Frumvarp um Sementsverksmiðju ríkisins

6. fundur
Mánudaginn 14. október 1991, kl. 14:14:00 (161)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Þannig háttar til að á dagskrá þessa þingfundar eru tvö mál sem annars vegar er flutt af hæstv. iðnrh. og hins vegar af hæstv. viðskrh. Að því er þessi mál varðar liggur það þannig gagnvart mínum flokki að við hefðum gjarnan viljað eiga orðastað við hæstv. iðnrh. um það fyrra, þ.e. Sementsverksmiðju ríkisins, af ýmsum ástæðum og þykir þess vegna lakara að umræðan hin fyrsta verði til lykta leidd án þess að hann sé viðstaddur.

    Öðru máli gegnir að mínu mati um þingmálið sem varðar samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti og snertir setningu auglýsingalöggjafar að öðru leyti en því að við höfum gert við það athugasemd að dreift hefur verið þingskjali á ensku, sem er fylgiskjal þess frv., og okkur þykir það óeðlilegt. Hæstv. umhvrh. hafði lofað því að ráða bót á því máli með því að láta þýða þingskjalið og að dreifa því til meðferðar í þinginu.
    Auðvitað er það rétt hjá hæstv. umhvrh. að mál geta verið afar misjöfn að þessu leytinu til. Oft hefur það gerst að ráðherrar hafa talað fyrir málum þegar þeir hafa gegnt störfum fyrir aðra ráðherra en ég hygg að ég þurfi ekki að nefna mörg dæmi, þó gæti ég það, um að stjórnarandstöðuþingmenn hafa óskað eftir því að mál sé ekki tekið fyrir nema viðkomandi fagráðherra sé viðstaddur. Í því sambandi nægir mér væntanlega til þess að hressa upp á minni hæstv. ráðherra að benda á hv. 8. þm. Reykn. sem iðulega fékk ekki að láta hlutina ganga þannig fyrir sig að einhverjir aðrir töluðu fyrir þeim málum sem hann var með. Ég hygg að það hafi aftur og aftur gerst að menn hafi sagt sem svo: Það er óhjákvæmilegt að Ólafur Ragnar Grímsson, þáv. hæstv. fjmrh., sé viðstaddur þegar umræður fara fram um hans mál. Mér er sem ég sjái upplitið á sumum ágætum stjórnarandstæðingum á þeim tíma hefði verið reynt að knýja fram umræðu um hans mál án þess að hann væri viðstaddur.
    Þess vegna er allur gangur á þessu og við þurfum svo sem ekkert að setja á neinar ræður um það. En ég endurtek það að ég vil fyrir mitt leyti og fyrir hönd þingflokks Alþb. fara fram á það að umræðan um Sementsverksmiðju ríkisins fari fram að verulegu leyti að viðstöddum hæstv. iðnrh.