Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 13:51:00 (213)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Fyrir hönd stjórnarandstöðunnar bað ég um þessar umræður um Evrópskt efnahagssvæði. Ástæðan fyrir þessari beiðni hlýtur að vera öllum augljós. Okkur er sagt að nú dragi til úrslita um þessa samninga um Evrópskt efnahagssvæði á ráðherrafundi sem haldinn verður 21. þessa mánaðar.
    Evrópskt efnahagssvæði og samningarnir voru allítarlega ræddir í maí sl. og það fer að vísu tvennum sögum af því hvort mikið hafi gerst frá því í maí eða lítið. Okkur hefur heyrst á hæstv. utanrrh. að heldur lítið hafi gerst og hann sé orðinn reyndar leiður á þessu þófi. Hins vegar berast þær fréttir frá ýmsum öðrum ríkjum eins og t.d. Norðmönnum að mjög sé unnið að samningum og jafnvel allar líkur til þess að höggvið verði á hnútinn nú á þessum fundi eða fyrir hann og af samningum muni þá verða. Á sama tíma hygg ég að segja megi að menn hér heima séu heldur ráðvilltir í þessu sambandi. Við þingmenn þekkjum ekki gjörla eins og ég sagði hvað hefur í raun gerst og hvernig málin standa og því síður almenningur. Hér hafa verið stofnuð samtök gegn aðild að Evrópsku efnahagssvæði og mjög kvartað undan því að almenningur viti lítið um stöðu þessara mála, áhrif þeirra á íslenskan þjóðarbúskap o.s.frv. Því var beðið um þessar umræður að þær gætu orðið til þess að skýra málin nokkuð betur fyrir okkur og fyrir almenningi í landinu. Ég hygg einnig að æskilegt sé fyrir hæstv. utanrrh. að um þessi mál sé fjallað nú áður en hann heldur til þessa mikilvæga fundar. Ég segi mikilvæga fundar því að vafalaust eru samningar um Evrópskt efnahagssvæði það stærsta mál sem við höfum fjallað um, a.m.k. í erlendum samskiptum okkar Íslendinga og jafnvel þótt víðar sé leitað og getur verið afar örlagaríkt fyrir framtíð þjóðarinnar.
    Ég hafði í upphafi hugsað mér að fara fáeinum orðum um aðdraganda þessa máls. Aðdragandinn er sá að fyrri ríkisstjórn ákvað að taka þátt í viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði og ég gerði síðan grein fyrir þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar og með þeim skilyrðum sem ríkisstjórnin setti á leiðtogafundi EFTA-ríkjanna í Ósló vorið 1989. Nú er nauðsynlegt, áður en við ræðum stöðuna, að gera okkur jafnframt grein fyrir því --- og fara reyndar lengra aftur í tímann --- að 1972 gerðum við Íslendingar mjög góðan, vil ég segja, og athyglisverðan samning við Efnahagsbandalagið, sem svo hét þá, um viðskiptatengsl þessara þjóða ásamt bókun 6, sem ég veit að allir kannast við. Það er nauðsynlegt að hafa

það í huga að bókun 6 er tvímælalaust sá besti viðskiptasamningur sem nokkur erlend þjóð hefur náð við Evrópubandalagið. Með bókun 6 fáum við tollfrelsi fyrir stóran hluta af okkar útflutningi, þ.e. sjávarafurðir til Evrópubandalagsins og sömuleiðis með viðskiptasamningum fyrir allan okkar iðnaðarvarning, en Evrópubandalagið fær líka innflutning til landsins án tollverndar, ekki nauðsynlega tollfrjálsan en án tollverndar, þ.e. með sambærilegum tollum og aðrar þjóðir, fyrir í raun alla framleiðslu Evrópubandalagsins. Ein er þó mikilvæg undantekning frá þessu og það eru landbúnaðarafurðir sem eru ekki í þeim samningi.
    Það er athyglisvert sem segir í bókinni ,,Ísland og Evrópa`` sem Evrópunefndin gaf út. Þar er fjallað um þau atriði nokkuð sem ekki eru í þessum samningi, m.a. um saltfisk og skreið, og þar er upplýst, sem ég veit að er satt og rétt, að tollur á saltfisk og skreið hafði verið felldur niður af Efnahagsbandalaginu einhliða áður og er ekki tekinn inn í þessa samninga. Hins vegar segir hér að samningamenn Íslands hafi verið fullvissaðir um það að Evrópubandalagið mundi ekki taka upp á ný toll á saltfisk. En eins og hér er sagt þá tókst því miður ekki að fá um það neina bókun, aðeins munnlega yfirlýsingu eins og ég hef nú rakið.
    Það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga þegar við ræðum nú um eitt stærsta málið, að fá niðurfelldan toll á saltfiski. Það má segja að þetta skipti ekki öllu máli þegar samningurinn var gerður 1972, en þetta skipti mjög miklu máli eftir að Spánn og Portúgal gengu í Evrópubandalagið 1986, okkar stóru viðskiptavinir, og staðreyndin er sú að Evrópubandalagið setti takmörk á það magn af saltfiski sem mætti flytja inn tollfrjálst. Það sem er umfram 25 þús. lestir, ef ég man rétt, er hins vegar háð tollum og vissulega brýtur það í bága við þessa munnlegu yfirlýsingu Evrópubandalagsins.
    En frá því að þessi samningur var gerður 1972 og kemur síðan smám saman til framkvæmda á næstu árum varð í raun framan af ekki mikil aukning á innflutningi okkar Íslendinga til Evrópubandalagsins. Sú aukning verður ekki fyrr en á síðari árum, alveg sérstaklega eftir að Bandaríkjamarkaður veikist og dollarinn veikist og arðbærara verður að flytja út á Evrópumarkað, en þangað flytjum við nú yfir 60% af okkar sjávarafurðum, nálgast líklega 70%.
    Það er því með þennan bakgrunn sem fyrri ríkisstjórn ákveður að taka þátt í viðræðum um Evrópskt efnahagssvæði. Hún ákveður að gera það eins og aðrar þjóðir EFTA á grundvelli ræðu Delors, aðalframkvæmdastjóra Evrópubandalagsins, sem hann flutti 17. jan. 1989 og lýsti þar hinni svokölluðu tveggja stoða lausn, þ.e. að tveir aðilar jafnréttháir, tvær jafnsterkar stoðir yrðu aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Þetta er líka mjög mikið grundvallaratriði sem við verðum að hafa í huga. Það er boðað að þessir tveir aðilar verði jafnsterkir.
    Við Íslendingar töldum, og ég hygg að allir hafi verið sammála um það, að ekki væri ástæða fyrir okkur að sækja um aðild, þ.e. útvíkkun á bókun 6 nema við fengjum tollfrelsi fyrir allan okkar fisk. Því ákvað ríkisstjórnin að leggja á það höfuðáherslu innan EFTA að slíkt tollfrelsi fengist, fyrst innan EFTA og það yrði síðan atriði í kröfu EFTA-ríkjanna í samningunum við Evrópubandalagið. Þetta er líka afar mikilvægt að menn hafi í huga. Það er einnig mikilvægt að menn minnist þess að á leiðtogafundinum í Ósló vorið 1989 leystist þetta mál ekki fyrr en á síðustu fimm mínútum fundarins og við Íslendingar höfðum þar hótað að ganga út ef ekki fengist tollfrelsi fyrir sjávarafurðir innan EFTA. Við byggðum þetta m.a. á því að okkur hafði verið ráðlagt á ýmsum fundum sem við áttum með leiðtogum Evrópubandalagsins í Brussel að leita fyrst tollfrelsis innan EFTA, þá stæðum við miklu sterkar að vígi.
    Mér er ljóst að um þetta voru nokkuð skiptar skoðanir og ýmsir töldu að við ættum að leita beint sérsamninga við Evrópubandalagið en fyrri ríkisstjórn kaus að fara þessa leið enda fengist tollfrelsi innan EFTA fyrir fisk og sjávarafurðir og það yrði mikilvægur þáttur í kröfu EFTA-ríkjanna gagnvart Evrópubandalaginu. Þetta er líka lykilatriði. Ég vil taka það fram að ég minnist þess ekki að nokkru sinni hafi verið rætt um það að þetta tollfrelsi yrði takmarkað, að einhverjar sjávarafurðir yrðu undanþegnar þessu tollfrelsi. Ég vona að ég fari þar með rétt mál. Ég man ekki eftir því að nokkurn tíma hafi á slíkt verið minnst. Það var a.m.k. ekki minnst á það á leiðtogafundinum í Ósló. Þar var krafist tollfrelsis fyrir meginframleiðslu okkar Íslendinga og það fékkst. Það má geta þess að það var fyrrv. forsrh. Svía, Ingvar Carlsson, sem hjó á hnútinn á síðustu fimm mínútum þess fundar. Þetta er nauðsynleg forsaga. Jafnframt settum við fram í Ósló ýmsa fyrirvara fyrir okkar aðild. Þessir fyrirvarar voru síðan hvað eftir annað ræddir í ríkisstjórninni og ætíð staðið mjög fast á þeim. Einna ítarlegast voru þessir fyrirvarar ræddir í lok október á sl. ári þegar þessi mál voru komin til nokkurra úrslita. Ég ætla að fara yfir þessa fyrirvara með tilvísun til þess skjals sem þá var lagt fyrir þáverandi ríkisstjórn.
    Í fyrsta lagi óskuðum við eftir takmörkun á fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi og alveg sérstaklega að fjárfesting í sjávarútvegi kæmi ekki til greina, hvorki í veiðum né frumvinnslu. Til að undirstrika þetta atriði flutti ég, fyrir hönd fyrrv. ríkisstjórnar, frv. til laga hér á Alþingi, reyndar tvö frv., lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og lög um breytingar á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl.
    Þarna er leitast við að hreinsa nokkuð til í þessum málaflokki, gera ákvæðin skýrari því þau voru afar óskýr. Í fyrsta lagi er tekið af skarið með það að erlendir aðilar mega ekki fjárfesta neitt í útgerð og frumvinnslu í sjávarútvegi og það er í raun meginatriði þessara laga. Ég get ekki farið að rekja þau hér í smáatriðum en nú er nauðsynlegt að fá það upplýst frá hæstv. utanrrh. hvort þetta ákvæði muni ekki tvímælalaust halda ef úr þessum samningum verður. Við heyrum að Evrópubandalagið krefst heimildar til fjárfestinga í sjávarútvegi í Noregi, en er ekki alveg ljóst að svo mun alls ekki verða hér á landi?
    Auk þess eru í þessum lögum, þrátt fyrir það að mjög er losað um alla heimild til fjárfestinga í venjulegum iðnaði og ýmsum öðrum greinum hér á landi, ákveðin ákvæði sem kunna að stangast á við reglur og ég veit að stangast á við reglur Evrópubandalagsins. Þar er ákveðið að maður skuli vera íslenskur ríkisborgari eða hafa dvalist hérlendis í eitt ár til að vera jafngildur íslenskum ríkisborgurum í fjárfestingu hér á landi. Halda slík ákvæði eða verður að breyta þeim? Þetta er nauðsynlegt að fá upplýst.
    Hér er einnig ákveðið að erlendir aðilar megi eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabönkum. Heldur það ákvæði eða verður að breyta því? Hér er erlendum aðilum ekki heimilað að setja upp banka heldur aðeins útibú. Heldur það ákvæði eða verður að breyta því?
    Einnig er heildarfjárfesting erlendra aðila takmörkuð á hverju ári eins og nokkuð ítarlega er rakið í 7. lið 4. gr. þessara laga. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra.`` Að vísu er þarna opið, ,,með leyfi viðskiptaráðherra``, en yrði slíkt þolað í þessu svokallaða frelsi Evrópubandalagsins?
    Hér eru fyrirtæki jafnframt skráð erlend sem út af fyrir sig hlýtur að mega séu þau með erlendri fjárfestingu. Þetta er eitt af allra stærstu málunum.
    Í öðru lagi setti síðasta ríkisstjórn það skilyrði að ekki kæmi til greina erlend fjárfesting í orkumálum, þ.e. hvorki eignarhald á orkulindum né virkjun orkulinda. Ég tel að miðað við þær reglur sem hér gilda um virkjun fallvatna þá muni þær reglur halda, þ.e. að hér hefur hið opinbera, ríkið, einkarétt til virkjunar á fallvötnum, þá muni þær halda. Hins vegar er ekki ljóst með jarðhitann og spurning hvernig á að girða fyrir það að erlendir aðilar geti virkjað jarðhitann hér á landi. Heldur sá fyrirvari sem við settum í þessu sambandi?
    Ýmis önnur atriði voru nefnd af okkar hálfu. Í fyrsta lagi land og hlunnindi. Sá fyrirvari var settur af Íslands hálfu að ekki kæmi til greina að erlendir aðilar gætu eignast hér land og þau hlunnindi sérstaklega sem því fylgja sem var kallað í þessu skjali sem lagt var fyrir ríkisstjórnina í lok október ,,Fjárfestingar í landareignum í ágóðaskyni``. Hér er að mínu mati um mjög stórt atriði að ræða sem hefur verið mjög til umræðu innan Evrópubandalagsins og ég vil leyfa mér að segja að er mikið áhyggjuefni hjá sumum þjóðum þar, t.d. Dönum og ég hygg Bretum og fleirum, þar sem dómstóll Evrópubandalagsins hefur dæmt gegn takmörkunum sem þar hafa verið settar á slíkar eignir. Þetta er hlutur sem við hljótum að spyrja um: Er tryggt, sem síðasta ríkisstjórn var algjörlega sammála um, að ekki komi til greina að erlendir aðilar fái að fjárfesta í landareignum í ágóðaskyni, eins og segir hér, eða í hlunnindum, gætu eignast þau hlunnindi sem fylgja slíkum kaupum?
    Við settum einnig skilyrði um innflutning á vinnuafli og gerðum þá kröfu að sömu

reglur giltu um innflutning á vinnuafli frá Evrópubandalaginu og gilda í samningum okkar við Norðurlöndin. Þar er slíkur innflutningur frjáls þar til gripið er í taumana eða hann stöðvaður af einhverjum ástæðum, þ.e. íslenska ríkið hefur heimild til að stöðva slíkan innflutning. Hvernig stendur þetta mál? Mér skilst að þarna hafi verið miklir erfiðleikar og hefur verið vísað í almennan fyrirvara sem ég kem að hér á eftir.
    Í þessum viðræðum voru að vísu aðrir fyrirvarar nefndir eins og þýðingarskylda á útsendu sjónvarpsefni, einkaréttur Pósts og síma á gagnaflutningsnetum og sömuleiðis gilda sérreglur um lyfjakaup. Ég lít svo á að þó að þetta séu vissulega fyrirvarar sem þarf að ræða þá séu þeir þó ekki eins mikilvægir og þeir sem ég hef nú þegar nefnt.
    En staðreyndin er jafnframt sú að ýmislegt fleira hefur komið í ljós eftir að þessir samningar hefjast. Þar vil ég nefna heilbrigðisreglur sem krafa hefur verið um að yrðu samræmdar á milli allra ríkja EES. Í þessum heilbrigðisreglum er, sýnist mér, fjölmargt sem við Íslendingar getum alls ekki undirgengist.
    Þá hafa einnig orðið miklar umræður um innflutning á landbúnaðarafurðum. Fyrri ríkisstjórn hafði séð óskir um slíkt sem voru mjög takmarkaðar, þ.e. takmarkaðar við nokkrar gróðurhúsaafurðir. Og þótt frjáls innflutningur á þeim gæti sannarlega valdið hér nokkrum erfiðleikum þá taldi síðasta ríkisstjórn að það mál yrði að skoða ef annað gengi upp sem ég hef rakið og eftir hefur verið sótt. Hins vegar hefur komið fram að síðan hafi Evrópubandalagið óskað eftir langtum víðtækari heimildum til innflutnings á landbúnaðarafurðum, m.a. mjólkurafurðum, sem að vísu er sagt að við Íslendingar höfum ekki tekið þátt í, en aðrar þjóðir samþykkt. Hvað þýðir það? spyr ég. Þýðir það að ef við fengjum tollfrelsi fyrir allan okkar fisk og vildum gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði, þá yrðum við að samþykkja þennan innflutning á landbúnaðarafurðum sem mér er tjáð að geti verið u.þ.b. 17% af mjólkurframleiðslunni hér á landi?
    Við höfum jafnframt frétt að loftferðasamningar verði á einn eða annan máta teknir inn í þessa samninga um Evrópskt efnahagssvæði sem aldrei var nefnt í tíð fyrri ríkisstjórnar. Hvað þýðir það? Þýðir það að við yrðum að öllu leyti háðir þeim ákvörðunum sem Evrópubandalagið tekur um loftferðir, þ.e. um verð og tíðni o.s.frv.? Þýðir það að við yrðum að öllu leyti háðir því frjálsræði sem nú er verið að tala um í loftferðum innan Evrópubandalagsins? Mun það einnig ná til Evrópska efnahagssvæðisins og verðum við Íslendingar aðilar að því? Þetta er hlutur sem var aldrei ræddur en mér er tjáð að hafi síðan verið til umræðu.
    Við vorum einnig vissulega með fyrirvara um aðlögun í frelsi til fjármagnsflutninga og þjónustuviðskipta. Fjármagnsflutninga afgreiddi síðasta ríkisstjórn þannig að sett var sérstök reglugerð sem gerir ráð fyrir slíkri aðlögun. Ég spyr: Stenst það? Og hvað um þjónustuviðskiptin? Yrði sú aðlögun viðunandi fyrir okkar íslensku þjónustufyrirtæki sem eru smá borin saman við það sem er í kringum okkur?
    Ég hygg að ég hafi rakið flesta af þeim fyrirvörum sem settir voru og eins og menn munu taka eftir þá eru þeir fáir en þeir eru stórir. Sá kostur var valinn að hafa þá ekki mjög marga. Mér skilst að Svíar hafi verið með á annað hundrað alls konar smærri fyrirvara um einstakar framleiðslugreinar, sem að vísu hefur verið fallið frá nú, og sama hafi átt við t.d. um Sviss. En við ákváðum að hafa þá fáa en standa mjög fast á þessum fyrirvörum.
    En það er líka fleira sem við þurfum að sjálfsögðu að vita um og það er: Hvað telja menn að tollfrelsi muni fást fyrir mikið af okkar sjávarafurðum? Ég vísa til þess sem ég sagði hér í upphafi að fyrri ríkisstjórn lagði áherslu á tollfrelsi fyrir allar sjávarafurðir og reyndar má segja að annað hafi aldrei verið til umræðu. Ég vísa einnig til þess sem hæstv. sjútvrh., sem hér gekk í salinn áðan, sagði hér í maí að aðild að Evrópsku efnahagssvæði kæmi ekki til greina, og hann lagði mikla áherslu á það, nema tollfrelsi fengist fyrir allar okkar sjávarafurðir. Er þetta ákvörðun ríkisstjórnarinnar eða er þetta einkaákvörðun hæstv. sjútvrh.? Ég tek undir þetta með hæstv. sjútvrh. Ég tel þetta eitt allra stærsta málið. Hvernig verður þá haldið á því máli m.a. eftir slíka yfirlýsingu? Ég vona að hæstv. sjútvrh. sé hér þinghúsinu og geti þá rætt það nánar.
    Ýmislegt fleira hefur verið nefnt í þessum umræðum eins og ríkiseinkasala á áfengi og tóbaki sem fróðlegt væri að heyra um. Ég heyri að sumir hv. þm. hafa haft af því

áhyggjur hvað um hana verður. Það er mál sem aldrei kom upp á borðið fyrr en eftir að síðasta ríkisstjórn fór frá. Hvað um starfsmenntun? Mér hefur verið tjáð að það séu nokkrar deilur um hvort starfsmenntun verði viðurkennd á Evrópsku efnahagssvæði. Það er vitanlega stórmál að almennt mundi fást skilyrðislaus aðgangur að öllum menntastofnunum Evrópska efnahagssvæðisins og þar með gjöldum sem eru viðráðanleg fyrir okkur Íslendinga og þá sem að koma því eins og menn vita er það mjög mismunandi hvað greiða þarf í skólagjöld. Þetta er mjög stórt atriði og sumir hafa litið til þessa atriðis sem mikilvægs hliðarákvæðis fyrir okkur Íslendinga ef úr þessum samningum verður.
    Það er kannski rétt að spyrja að því, þó ég búist ekki við að hæstv. utanrrh. hafi um það mikil svör, hefur verið rætt um eða er von á nokkrum breytingum í sambandi við það víðtæka styrkjakerfi sem Evrópubandalagið rekur í sínum sjávarútvegi? Vitanlega er það hlutur sem við getum illa sætt okkur við, alveg sérstaklega ef tolla á áfram flökin sem eru í beinni samkeppni við þær afurðir sem þetta styrkjakerfi framleiðir.
    Ég gæti út af fyrir sig rakið ýmislegt fleira. Ég hygg að tíma mínum sé senn lokið en mig langar að lokum til að vísa til þess sem fram kemur í ritinu ,,Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið`` sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið út. Þar eru teknar saman þrjár skýrslur sem voru unnar að minni ósk og ríkisstjórnarinnar síðustu þar sem reynt er að meta hvaða hagsmunum við sækjumst eftir og geta orðið miklir í þessum samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Þar koma fram mjög athyglisverðar tölur. Þar er metið að það lægsta sem unnt er að gera ráð fyrir að við hefðum út úr þessu jafngilti 425 þús. kr. eingreiðslu til hverrar fjögurra manna fjölskyldu í landinu, þ.e. hver fjögurra manna fjölskylda fengi einn vel notaðan gamlan bíl. Hins vegar eru flestir sammála því að það er ekki mikið og þarna er miðað við 6% raunvexti. En síðan sé miðað við þá hæstu tölu sem Þjóhagsstofnun telur að Ísland geti fengið út úr þessu, þá er gert ráð fyrir því að fjögurra manna fjölskylda fengi jafngildi um 1 millj. 882 þús. kr. eingreiðslu. Það er eins og rúmlega hálfur ráðherrabíll svo að ekki eru þetta miklar og stórar tölur og vekur menn náttúrlega til umhugsunar um það hvers virði aðild að Evrópsku efnahagssvæði er í raun, t.d. ef við fáum ekki tollfrelsi fyrir allar okkar sjávarafurðir sem er að sjálfsögðu innifalið í þessari hærri tölu. Og sömuleiðis þegar maður gerir sér grein fyrir þeim staðreyndum að hagvöxtur í Evrópu hefur verið töluvert minni en gert var ráð fyrir og margir spá því að mjög miklir erfiðleikar séu fram undan. Og ekki síst þegar maður hlustar á hæstv. utanrrh. sem hefur lýst Evrópubandalaginu sem einhverju mesta afturhaldi í heimi, einokunarstofnun og sjálfselskri stofnun sem fyrst og fremst hugsi um það að fá inn hráefni ódýrt en halda unnum vörum fyrir utan. Og ég verð að viðurkenna að ég er mjög sammála lýsingu hæstv. utanrrh. á þessum málum.
    Loks langar mig til þess að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telur ekki koma til greina ef þessir samningar nást að leggja þá fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu eins og fjöldi Íslendinga nú krefst. Tvímælalaust er hér um gífurlega mikið hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að ræða og ég vil taka það fram að ég tel þá ósk mjög sanngjarna. En hins vegar er mér ljóst að til að unnt sé að framkvæma slíkt verður að útbúa málið á þann máta að það sé vel aðgengilegt og það hlýtur að vera hægt eftir þessar miklu umræður.