Flóttamenn á Íslandi

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:07:00 (252)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann hefur gefið hér í dag. Mér þykja þetta athyglisverðar upplýsingar sem hafa komið fram og þær þarfnast svo sannarlega frekari skoðunar.
    Það er nú svo varðandi þá sem koma til landsins og er vísað burt á landamærunum, eins og það er kallað, að það er erfitt að fá nánari vitneskju um það hvaðan það fólk kemur og af hvaða ástæðum því er vísað á brott. Það er ein af grundvallarreglum varðandi þá sem leita hælis að þeir hafi möguleika á að ná sambandi við stjórnvöld og að þeir fái tækifæri til að tala sínu máli. Ég tek undir það með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ég held að þau lög sem hér eru í gildi þarfnist endurskoðunar.
    Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi við fyrri fsp. minni að flóttamannastraumur og fólksflutningar eru stöðugt vaxandi, það er auðvitað vandamál því að þessu fylgja ýmiss konar ráðstafanir sem þarf að grípa til. En málið er það að mínum dómi að við þurfum að átta okkur á þeim breytingum sem eiga sér stað. Við þurfum að marka stefnu og við þurfum að uppfylla þær skyldur sem lagðar eru á þjóðir heims varðandi flóttamenn og þá sem leita hælis af ýmsum ástæðum. Ég þakka þau svör sem hér hafa verið veitt.