Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 17:17:00 (227)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að nota mér þessa grein þingskapa mikið, en ég get ekki orða bundist út af því sem formaður þingflokks Alþfl. sagði áðan. Ég vona að það hafi verið mismæli því hann sagði að við fáum eitthvað fyrir ekkert. Ég vona satt best að segja að þetta hafi verið mismæli. Hann talaði eins og margir þingmenn stjórnarflokkanna hafa gert að þessar gagnkvæmu veiðiheimildir væru ekkert mál, eins og ekki væri hægt að nýta langhala af Íslendingum. Ég vil benda hv. þm. á það að loðnukvóti Efnahagsbandalagsins hefur á undanförnum árum alls ekki verið veiddur. Ef eitthvað er, þá erum við e.t.v. að fá lítið sem ekkert fyrir eitthvað. Þetta er nefnilega stórmál og það er afar alvarlegt mál ef þau ummæli berast til þeirra aðila sem standa í þessum samningum að það sé litið á þetta mál af slíkri léttúð á Alþingi Íslendinga.