Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:21:00 (256)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Það vekur nokkra undrun mína að framámenn í samtökum sjómanna sem hér sitja meðal þingmanna skuli ekki hafa áhuga á þessu máli og um leið og ég að sjálfsögðu þakka hæstv. ráðherra fyrir það svar sem hann gaf, þá vekur það furðu mína en það er auðvitað alveg hárrétt sem hv. 8. þm. Reykn. sagði. Menn hafa hætt við að kaupa björgunarþyrlu. Það er hárrétt að Alþingi samþykkti aldrei að fara í viðræður við bandaríska herinn um björgun á íslenskum sjómönnum eða flutningi sjúklinga milli staða á okkar strjálbýla landi.
    Í þessu umrædda blaðaviðtali sem ég vitnaði í í fyrri ræðu minni segir blaðafulltrúi bandaríska hersins, með leyfi hæstv. forseta: ,,Björgunarsveit bandaríska flughersins á Keflavíkurflugvelli hefur fyrst og fremst það hlutverk að bjarga flugmönnum sem hafa verið skotnir niður á vígvelli.`` --- Síðan telur blaðafulltrúinn að til greina kæmi samningur við Landhelgisgæsluna varðandi aðstoð þegar sérstaklega stæði á. Síðan segir blaðafulltrúinn, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er hins vegar spurning fyrir Íslendinga hvort þeir geti alfarið treyst á herinn í þessu sambandi. Það reynir náttúrlega hver og einn að vera sjálfum sér nógur í þessum efnum. Ef til stríðs kæmi mundi herinn fyrst og fremst hugsa um sína.``
    Þetta var ekki það sem við vorum að ræða á hinu háa Alþingi og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. og raunar ríkisstjórnina alla, það er nú ekki mikið af henni hér: Eru þetta þakkirnar til þeirra manna sem hætta lífi og limum allan ársins hring í höfunum hér í kringum landið?
    Ég vil spyrja hv. 16. þm. Reykv., Guðmund Hallvarðsson: Er hann sáttur við þessa afgreiðslu mála? Við alþýðubandalagsmenn erum það ekki. Við höfum stutt tillögu hv. 5. þm. Reykv., Inga Björns Albertssonar, með ráðum og dáð og ég get upplýst það hér að ég hygg að það hafi verið mín afstaða sem réði því og það náðist meiri hluti og reyndar einróma álit að lokum um þetta mál í hv. allshn. Ég vil fyrir hönd míns flokks lýsa því yfir að við fordæmum þessa meðferð mála og skorum á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þetta mál.