Fæðingarorlof

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 15:40:00 (203)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegi forseti. Þar sem ég á sæti í hv. heilbr.- og trn. þingsins þykir mér rétt að gera hér nokkrar athugasemdir. Hér er mælt fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fæðingarorlof nr. 57/1987. Samhljóða frv. var lagt fram á 113. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Bæði þessi frv. eru flutt af hv. þm. Kvennalistans.
    Í grg. segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Lenging fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex var mikilvægt skref í þá átt að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra á tímabilinu eftir fæðingu barns.``
    Af þessu tilefni þykir mér rétt að vekja athygli á því að hæstv. þáv. heilbr.- og trmrh. Sjálfstfl., Ragnhildur Helgadóttir, beitti sér einmitt fyrir þessari réttarbót.
    Þótt það sé að sjálfsögðu mikilvægt að taka mið af móður- og fjölskylduhlutverki kvenna, þá verð ég að viðurkenna að mér er ekki með öllu ljóst hverjar afleiðingar yrðu af lagabreytingum sem þetta frv. mælir fyrir um. Í 6. og 7. gr. núgildandi laga virðist réttur barnshafandi kvenna og foreldra í fæðingarorlofi vera nokkuð tryggur. Þannig hljóðar 6. gr. núgildandi laga: ,,Skylt er, þar sem því verður við komið, að færa barnshafandi konu til í starfi ef það er þess eðlis að heilsu hennar eða fósturs er af því hætta búin, enda verði ekki við komið breytingum á starfsháttum. Slík tilfærsla skal ekki hafa áhrif á launakjör viðkomandi til lækkunar.``
    Og 7. gr. hljóðar þannig:
    ,,Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildir um foreldra í fæðingarorlofi.
    Brjóti atvinnurekandi gegn ákvæði fyrri mgr. skal hann greiða bætur. Við ákvörðun bóta skal m.a. taka mið af ráðningartíma starfsmanns hjá viðkomandi atvinnurekanda.``
    Því frv. sem hér er til umræðu er ætlað að breyta fyrri mgr. 7. gr. á þann hátt að atvinnurekanda sé enn fremur óheimilt að flytja barnshafandi konu til í starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Sama gildi um foreldra í fæðingarorlofi eða eins og segir í seinni málslið 1. gr. frv.: ,,Einnig er óheimilt að segja foreldri í fæðingarorlofi upp starfi eða flytja það til í því að orlofinu loknu nema gildar ástæður séu fyrir hendi.`` --- Athugum sérstaklega þessi orð ,,að orlofinu loknu``. Hvað felst í þessum orðum? Hvað á þetta tímabil að ná langt og hver á að túlka það? Er hér átt við á fyrsta degi eftir að orlofi lýkur eða er það næstu fimm ár?
    Ég held að hér gæti komið upp slíkur ágreiningur um túlkun að erfitt yrði að finna lausn á. Þessi framkvæmd yrði tæknilega erfið. Þar að auki kemur e.t.v. til sú hætta að konur yrðu síður ráðnar á vinnumarkaði ef lögin yrðu orðuð á eins fortakslausan hátt og hér er gert ráð fyrir. Það verður að athugast að leikreglur á vinnumarkaði ná til beggja. Það er að vísu rétt að það má ýmislegt segja um framkvæmd og túlkun á lögum og reglum um fæðingarorlof, t.d. varðandi þann mismun sem gerður er á greiðslum til kvenna eftir því hvar þær eru á vinnumarkaði, hvort þær eru opinberir starfsmenn, sem njóta fullra launa, eða á almennum vinnumarkaði þar sem sá réttur er ekki fyrir hendi og greiðslur eru takmarkaðar. En þau ákvæði í fæðingarorlofslögum sem hér eru til umræðu virðast fela í sér nokkuð tryggan rétt fyrir konur. Þannig má t.d. benda á 1. mgr. 7. gr. sem hér var gerð grein fyrir áðan sem kveður á um það að uppsögn sé óheimil nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Það þarf því mikið að koma til þannig að mögulegt sé að réttlæta uppsögn við þessar aðstæður. Að sjálfsögðu er það einnig réttlætismál að slíkt sé rækilega tryggt.
    Virðulegi forseti. Þetta mál mun verða skoðað í heilbr.- og trn. þingsins þar sem ég á sæti. Hins vegar þótti mér rétt að vekja athygli á þeirri óvissu sem þetta frv. gæti leitt af sér.