklingar liðu ómældar þjáningar vegna þess að þeir hefðu ekki lengur efni á að kaupa lyf og þegar á þá var gengið sem hæst hrópuðu, þá var eina svarið sem fékkst: Jú, það segja þetta allir.
    Nú eru liðnir þrír mánuðir og nokkur reynsla fengin. Ekki er vitað um eitt einasta gamalmenni sem hefur þurft að fá aðstoð Félagsmálastofnunar vegna hás lyfjakostnaðar. Fjölmargir sjúklingar sem þjást af langvinnum sjúkdómum borga nú minna fyrir lyfin sín en þeir gerðu áður vegna þess að reglugerðin sem ég setti gerði ráð fyrir að hægt væri að veita þeim meiri hjálp en þeir hefðu áður fengið en það hafa samt orðið umskipti. Lyfjaútgjöld þjóðarinnar hafa á þessum þremur mánuðum, júlí, ágúst og september orðið yfir 300 millj. kr. lægri en þau voru á sama tíma í fyrra. Lyfjakostnaður sjúklinga hefur á þessum sama tíma lækkað um 200 millj. kr. frá því sem hann var á sama tíma fyrir einu ári. Útgjöld sjúkratrygginga sem í maíbyrjun stefndu í 2.800--3.000 millj. kr. voru um sl. mánaðamót 1.800 millj. kr. og aðeins þrír mánuðir eftir af árinu. Og hvað um sjúklingana? Þótt lyfjakostnaður hafi hækkað nokkuð sem hlutfall af lyfjaverði nemur sú hækkun aðeins 190 kr. að meðaltali á lyf en lyfin hafa á sama tíma lækkað í verði um allt að 400 kr. á hverja lyfjaávísun því að læknar eru nú í miklu meira mæli en áður farnir að ávísa á ódýr lyf í stað dýrra lyfja þar sem þau ódýru koma að sama gagni.
    Virðulegi forseti. Ég mun áfram beita mér fyrir því að lyfjareikningur þjóðarinnar geti lækkað. Nú er verið að vinna í heilbrrn. að nýrri lagasetningu um lyfsölu og lyfjadreifingu þar sem stefnt er að því að gera lyfjaverslun frjálsari en hún er í dag og koma á aukinni samkeppni þannig að álagning og innflutningsverð fari lækkandi. Er goðgá að leita leiða til þess að draga úr kostnaði við heilbrigðisþjónustuna? Meðallegukostnaður á dag á sjúkrastofnun á Íslandi er um 17 þús. kr. á hvern sjúkling. Legukostnaðurinn er frá 5 þús. kr. á dag upp í yfir 20 þús. kr. á dag á stærstu sjúkrastofnunum. Er það goðgá eða árás á velferðarkerfið að leita svars við þeirri spurningu hvort ekki sé hægt með einhverjum ráðum að draga úr þessum kostnaði?
    Hæstv. fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds gerði á sínum tíma samning við lækna til að dylja þá launahækkun sem í þeim samningi fólst fyrir öðrum launþegum. Var gert ráð fyrir því að læknar í þjónustu ríkisins hefðu rétt á að fá ferðir til útlanda greiddar af ríkinu. Á ári nemur þessi kostnaður vegna utanlandsferða um það bil 300 millj. kr. Þetta er álíka há fjárhæð og varið er til allra framkvæmda í sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og hjúkrunarheimilum utan Reykjavíkur. Er goðgá að spyrja sig að því hvort ekki megi nýta þessa fjármuni betur? Er það árás á velferðarkerfið? Hvað er velferð?
    Kjarninn er ekki sá að allir fái allt fyrir ekki neitt. Sú kynslóð sem nú er upp á sitt besta á Íslandi lifir við meiri velferð en nokkur önnur kynslóð Íslendinga hefur gert frá því að sögur hófust. Hún býr í einhverju efnaðasta þjóðríki heims. En hún er líka einhver kröfuharðasta kynslóð sem Ísland hefur nokkurn tíma byggt og sú kröfuharka má ekki bitna á velferðarkerfinu. Hin kröfuharða kynslóð má ekki ganga svo langt í kröfugerð sinni að hún krefjist þess að allir, líka þeir sem þurfa þess ekki, geti gengið óhindrað í almannasjóði velferðarkerfisis því ef hún heldur þeirri kröfu til streitu þá munu þeir sjóðir ekki geta borgað útgjöld vegna þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda.
    Góðir áheyrendur. Ríkisstjórn Íslands er nú að takast á við mjög alvarleg og erfið úrlausnarefni. Aðrar ríkisstjórnir hefðu þurft að takast á við þessi vandamál en þær hafa ýtt þeim frá sér. Ef núverandi stjórnarmeirihluta brestur kjarkur eða stuðning fólksins í landinu til að takast á við efnahagsvandann sem nú ógnar tilveru okkar allra, þá sé ég ekki

að ríkisstjórn annarra flokka geri það. Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er nú að grípa til eru ekki aðgerðir sem líklegar eru til að skapa okkur ráðherrunum stundarvinsældir. En þær eru óhjákvæmilegar og landinu verður að stjórna. Við erum ekki að gera skipulagsbreytingar í ríkisrekstri, taka upp takmörkuð þjónustugjöld, breyta rekstri stofnana eða endurskipuleggja ýmsa þætti í velferðarkerfinu af mannvonsku. Við erum ekki heldur að gera þetta að gamni okkar. Við erum að gera þetta vegna þess að það er mín einlæg sannfæring og okkar alþýðuflokksmanna að þetta sé eina leiðin til að varðveita sjálfan kjarna velferðarríkisins sem er sá að tryggja öllum Íslendingum öryggi án tillits til afkomu og efnahags, að tryggja öldruðu fólki áhyggjulaust ævikvöld, að tryggja sjúku fólki þá læknishjálp sem það verður að fá. Ef ég tryði því ekki sjálfur að við værum að gera það sem óhjákvæmilegt er til að tryggja hér á Íslandi framtíð þjóðfélags mannúðar og mildi þá stæði ég ekki í þessum sporum. --- Þakka ykkur fyrir.