Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:08:00 (180)

     Guðmundur Bjarnason :
     Virðulegi forseti. Ég vil lýsa undrun minni á þessum umræðum eins og þær eru hér upp settar og mér sýnist vera mikil sýndarmennska sem hér fer fram og leikaraskapur. Eins og réttilega hefur verið bent á er þetta umræða sem hefði betur farið fram fyrr innan stjórnarflokkanna, hefur kannski gert það, það er e.t.v. það versta, hafi hún gert það, þá er hér farið með sýndarmennskuna fram fyrir fjölmiðla í hinu hv. Alþingi.
    Málshefjandi talaði um það að hér væri verið að knýja á um eðlisbreytingu á starfsemi og vissulega er það rétt. Það sjá allir menn þegar fjárveitingar eru skornar niður um helming og boðað að gera sjúkrahús að öldrunarstofnun. En það er ekki bara í St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði sem slíkar breytingar eru boðaðar. Það kom fram hér hjá hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörgu Sólrúnu, að það er auðvitað spurning um kerfisbreytingar í heilbrigðisþjónustunni sem hér er verið að leggja til. Þær eru hins vegar ekki nýtt mál á borðum ráðherra og ríkisstjórna, það skal ég vera fyrstur manna til að viðurkenna og taka undir. Það er nauðsynlegt að endurskipuleggja starfsemi ýmissa sjúkrahúsa. En að gera það á þennan hátt, flausturslega og óyfirvegað og boða þar að auki breytingar á smærri sjúkrahúsum eins á Patreksfirði, Blönduósi og Stykkishólmi, án þess að það sé nú ítarlega skýrt í fjárlagafrv. en nefnt í grg., þá sýnist mér að það sé verið að ráðast að stofnunum sem e.t.v. geta gert aðgerðir, og það vitum við að er gert á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði, á ódýrari máta en gert yrði á hinum stóru og dýru stofnunum sem eru sérhæfðar til þess að takast á við stór og vandasöm verkefni. Þar hins vegar álít ég að sé möguleiki að spara. Ég álít að það sé möguleiki að spara mikið með endurskipulagningu sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Það á að gera með því að efla samstarf og samvinnu allra sjúkrahúsanna þriggja. Ég óttast að einnig þar sé hæstv. heilbrrh. á villigötum þegar hann er að tala um sameiningu Landakots og Borgarspítalans sérstaklega og efna til harðvítugrar samkeppni milli þessara tveggja stóru sjúkrahúsa sem þá yrðu til. E.t.v. er vilji sumra starfsmanna Landakotsspítalans til sameiningar við Borgarspítalann að hluta til vegna þess að þar vilja menn viðhalda launakerfi sem ég tel að sé kostnaðarsamt og dýrt fyrir heilbrigðisþjónustuna og ég vara við slíkum hugmyndum.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins undirstrika þá ósk sem hér kom fram, m.a. frá hv. þm. Svavari Gestssyni, að við verðum að fá það á hreint, og spyrja þá tvo ágætu stjórnarliða sem annars vegar hófu umræðuna og hins vegar tóku þátt í henni strax á eftir, hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson og Árna Mathiesen, hvort þetta hafi verið rætt í stjórnarflokkunum við fjárlagagerðina. Hver er þá afstaða þessara ágætu manna til þessa máls? Það finnst mér vera nauðsynlegt að komi fram.
    Ég álít svo að það eigi að reyna að tryggja starfsemi St. Jósefsspítalans í svipuðu formi og hún hefur verið vegna þess að þar hefur farið fram nauðsynleg þjónusta á ódýran hátt en ráðast hins vegar að skipulagi sjúkrahúsanna þriggja hér í Reykjavík með sparnaðartilllögur og hagræðingarhugmyndir í huga.