Endurskoðun almannatryggingalaga

9. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 12:00:00 (276)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir því að spara milli 300 og 400 millj. kr. á almannatryggingakerfinu. Augljóst er að sú endurskoðun, sem hæstv. ráðherra var að tala um hér áðan, mun ekki skila sér inn í þingið ef um viðamikla endurskoðun er að ræða þannig að hún hafi áhrif á útgjöld Tryggingastofnunar ríkisins á næsta ári. Sá sparnaður, sem um er að ræða í fjárlagafrv., hlýtur því að vera á takmörkuðum þætti trygginganna, væntanlega þá að því er varðar tekjutryggingu elli- og örorkulífeyris. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir þingheim, bæði fjárln. og heilbr.- og trn. Alþingis, að fá um það upplýsingar hjá ráðherranum núna með hvaða hætti menn sjá fyrir sér þennan niðurskurð á útgjöldum lífeyristrygginganna upp á 300--400 millj. kr. og því vil ég taka undir þá fyrirspurn sem fram kom hér áðan hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni.