Sveitarstjórnarlög

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 14:51:00 (196)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér hefur verið lagt fram frv. um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Ég get að flestu leyti tekið undir það sem framsögumaður hefur sagt á undan mér, þ.e. að mjög brýnt sé að efla stjórnsýsluna heima fyrir. Ég tel það nauðsynlegt og það hefði átt að gerast mikið fyrr að sú umræða yrði virk á Alþingi.
    Fjórðungssamböndin svokölluðu hafa verið starfandi lengi, sum í 40 ár eða lengur. Þau hafa verið samstarfsvettvangur sveitarfélaganna. Þar hefur verið mótuð stefna í mörgum mikilvægum málum sem snerta hagsmuni íbúanna. En löggjafinn hefur þó ekki viðurkennt þau sem löglegt stjórnsýslustig.
    Með sveitarstjórnarlögunum 1986 var sú breyting gerð að sýslunefndir voru af lagðar og í stað þeirra skyldu koma héraðsnefndir sem voru þá ekki bundnar við sýslumörk heldur skyldu þær geta verið atvinnuleg, félagsleg og menningarleg heild. Héraðsnefndirnar voru þannig bundnar af því að á svæði hverrar fyrir sig væri hægt að líta sem landfræðilega eina heild, þær væru samstarfsvettvangur sveitarfélaga á tilteknu svæði. Héraðsnefndir hafa síðan verið að taka til starfa og verkefni þeirra verið að smáaukast á undanförnum árum. Yfirleitt lofar starf þeirra góðu um framhaldið. En í því starfi eins og öðru eru fjármunir afl þeirra hluta sem gera skal. Í dag er það þannig að úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fá fjórðungssamböndin, Landshlutasamtök sveitarfélaga, framlag sem ágreiningur er nú orðinn nokkur um hvort eigi að fara þangað eða hvort héraðsnefndirnar eigi að fá það til sinna starfa.
    Síðustu árin hafa líka öðru hvoru borist fréttir af því að hrikti í stoðum landshlutasamtakanna. Sum sveitarfélög hafa ýmist sagt sig úr þeim eða hóta því. T.d. mun nefnd vera að skoða hvort leggja eigi Fjórðungssamband Norðlendinga niður eða skipta því í tvennt. Slíkar hræringar eru í fleiri landshlutasamtökum
    Þessi tillaga sýnist mér aðallega vera til þess að lögbinda landshlutasamtökin við kjördæmi og tengja þau jafnframt héraðsnefndunum. Talað er um að þau haldi ársfund en það er ekki sagt hvernig eigi að kjósa til þess ársfundar sem síðan á að kjósa byggðastjórn úr hópi héraðsnefndamanna. Það er heldur ekki talað um hvernig hann eigi að vera saman settur. Síðan á byggðastjórnin, sem kosin væri úr hópi héraðsnefndarmanna, að kjósa sér fimm til sjö manna byggðaráð sem færi með framkvæmdastjórn landshlutasamtakanna.
    Ég sé ekki alveg á þessu stigi málsins hvaða tilgangi það þjónar að fara nú að lögbinda landshlutasamtökin. Mér er kunnugt um að það hefur verið mikið rætt á undanförnum árum en ekki hefur náðst fram vilji fyrir því í þjóðfélaginu að lögbinda þau. Hins vegar var sú stefna tekin 1986 að setja á stofn héraðsnefndir sem skyldu í raun og veru fara með það sem landshlutasamtökin gera í dag að miklu leyti. A.m.k. var álitið að samstarf innan þeirra mundi þróast með öðrum hætti en verið hefur í fjórðungssamböndunum vegna þess að þau, þ.e. fjórðungssamböndin, væru e.t.v. of stór eining, hagsmunir allra færu þar ekki nægilega saman. Það liggur fyrir að héraðsnefndirnar hafa sums staðar stofnað til samstarfs við aðrar héraðsnefndir um tiltekið verkefni innan landshlutanna og það samstarf mun trúlega aukast. Margir álíta að samstarf innan héraðsnefnda, innan tiltekins svæðis, muni geta leitt til samvinnu sveitarfélaga í ýmsum málum og e.t.v. að þau sameinist síðar. Mér sýnist að verið sé að koma þarna á flóknara kerfi en þörf er á.
    Það má líka nefna það að komin er út álitsgerð nefndar sem skipuð var til að vinna að sameiningu sveitarfélaga og fækkun þar með og stækkun. Það nefndarálit hefur ekki verið rætt hér en ég sá reyndar að fyrirspurn er komin fram um það mál í þinginu. Mér sýnist eðlilegt að skoða þær tillögur vel samhliða þessu frv. Ég legg einnig til að þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram, verði sent sveitarstjórnum til umsagnar um leið og því verður vísað til félmn. og 2. umr. Ég vitna þar í 2. gr. sveitarstjórnarlaganna frá 1986 þar sem segir að engu málefni sem varða sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skal ráðið til lykta án umsagnar sveitarstjórnarinnar. Í sömu sveitarstjórnarlögum er líka sagt í IX. kafla, 97. gr., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sveitarfélög geta haft samvinnu sín á milli um framkvæmd einstakra verkefna, á vettvangi héraðsnefnda, byggðasamlaga eða í landshlutasamtökum.``
    Mér sýnist því eðlilegt að skoða þessar tillögur mjög vel samhliða frv. Ég ítreka það að frv. verði sent sveitarstjórnunum til umsagnar áður en frekari umræður fara fram. Hins vegar fagna ég því að þessi mál komast í umræðu á þinginu og ég vænti þess að það verði til þess að finna leið til að draga úr miðstýringu og færa völd og áhrif nær fólkinu.