Evrópska efnahagssvæðið (EES)

8. fundur
Miðvikudaginn 16. október 1991, kl. 18:25:00 (232)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er ég knúinn til að segja það, þegar talað er um aðgang stúdenta að skólum, t.d. í Danmörku, að ég kynntist því mjög vel sem formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs á sínum tíma að til mín og til fleiri fulltrúa Íslands í Norðurlandaráði leituðu íslenskir námsmenn af þeirri ástæðu að þeir fengu ekki inngöngu, t.d. í verslunarháskóla í Danmörku, vegna þess að nemendur frá löndum Evrópubandalagsins voru teknir þar fram fyrir og höfðu meiri rétt. Ég ætla ekkert að segja fleira um þetta og það skiptir mig í sjálfu sér ákaflega litlu hvað hv. þm. Ingibjörg Sólrún kann frekar að segja um þetta mál. Þetta upplifði ég, þetta upplifðu áreiðanlega fleiri Íslendingar sem tóku þátt í störfum Norðurlandaráðs.
    Varðandi alþjóðasamskipti háskóla er það rétt að það hefur aukist að nemendur geti stundað hluta af sínu háskólanámi við erlendan háskóla. Um það eru margar samstarfsáætlanir í gangi sem Háskóli Íslands er m.a. aðili að. Þetta er alveg rétt, en það breytir ekki því að varðandi greinar eins og dýralækningar, byggingarlist, arkitektúr, og sjálfsagt ýmislegt fleira þar sem um það er að ræða að íslenskir stúdentar verða að stunda allt sitt nám, allt námið frá upphafi til enda við erlenda háskóla, þá eru horfurnar þær að þetta sé að verða erfiðara. Í raun hafa margir íslenskir námsmenn, sem hafa verið að leita fyrir sér

um skólavist erlendis, einmitt upplifað það með þeim hætti og þó að hv. þingmaður komi upp í ræðustól aftur og haldi hinu gagnstæða fram breytir það því ekki. A.m.k. hef ég ekki ástæðu til að ætla að þeir íslensku stúdentar sem hafa rætt þessi mál í minni áheyrn og sagt mér af sinni reynslu séu að fara með ósatt mál. Ég hef enga ástæðu til að ætla það.