Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:18:00 (231)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að koma hér aftur í pontu en sá mig eiginlega knúna til þess eftir orð hæstv. umhvrh. hér í pontunni áðan.
    Fyrst langar mig til að benda á sérkennilegt atriði sem kom fram í máli hæstv. ráðherra en þar sagði hann að furðulegt væri af stjórnarandstöðunni að gagnrýna utanrrh. fyrir stór orð en gagnrýna hann svo jafnframt fyrir að hann hefði ekki haldið nógu vel á málum. Ég hef aldrei séð neina tryggingu í því að það að hafa stór orð um hlutina tryggi einhver gæði, eða að það samsvari því að menn passi vel upp á mál þótt þeir hafi stór orð um þau. Ég sé því enga mótsögn í þessu tvennu.
    Hæstv. umhvrh. sagði að ég færi með rangt mál þegar ég var að tala hér um menntamálin áðan og þegar ég hélt því fram að Evrópskt efnahagssvæði hefði enga úrslitaþýðingu fyrir okkur í menntamálum í Evrópu, það opnaði ekki nýjar leiðir. Hann sagði að það vissu allir sem eitthvað vissu á annað borð að það væri orðið erfiðara fyrir Íslendinga að komast í ákveðið sérnám í Danmörku en verið hefði. Það kann vel að vera að það sé orðið erfiðara fyrir Íslendinga að komast í ákveðið sérnám í Danmörku. Ekki ætla ég að neita því því það vita líka allir sem vilja vita að Íslendingar hafa notið ákveðinna forréttinda í Danmörku um langt árabil. Það vita t.d. þeir sem hafa stundað nám í Danmörku. Þeir þekkja þau forréttindi. Þetta má kannski kalla arfleifð frá nýlendutímanum sem ekki er óeðlilegt að hverfi með tíð og tíma. Þannig hefur það t.d. verið að ákveðnir skólar hafa verið opnir fyrir Íslendingum og tiltekin pláss í ákveðnum skólum og hafa verið frátekin fyrir þá. Það er kannski ekkert óeðlilegt þó að Danir séu eitthvað að hugsa sig um og þetta sé að hverfa, þessi forréttindi Íslendinga. Hundruð íslenskra námsmanna hafa verið í Danmörku á undanförnum árum og þeir hafa notið margháttaðrar fyrirgreiðslu, styrkja og annarra slíkra hluta.
    Mér finnst skipta máli þegar menn halda því fram að það sé verið að loka á Íslendinga í Danmörku að þeir færi þá almennileg og gild rök fyrir sínu máli og nefni dæmi því til sönnunar að þetta sé vegna þess að Ísland er ekki inni í Evrópubandalaginu eða verði á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki vegna einhverra sérstakra samninga eða sérstakra ákvæða sem gilt hafa um Íslendinga. Mér finnst alveg óþarfi að sitja hér og hlusta á menn hafa eitthvað fyrir satt, og ekki síst þegar um ráðherra er að ræða, en færa ekki ljós og góð rök fyrir sínu máli.
    Mig langar að vitna í þessa skýrslu sem ég var hér með áðan sem heitir ,,Háskóli Íslands, framvinda og framfarir 1985--1991``. Þar er m.a. fjallað um þessi alþjóðamál og þar kemur skýrt fram að það er að verða ákveðin breyting, ekki bara í Evrópu, heldur í heiminum, í samstarfi háskóla. Hér segir, með leyfi forseta: ,,Þær breytingar sem nú eiga sér stað í samstarfi háskóla gera það að verkum að háskólar sem ætla að vera fullgildir þátttakendur í þróuninni geta ekki setið hjá aðgerðalausir og látið það ráðast hver hlutur þeirra verður. Bæði stjórnvöld og háskólar í nágrannaríkjum okkar gera sér grein fyrir þessari þróun, en þar fá háskólar víða sérstaka fjárveitingu til alþjóðavæðingar. Þessa sér merki í markvissri uppbyggingu á námsleiðum fyrir erlenda nemendur og rekstri alþjóðaskrifstofa í einstökum háskólum. Það skipulag sem nú er að líta dagsins ljós þýðir að við fáum ekki lengur frítt far í alþjóðasamskiptum. Ef við ætlum okkur að halda öllum leiðum opnum og njóta þeirra kosta sem samningar um stúdenta- og kennaraskipti og samvinna í rannsóknum bjóða upp á verðum við að kosta nokkru sjálf til.``
    Svo er líka hægt að vitna til plaggs, sem ég held að sé unnið í utanrrn., um þessi mál. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Engar almennar reglur eru í gildi innan EB sem veita nemendum aðildarríkjanna forgang að menntastofnunum í aðildarríkjunum, enda hafa stjórnvöld í hverju landi fyrir sig yfirstjórn skólamála með höndum.`` Ég held að þetta geti ekki verið mikið skýrara.
    Ég kom hér áðan í pontu og bað hæstv. utanrrh. um leggja mat á þá dóma sem EB-dómstóllinn felldi í máli Spánverja gegn Bretum, en vegna naums tíma gat ég kannski ekki farið eins vel í það mál og ég hefði viljað. Ég veit ekki hvort þingmenn þekkja almennt þessa dóma. Mig langar aðeins til að rekja þetta mál áður en hæstv. utanrrh. gefur mér sitt svar sem ég vona að verði hér á eftir.
    Bretar settu, að ég held, a.m.k. þrenn lög og voru með þeim að reyna að koma í veg fyrir að Spánverjar skráðu skip sín í Bretlandi, veiddu úr þeim kvóta sem Bretum var úthlutað af Efnahagsbandalaginu og sigldu með kvótann til Spánar og ynnu hann þar.
    Lög frá 1987 kveða á um að 75% af áhöfn fiskiskipa skuli vera breskir ríkisborgarar eða íbúar annarra EB-landa sem hafa fasta búsetu í Bretlandi. Dómsorð EB-dómstólsins var á þá leið að þessi lög væru í andstöðu við samþykktir EB vegna þess að þau mismunuðu íbúum innan EB.
    Önnur lög voru frá 1987 um að fiskiskip sem skráð eru í Bretlandi verði að hafa fast aðsetur fyrir starfsemi sína, koma annað slagið til breskra hafna og landa 50% af afla sínum og selja í Bretlandi. EB-dómstólinn féllst á að þessi lög gætu haldið gildi sínu á þeirri forsendu að ekki væri óeðlilegt að ákveðin efnahagsleg tengsl væru milli þjóðarinnar sem ætti kvótann, sem fengi úthlutað kvótanum, og þeirra skipa sem veiddu hann.
    Þriðju lögin voru frá 1988 og þau voru um það að 75% eignarhlutur í fiskiskipum yrði að vera í eigu breskra ríkisborgara eða fyrirtækja. Og til að fyrirtæki gæti talist breskt verði 75% hlutafjár að vera í breskri eigu og 75% stjórnarmanna verði að vera breskir. Að auki var gerð sú krafa að eigendur væru ekki aðeins breskir ríkisborgarar, heldur hefðu einnig fasta búsetu í landinu. Eigendur 95 spænskra togara sem hafa veitt af breskum kvóta á undanförnum árum höfðuðu mál til að fá þessum lögum breytt og dómurinn féll Bretum í óhag. Úrskurðurinn var sá að með þessu móti væri íbúum EB mismunað eftir þjóðerni. Það var heldur ekki tekið gott og gilt að menn þyrftu að hafa fasta búsetu í Bretlandi. Féll dómurinn á þá leið að með því móti væri í rauninni verið að hygla breskum borgurum á kostnað annarra.
    Ég held að eftir þessa dóma hljótum við að efast um að þær girðingar sem menn vilja setja í íslenska löggjöf haldi þegar á reynir og ég verð þá að fá mun sterkari rök en þau sem ég hef heyrt hér til að trúa því.