Málefni héraðsskólanna

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:38:00 (264)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
     Frú forseti. Sem svar við 1. lið fsp. vil ég segja þetta: Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á stöðu héraðsskólanna vegna breyttrar skólaskipunar í landinu. Efstu bekkir grunnskóla eru nú starfræktir á mun fleiri stöðum en áður auk þess sem framhaldsskólum hefur fjölgað að mun. Þetta hefur leitt til þess að óhjákvæmilegt hefur verið að taka starfsemi héraðsskólanna til endurskoðunar og sumir þeirra hafa þegar fengið nýtt hlutverk. Í stuttu máli er staðan sem hér greinir að því er varðar einstaka skóla:
    Héraðsskólinn á Reykjum í Hrútafirði. Skólanum var breytt í skólabúðir fyrir nokkrum árum og hefur sú starfsemi gefið góða raun.
    Héraðsskólinn á Laugum. Skólanum var breytt í framhaldsskóla fyrir nokkrum árum og er nú starfrækt þar tveggja ára framhaldsnám.
    Héraðsskólinn á Laugarvatni. Í skólanum hefur verið 9. og 10. bekkur grunnskóla. Starfsemin var sameinuð Menntaskólanum á Laugarvatni á þessu hausti.
    Héraðsskólinn á Núpi. Við skólann er starfræktur 10. bekkur grunnskóla og eins árs framhaldsnám. Gert er ráð fyrir að skólinn starfi í framtíðinni sem hluti af samhæfðu framhaldsskólakerfi á Vestfjörðum.
    Héraðsskólinn í Reykjanesi. Skólinn starfar ekki skólaárið 1991--1992 vegna nemendafæðar en menntmrn. mun hafa frumkvæði að því að skipuð verði nefnd til að ræða og gera tillögur um starfsemi í Reykjanesi sem gæti orðið byggðarlaginu til hagsbóta.
    Alþýðuskólinn á Eiðum. Við skólann er starfræktur 10. bekkur grunnskóla og tveggja ára framhaldsnám. Ekki eru ráðgerðar breytingar á starfsemi hans.
    Héraðsskólinn í Reykholti. Við skólann er nú starfrækt 1. og 2. ár framhaldsnáms.
    Héraðsskólinn í Skógum. Við skólann eru nú efstu bekkir grunnskóla og eins árs framhaldsnám. Framhaldsnámið er í vetur starfrækt sem útibú frá Fjölbrautaskóla Suðurlands og er þar um tilraun að ræða.
    Eins og þetta yfirlit ber með sér er staða héraðskólanna mismunandi eins og sakir standa. Ekki hefur verið mörkuð heildarstefna um framtíð þeirra en unnið verður að því máli í menntmrn. á næstunni.
    Sem svar við 2. lið fsp. er þetta að segja: Það er ekki gert ráð fyrir að héraðsskólinn í Reykholti starfi nema út þetta skólaár og tillögur um nýtingu húsnæðis skólans verða undirbúnar nú á þessu hausti.
    Um 3. lið fsp. sem fjallar um skólana á Laugarvatni er það að segja að héraðsskólinn, eins og áður hefur verið tekið fram, var sameinaður menntaskólanum. Á Laugarvatni starfa nú grunnskóli og menntaskóli auk Íþróttakennaraskólans. Þetta eru sjálfstæðar skólastofnanir og ráð fyrir því gert að þær starfi áfram.