Fæðingarorlof

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 15:32:00 (202)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fæðingarorlof, nr. 57 frá 31. mars 1987, sem er á þskj. 17. Flm. þessa frv. eru allar þingkonur Kvennalistans.
    1. gr. hljóðar svo:
    ,,Fyrri mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi eða flytja hana til í því nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu nema gildar ástæður séu fyrir hendi.``
    Í gildandi lögum um fæðingarorlof segir að óheimilt sé að segja upp barnshafandi konu nema gildar ástæður séu fyrir hendi, né heldur foreldri í fæðingarorlofi. Það sem hér er bætt við er að það megi ekki heldur flytja þau til í starfi.
    Frv. samhljóða þessu var lagt fram á 113. löggjafarþingi af þeim þingkonum Kvennalistans sem þá voru í Nd. Frv. hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram á ný.
    Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex var mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra á tímabilinu eftir fæðingu barns.
    Nauðsynlegt er að skipan fæðingarorlofsmála sé þannig að tekið sé mið af móður- og fjölskylduhlutverki kvenna sem og þátttöku þeirra í atvinnulífi. Samkvæmt lögum um fæðingarorlof er ekki heimilt að segja barnshafandi konu eða foreldrum í fæðingarorlofi upp starfi nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Í 6. gr. laganna er kveðið á um að skylt sé, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin. Hins vegar er ekki skýrt kveðið á um það í lögunum að foreldrar geti gengið að sínum störfum að fæðingarorlofi loknu.
    Ég er þess fullviss að þegar þessi lög voru sett á sínum tíma var það ætlun löggjafans að foreldrar gætu gengið að sínum fyrri störfum. Því miður hefur það komið fyrir að konum hefur verið ætlað að taka að sér önnur störf en þær voru í þegar þær fóru í fæðingarorlof og voru ráðnar í upphaflega. Þess eru dæmi að konur hafi hafnað slíkum tilflutningi og í kjölfar þess verið sagt upp eða þær hafa kosið að segja upp fremur en að þurfa að sætta sig við að vera fluttar til í starfi.
    Í kvennablaðinu Veru frá því í nóvember 1990 er sagt frá reynslu tveggja kvenna sem ekki fengu að hverfa að sínum fyrri störfum eftir að þær komu úr fæðingarorlofi. Ég vil, með leyfi forseta, lesa upp örstuttan kafla úr umfjöllun Veru, en þar segir:
    ,,Sögur þeirra eru keimlíkar. Þær eru með svipaða menntun --- önnur með verslunarskólapróf en hin með stúdentspróf úr Verslunarskólanum --- þær gegndu báðar störfum innkaupamanna, eru báðar 31 árs gamlar, voru báðar að eignast sitt fyrsta barn og uppsagnir þeirra bar að með sama hætti.``
    Þegar þær fóru í fæðingarorlof var ekkert sem benti til þess að þær yrðu meðhöndlaðar sem raun bar vitni eftir að þær komu til baka. Önnur kona lýsir fundi sem hún var boðuð á skömmu áður en hún átti að hefja störf á ný. Hún segir svo í Veru, með leyfi forseta:
    ,,Á þessum fundi tilkynnti hann mér að því miður væri ekkert fyrir mig að gera í

fyrirtækinu. Það væri búið að þrengja þann fjárhagsramma sem hann hefði og hann gæti ekki ráðið mig í þá aðstoðarmannsstöðu sem um var rætt.`` --- En ég get tekið það fram að það var talað um að þegar hún kæmi til baka gæti hún jafnvel fengið betri stöðu sem mundi henta henni betur og ætti raunverulega að gera hana hærra setta en áður. --- ,,Hann sagði reyndar að þeir gætu reynt að finna eitthvað fyrir mig á skrifstofunni. Þegar ég spurði hvað það væri sagði hann að í raun og veru væri ekkert starf laust en það væri verið að athuga það. Síðan talaði hann um að það mundi losna starf á skrifstofunni við að reikna saman einhverjar nótur. Ég hafnaði því þar sem ég hef ekki verið að mennta mig og vinna mig upp í fyrirtækinu til þess að fara í slíkt starf. Enda er þetta starf sem þeir gera sér alveg grein fyrir að maður þiggur ekki. Þetta var bara fyrirsláttur.``
    Þetta segir konan sem þarna um ræðir.
    Hin konan segir mjög svipaða sögu í þessu blaði, hún var líka boðuð á fund rétt áður en hún átti að hefja störf á ný eftir fæðingarorlof. Hún segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar ég kom á fundinn tilkynnti hann mér að það hefði verið ákveðið að flytja mig til í starfi þar sem aðstæður mínar væru breyttar. Ég væri komin með barn og þeir teldu mig þar af leiðandi ekki geta valdið starfinu sem skyldi. Bauð hann mér starf á skrifstofunni við að leggja saman nótur.``
    Því miður þá er mér kunnugt um að þetta eru ekki einu dæmin um það sem ég vil kalla ólöglegar aðgerðir gagnvart konum sem hafa farið í fæðingarorlof.
    Til að það sé ekki nokkur vafi á því í lögum og þetta sé mjög skýrt höfum við flm. lagt til að breyta lögunum þannig að það sé skýrt að hvorki megi segja konum upp né heldur að flytja þær til, hvorki í fæðingarorlofi né eftir að foreldri kemur aftur úr fæðingarorlofi. Þess vegna er þetta frv. flutt. Ég vil taka það fram að ég tel það flutt eingöngu til þess að skýra það að þetta sé ótvírætt þó að mér finnist sjálfri að það eigi ekki að vera nokkur vafi á því að þetta sé ekki heimilt.
    Ég vil einnig taka það fram að þó að við þingkonur Kvennalistans flytjum þetta litla frv. nú þá þýðir það ekki að við séum að öðru leyti ánægðar með lögin um fæðingarorlof. Það þarf að gera á þeim ýmsar breytingar, t.d. að lengja fæðingarorlofið, breyta greiðslufyrirkomulaginu og ýmislegt fleira. En það bíður síðari tíma.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.