Fæðingarorlof

7. fundur
Þriðjudaginn 15. október 1991, kl. 15:55:00 (208)

     Flm. (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir undirtektir við þetta frv. Ég vil skilja ummæli hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur þannig að hún sé ekki andvíg þessu þó að það hafi ekki verið alveg ljóst af hennar máli.
    Það sem hún sagði að væri neikvætt við þetta var að það væri mjög erfitt og gæti orðið vafi á með túlkun. Mætti ekki segja konu upp eða foreldri þegar það kæmi úr fæðingarorlofi, hvenær og hvort mætti þá gera það?
    Þetta eru atriði sem ég athugaði sérstaklega við undirbúning frv. vegna þess að auðvitað komu þessar spurningar strax upp. Það er ljóst að réttur til að segja upp starfsmönnum er mjög rúmur hér á landi en atvinnurekandinn hefur hins vegar mjög takmarkaðan rétt til þess að færa fólk til í starfi nema starfið sé sambærilegt. Þess vegna getur atvinnurekandi auðvitað sagt starfsmanni upp um leið og hann kemur úr fæðingarorlofi. Þetta breytir því ekki en uppsagnarfresturinn verður auðvitað að vera eðlilegur og fólk á að geta verið í sínu starfi meðan á þessum uppsagnarfresti stendur.
    Ég talaði við fólk sem hafði sérstaklega kynnt sér íslenskan vinnurétt og það taldi að þetta væri ekki hægt að mistúlka, þ.e. að ekki mætti segja fólki upp meðan á fæðingarorlofi stæði, en það gilti auðvitað að það mætti segja því upp eins og öðrum starfsmönnum þegar það kæmi til baka. Þetta orðalag átti að ná yfir það en ef hægt er að finna annað betra orðalag þá er ég að sjálfsögðu ekki andvíg því.
    Ég vona að hv. heilbr.- og trn. geti fallist á að þetta sé eðlilegur réttur þeirra sem eru í fæðingarorlofi, bæði kvenna og karla.