Málefni St. Jósefsspítala í Hafnarfirði

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:32:00 (194)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. heilbrrh. lýsti því yfir í seinni ræðu sinni að tillögurnar um að leggja niður St. Jósefsspítala í núverandi mynd væru tillögur stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Alþfl. Það er mjög merkileg yfirlýsing í ljósi þess sem sumir þingmenn þessara flokka, t.d. hv. þm. Árni M. Mathiesen, hafa sagt undanfarnar vikur og gefið íbúum Hafnarfjarðar og Garðabæjar og öðrum íbúum Reykjaneskjördæmis í skyn að þeir hefðu hvergi nærri þessu máli komið. Nú hefur heilbrrh., líkt og forsrh. og utanrrh., tekið algerlega af skarið hér og sagt það að tillagan í fjárlagafrv. sé tillaga frá þingflokki Alþfl. og Sjálfstfl.
    Þar með liggur það auðvitað fyrir að þetta mál er af öðru tagi en þingmenn þessara tveggja stjórnarflokka hafa látið í veðri vaka í Hafnarfirði og Reykjaneskjördæmi. Að þessu leyti ber að þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni fyrir að hafa vakið þessa umræðu hér vegna þess að hún hefur loksins leitt sannleikann í ljós. Hitt er svo vont að hæstv. heilbrrh. skyldi í engu svara spurningum hv. þm. Svavars Gestssonar hér áðan.