Stefna stjórnvalda gagnvart flóttamönnum á Íslandi

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 10:51:00 (245)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Í sumar átti ég þess kost að sitja sumarþing Evrópuráðsins í Helsinki í Finnlandi ásamt fleiri þingmönnum. Meðal þess sem vakti hvað mesta aðhygli mína af þeim málefnum sem rædd voru þar var umfjöllun um fólksflutninga og flóttamannastraum milli ríkja Evrópu og sá gífurlegi þrýstingur sem skapast hefur við hlið Evrópu frá fólki sem ýmist flýr styrjaldir eða pólitískar ofsóknir í löndum þriðja heimsins eða

leitar betra lífs meðal hinna ríku þjóða, hinum svokölluðu flóttamönnum af efnahagslegum ástæðum, sem reyndar falla ekki undir alþjóðlegar skilgreiningar á flóttamönnum. Síðustu tölur sem menn höfðu handbærar um fólksflutninga og flóttamannastraum eru frá árinu 1989 en það ár urðu mestu flutningar fólks innan Evrópu og inn í Evrópu síðan árið 1951, en þá voru menn enn að taka á afleiðingum síðari heimsstyrjaldarinnar.
    Innflytjenda- og flóttamannastraumur er orðinn svo mikið vandamál víðs vegar í Evrópu að t.d. löndin við norðanvert Miðjarðarhaf hafa boðið ríkjunum við sunnanvert hafið upp á sérstakt átak í atvinnu- og efnahagsmálum ef það mætti verða til að stöðva strauminn til Evrópu. Það er afar ólíklegt að við Íslendingar munum fara varhluta af þeim fólksstraumi eða nýju þjóðflutningum sem liggja vestur og norður á bóginn. Það er því ekki að ástæðulausu að mig fýsir að vita hvernig málefnum flóttamanna og innflytjenda er háttað hér á landi ef þær upplýsingar sem ég vænti frá hæstv. dómsmrh. mættu verða til að vekja fólk til umhugsunar um þessi mál og kveikja umræður um það hver framtíðarstefna okkar á að verða varðandi flóttamenn og fólk sem sækir eftir landvistarleyfi hér.
    Á þskj. 12 leyfi ég mér því að spyrja hæstv. dómsrmh. eftirfarandi spurninga:
,,1. Hvaða skyldur hafa íslensk stjórnvöld gagnvart flóttamönnum ef litið er til samþykkta Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni þeirra?
    2. Hvaða reglur gilda um landvistarleyfi útlendinga á Íslandi og borttvísun úr landi?
    3. Hver er stefna núv. ríkisstjórnar í málefnum flóttamanna sem hingað leita?``
    Síðasta spurningin er ekki síst borin fram vegna þess að virtur lögmaður hér í bæ hefur haldið því fram að íslensk lög séu ekki í samræmi við mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Því fýsir mig að vita hvort fyrirhugaðar séu breytingar á þeim lögum sem fjalla um flóttamenn og útlendinga.