Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

5. fundur
Fimmtudaginn 10. október 1991, kl. 23:13:00 (145)

     Anna Kristín Sigurðardóttir :
     Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Margt var það í stefnuræðu forsrh. sem vekur furðu og ástæða er til að skoða nánar. Eitt af því er orðaval ráðherrans. Hann talaði t.d. um fátæktarstefnu sem samkvæmt hans mati er hvort tveggja í senn, sósíalismi og stefna fráfarandi ríkisstjórnar. Þeir sem aðhyllast þessa svokölluðu fátæktarstefnu eru þeir sem telja að orsaka eymdar og volæðis --- og takið eftir, hann kallaði það eymd og volæði, hann var að tala um kjör fólks í landinu --- þeir sem aðhyllast þessa fátæktarstefnu telja að orsaka hennar sé að leita í ranglátu þjóðfélagskerfi. Hvílík firra. Samkvæmt þessari stjórnmálaskýringu forsrh. leitar hann orsaka fátæktar í meðfæddum eiginleikum einstaklinga og á ekkert skylt við þær aðstæður sem honum eru búnar í samfélaginu. Þetta orðaval ráðherrans lýsir einungis fádæma hroka og skilningsleysi á lífskjörum þeirra sem við erfiðar aðstæður búa. Og þau eru e.t.v. glöggur vitnisburður um hans eigin viðhorf.
    Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að jafna lífskjör fólks. En miðað við yfirlýsingar og aðgerðir hennar hefur einhver af hæstv. ráðherrum tekið að sér að skilgreina hugtakið jöfnuður upp á nýtt. E.t.v. hefur einhver af ráðherrum Jafnaðarmannaflokks Íslands gert það. Lítum nánar á örfá dæmi um jöfnunaraðgerðir ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
    Lögð skulu á skólagjöld og námslán stórlega skert og þau gerð óhagstæð. Þetta er gert til að draga úr eftirspurn eftir námi, sagði fjmrh. í útvarpsviðtali um daginn. Hvílíkt markmið. Það á sem sagt að draga úr eftirspurn og fækka í skólum með því að hrekja þá efnaminni út úr skólunum.
    Auka á hlut sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði, sem líklega á að draga úr eftirspurn eftir læknisþjónustu.
    Barnabætur skulu lækkaðar og komið í veg fyrir umbætur í skólamálum sem ný grunnskólalög gera ráð fyrir og eru liður í því að bæta hag barna og fjölskyldufólks. En eins og allir vita er hagur allt of margra barna hér á landi mjög slæmur.
    Þessar aðgerðir eiga allar að leiða til jöfnunar samkvæmt nýrri skilgreiningu þess orðs. Hæstv. heilbrrh. vill kannski kalla þetta tittlingaskít og aukaatriði eins og hann talaði um hér áðan. En ég sakna þess að í svokallaðri stefnubók ríkisstjórnarinnar skuli ekki vera sérstakur kafli sem fjallar um skilgreiningu hugtaka. Hvað á ríkisstjórnin t.d. við þegar hún talar um velferð? Ef skilningur á því hugtaki er sams konar og á hugtakinu jöfnuður, þá skiljum við alls ekki það sem ríkisstjórnin er að tala um.
    Þetta og margt fleira kallaði forsrh. hóflegar greiðslur fyrir þjónustu sem ekki skerða hag þeirra sem erfiðast eiga. Veit ráðherrann virkilega ekki betur en þetta? Veit hann ekki að þessi illa dulbúna skattlagning bitnar einmitt harðast á þeim sem erfiðast eiga? Ég vil

leyfa mér að upplýsa ráðherrann og ríkisstjórnina alla um það að þá sem erfiðast eiga er líklegast að finna í hópi sjúklinga, aldraðra, öryrkja og barnmargra fjölskyldna, einmitt þessara hópa sem ríkisstjórnin er að auka skattbyrðina á núna. Þá er hins vegar alls ekki að finna í hópi fjármagnseigenda og stóreignafólks. Ég minnist þess þó ekki að hafa séð tillögur um álögur á þennan hóp í fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar sem segist ætla að jafna lífskjör fólks.
    Á sama tíma og þessar tillögur eru settar fram senda ráðherrar ríkisstjórnarinnar ákall til samtaka launafólks um samstarf og skynsamlega samningagerð, eins og þeir kalla það, sem merkir hjá þeim 3--4% kjaraskerðingu. Dettur þeim í hug að venjulegt launafólk sé tilbúið til að taka á sig stórfellda kjaraskerðingu til viðbótar öllum nýju gjöldunum þegar engar ráðstafanir eru gerðar til að liðka fyrir samningum eða bæta hag láglaunafólks af hálfu ríkisstjórnarinnar? Þvert á móti er það megineinkenni fram komins fjárlagafrv. að hagur þeirra sem betur mega sín er tryggður á kostnað hinna sem minna hafa.
    Góðir áheyrendur. Þessi ríkisstjórn er að breyta þjóðfélaginu í grundvallaratriðum. Hennar stefnu má réttilega kalla fátæktarstefnu. Hún byggir á svonefndri ,,perlusiðfræði`` og mun leiða til þess að sá hópur sem nú býr við erfið kjör mun stækka til mikilla muna. Þjóðin verður að sameinast, og er að sameinast, gegn þessari stefnu og brjóta hana á bak aftur. Því fyrr, því betra. --- Ég þakka.