Frumvarp um Sementsverksmiðju ríkisins

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 14:13:00 (160)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Hér er heldur óvenjulega að málum staðið. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir flytur ræðu og beinir til mín spurningum sem starfandi iðnrh. Síðan kemur fram ósk um að umræðunni verði frestað, sem er að vísu mjög óvenjulegt því að það er alvanalegt í störfum þingsins að starfandi ráðherrar í forföllum annarra mæli fyrir frv. og þau fái að ganga til nefndar. Ég ætla ekki að hafa uppi neina kröfu um slíkt. Hér er að vísu um að ræða mál sem er hv. þm. mörgum hverjum afar vel kunnugt, en auðvitað þarf það góða og ítarlega athugun í nefnd. Og það hefur enginn beðið um að þessu máli yrði hraðað sérstaklega. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir talaði um að hér ætti að afgreiða málið á skömmum tíma og væri engin ástæða til þess. Ég er henni alveg sammála um það. Það á að taka sér tíma til að ahuga þetta mál þó að það hafi að vísu fengið mjög mikla athugun í þinginu áður. En það er óvenjulegt að stjórnarandstaðan skuli ekki fallast á það að mál gangi áfram til nefndar, þetta er bara 1. umr., og beri því við að ráðherra sá sem um málið fjallar að venjubundnum hætti sé ekki viðstaddur.
    Við getum úr okkar fyrra samstarfi, hv. þm. Svavar Gestsson, fundið mýmörg dæmi um þessa málsmeðferð og aldrei hafa verið við það gerðar athugasemdir.
    En ég viðurkenni það, virðulegi forseti, að mér finnst það ekki rétt og eðlileg fundarstjórn þegar búið er að beina til mín spurningum að mér skuli þá ekki gefið orðið.