Umferð kjarnorkuknúinna herskipa um íslenska lögsögu

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:45:00 (241)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Það hefur verið yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda um áratuga skeið að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna hér á landi. Í ágúst 1980 lýsti þáv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, því yfir að bannið ætti við um varanlega sem og tímabundna staðsetningu kjarnavopna og jafnframt flutning kjarnavopna um Keflavíkurflugvöll og lofthelgi Íslands. Geir Hallgrímsson, þáv. utanrrh., útfærði þessa stefnu enn frekar þegar hann lýsti því yfir í apríl 1985 að bannið ætti einnig við um herskip sem kæmu í hafnir hérlendis eða sigldu um íslenska lögsögu.
    Það hefur verið nokkuð almennur skilningur hér á landi sem erlendis að í yfirlýsingu Geirs Hallgrímssonar fælist útfærsla á stefnunni um að leyfa ekki staðsetningu kjarnavopna hérlendis. Undirritaður hefur heyrt þá túlkun hjá einum eða tveimur gamalgrónum embættismönnum utanrrn. að svo væri ekki. Sú stefna að leyfa ekki heimsóknir herskipa með kjarnavopn innan borðs væri eldri. Mér hefur ekki tekist að finna staðfestingu þess í skjalasafni utanrrn. Af þeim sökum tel ég rétt að álykta að Geir Hallgrímsson hafi útfært þessa stefnu og fyrir þann tíma hafi íslensk stjórnvöld ekki haft skýra stefnu í þessu máli.
    Á síðustu árum og raunar áratugum hafa engin kjarnorkuknúin herskip siglt innan 12 mílna landhelgi svo vitað sé. Utan 12 mílna landhelgi getum við ekki bannað för herskipa eða annarra skipa. Um það eru skýr ákvæði í þjóðarétti. Í ljósi þess að kjarnorkuknúin herskip hafa ekki siglt um íslenska landhelgi svo að vitað sé né heldur borið fram ósk um að koma til hafnar hér á landi hafa íslensk stjórnvöld ekki séð ástæðu til að

setja sérstakar reglur um slíkar siglingar eða banna þær og núv. ríkisstjórn hefur ekki uppi slík áform. Ég tek hins vegar fram að ef það kæmi upp að kjarnorkuknúin herskip tilkynntu um siglingu um íslenska landhelgi eða bæru fram ósk um að ná höfn á Íslandi, þá yrði það mál tekið til sérstakrar afgreiðslu.