Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:10:00 (253)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Hinn 12. mars 1991 samþykkti hið háa Alþingi þáltill. hv. 5. þm. Reykv. Inga Björns Albertssonar og varð ályktunin svohljóðandi eftir afgreiðslu hv. allshn.:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að á árinu 1991 verði gerður samningur um kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.``
    Tillaga þessi fékk mikla umfjöllun í hv. nefnd og menn gerðu sér fullkomlega ljóst að hér var um að ræða mikla fjármuni þegar til kaupanna kæmi, en menn mátu nauðsynina svo knýjandi að ekki yrði hjá því komist að bæta flugvélakost Landhelgisgæslunnar. Málið fór til umsagnar fjölda aðila, m.a. Slysavarnafélags Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandsins, Sjómannasambands Íslands, Flugmálastjórnar, Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og síðast en ekki síst Landhelgisgæslunnar sjálfrar. Allir þessir aðilar lýstu stuðningi við þetta mikilvæga mál.
    Ég átti sæti í nefndinni og tel mig hafa átt nokkurn þátt í samþykkt tillögunnar og skal það ekki rakið hér frekar. Ekki skal ég heldur endurtaka þau augljósu rök fyrir nauðsyn þess að tryggja betur líf og limi þeirra sem sjóinn sækja hér við land og þeirra sem í afskekktum byggðum búa, að ekki sé minnst á þá karla og konur sem hætta eigin lífi við að bjarga öðrum.
    Það kom mér hins vegar á óvart að sjá engin merki þess í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 að kaup á björgunarþyrlu séu fyrirhuguð og enn meiri undrun vakti viðtal við hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, í Dagblaðinu 7. okt. sl. --- Nú vil ég benda á að hv. þm. er sitjandi forseti, vilji hann svara fyrir sig þá vildi ég biðja hæstv. forseta að fá sér varamann svo hann sé ekki bundinn í þessum virðulega stól, en auðvitað ræður hæstv. forseti því sjálfur. --- En í Dagblaðinu 7. okt. kemur fram að hv. 3. þm. Reykv. er formaður í nefnd sem skipuð var til að kanna þá kosti sem bestir væru við kaup á þyrlu. Þar lýsir hv. þm. þeirri skoðun sinni að Íslendingar eigi að hafa öflugt samstarf við varnarliðið á sviði björgunarmála en vill ekkert annað um málið segja og boðar niðurstöður nefndarinnar innan tíðar. Þær niðurstöður hef ég ekki enn þá séð.
    Ég harma mjög ef hið nýja Alþingi hefur skipt um skoðun á þessu mikilvæga máli og hef því lagt fram fsp. á þskj. 19 sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hvað líður undirbúningi á kaupum á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna sem samþykkt voru með ályktun Alþingis 12. mars 1991?``