Björgunarþyrla

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:23:00 (257)

     Guðmundur Hallvarðsson :
     Virðulegi forseti. Hér hefur orðum verið beint sérstaklega til mín sem eins af forsvarsmönnum sjómannastéttarinnar varðandi það mál sem hér er til umræðu, björgunarþyrlu. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt. Hitt finnst mér þó vefjast nokkuð fyrir þingmönnum, og þeir gera kannski meira úr en efni standa til, að það er ekki eingöngu sjómannastéttin sem er háð þessu öryggistæki. Ég vil minna á það og ítreka að af 1162 klukkustunda flugi björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar á síðasta ári voru ekki allar flugstundir eingöngu vegna sjómanna. Engu að síður er þetta mikið hagsmunamál fyrir sjómannastéttina.

    Það kom fram hér í máli hv. 8. þm. Reykn. að hann hefði sett á laggirnar nefnd til þess að vinna að þessum málum þá síðasta þing starfaði. Og það er rétt. En hvar liggja niðurstöður þeirrar nefndar, þeirra embættismanna, sem voru á ferð og flugi um Bandaríkin og Evrópu? (Forseti hringir.) Við höfum ekki fengið að sjá niðurstöður þessara aðila, alla vega ekki samtök sjómanna.
    Ég vil taka það fram og ég ítreka það að auðvitað er það krafa sjómannastéttarinnar að þetta öryggistæki, þessi öryggishlekkur verði svo úr garði gerður að sjómannastéttin megi vel við una.
    Að lokum þetta, forseti, ég vildi aðeins ítreka það og endurtaka að þyrla er nauðsynleg jafnt sjómönnum sem öðrum landsmönnum og ég treysti því að hæstv. dómsmrh. vinni að því fljótt og vel að leysa þann vanda sem við blasir vegna þessa nauðsynlega björgunartækis.