Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:04:00 (179)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Formaður Alþfl. heldur áfram að hirta þingmenn sína hér í þingsalnum. Í sjónvarpsumræðunum hirti hann formann þingflokksins fyrir það að vera á móti skólagjöldum og sagði að það væru bara kommúnistar sem væru á móti skólagjöldum. Í dag kemur hann hér upp og hirtir Guðmund Árna Stefánsson og segir að það hafi ekki verið tímabært að biðja um þessa utandagskrárumræðu. Hitt er svo merkilegra að bæði forsrh. og utanrrh. lýsa því hér skýrt yfir að þessar tillögur um að leggja niður St. Jósefsspítala í núverandi mynd hafi rækilega verið ræddar í þingflokki Alþfl. eins og formaður Alþfl., utanrrh., sagði hér fyrir fáeinum mínútum og það væri á ábyrgð þingflokks Alþfl., eins og formaður Alþfl. og utanrrh. sagði hér fyrir fáeinum mínútum. Og forsrh. sagði að þessar tillögur hefðu verið kynntar í þingflokkum stjórnarflokkanna, Árni Mathiesen. Hvað átti það þá að þýða fyrir þingmenn stjórnarflokkanna að mæta í Hafnarfirði með okkur hinum og forsvarsmönnum spítalans og forsvarsmönnum Hafnarfjarðarbæjar fyrir nokkrum vikum síðan og þykjast á þeim fundi ekki kannast neitt við neitt, eins og þeir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. úr Reykjaneskjördæmi sem hér sitja í salnum og mættu á þessum fundi? Nú segja formenn stjórnarflokkanna: Þið samþykktuð þessa breytingu í þingflokki Sjálfstfl. og þingflokki Alþfl.
    Hvers konar hræsni er það eiginlega að vera vikum saman búin að gefa Hafnfirðingum til kynna, Árni Mathiesen og aðrir þingmenn Sjálfstfl. í Reykjaneskjördæmi og þingmenn Alþfl., að þið hafið ekkert um þetta vitað þegar formenn ykkar flokka segja nú hér að þið hafið samþykkt þetta á þingflokksfundunum og berið á þessu fulla ábyrgð. Það kom fram í fjölmiðlum að Guðmundur Árni Stefánsson hefði setið þennan þingflokksfund Alþfl. þar sem þetta var, samkvæmt orðum utanrrh. hér í stólnum, rækilega rætt og samþykkt. Og á flokksstjórnarfundi Alþfl., eins og hér kom fram, sá hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson sérstaka ástæðu til þess að flytja traustsyfirlýsingu á ráðherra Alþfl. vegna fjárlagafrv. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Það er vont að þingmenn stjórnarflokkanna skuli hafa tekið þátt í þessum blekkingarleik. Ef þeir mótmæla ekki orðum forsrh. og utanrrh. hér úr ræðustól Alþingis, þá stendur það eftir, virðulegi forseti, að þessir þingmenn Sjálfstfl. og Alþfl. (Forseti hringir.) hafa skrökvað að almenningi í Hafnarfirði og Reykjaneskjördæmi.
    Ég vil svo að lokum hvetja þingmenn til þess að kynna sér rækilega grein sem birtist í Þjóðviljanum í dag eftir heilsugæslulækni í Hafnarfirði, Guðmund Helga Þórðarson,

þar sem koma fram sterk, fagleg rök fyrir því hvers vegna á að reka St. Jósefsspítala áfram í núverandi mynd.