Málefni héraðsskólanna

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 11:51:00 (271)

     Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. starfandi menntmrh. Því miður fékk ég það staðfest í svörum hans, sem ég óttaðist mjög, að ráðuneytið hefur ekki mótað sér neina ákveðna stefnu í málefnum þessara skóla og ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram að það er mjög nauðsynlegt að hraða þeirri vinnu að móta heildarstefnu og hefði þurft að gera áður en farið var út í aðgerðir eins og við skólann í Reykjanesi. Og ég vil taka undir það sem hefur komið hjá hv. þm. Vestf. hér á undan.
    Ég hefði gjarnan viljað fá að vita eitthvað um vilja eða viðhorf hæstv. menntmrh. en því miður var þess ekki kostur þar sem hann er fjarstaddur og starfsmönnum hans í ráðuneytinu virðist greinilega ekki hafa verið kunnugt um vilja hans þar sem þessi vinna hefur ekki farið í gang.
    Ég vil bara ítreka það og taka undir það sem fram hefur komið að það er mjög mikilvægt að fara strax af stað við að móta þessa heildarstefnu og áður en til fleiri aðgerða kemur í málefnum þessara skóla.