Stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 13:14:00 (280)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Herra forseti. Ég ætla að lýsa stuðningi við meginefni þessa frv. en aðeins vekja á því athygli að þarna er möguleiki á að stofna raunverulegt almenningshlutafélag.
    Það rifjast upp í huga mér að þegar Þjóðverjar voru að byrja að rétta úr kútnum eftir síðari heimsstyrjöld, þegar þýska undrið varð til eins og svo var kallað þar sem á örfáum árum var byggt upp öflugt atvinnulíf á rústunum, þá voru einmitt almenningshlutafélög ein meginstoðin. T.d. voru Volkswagen-verksmiðjurnar þannig byggðar upp, almenningshlutafélagið nýja, að allir landsmenn gátu fengið að eignast hlutabréf að vissu marki. Sérstaklega var greitt fyrir starfsfólki. Það fékk gefins hlutabréf, beinlínis gefins, til þess að það hefði ákveðna hvöt til að vinna ötullega við uppbyggingu fyrirtækisins. Það var raunar gengið mun lengra. Þetta var nokkurs konar samhjálp í þjóðfélaginu að því leyti að þeir sem efnaminni voru fengu hlutabréf keypt með afslætti eða á lágu verði, þetta voru nokkurs konar fjölskyldubætur.
    Það er hægt að gera margvíslega hluti þegar vilji er fyrir hendi. Auðvitað má segja að þessi félagsform, almenningshlutafélög og samvinnufélög, séu af sama meiði og það er ánægjulegt að ötulir samvinnumenn eins og flm. eru skuli sjá að þetta er heppilegra form í þessu tilfelli, og kannski langflestum tilfellum, heldur en samvinnufélögin. Þau hafa gert sitt gagn í gegnum tíðina. Ég hef ekki verið sérstakur talsmaður þeirra en þó kannski meiri en menn halda. Ég hef stundum mætt, fyrir nokkuð löngu, á fundi samvinnumanna og gert grein fyrir mismun á samvinnufélögum og almenningshlutafélögum og hefur farið vel á með mér og t.d. fyrrv. forstjóra Sambands ísl. samvinnufélag og fleiri samvinnumönnum.
    Ég tala þess vegna af heilum hug þegar ég bendi á að í nefnd þarf að athuga alla þessa kosti. Kannski er hægt að stofna þarna mjög öflugt félag sem gæti orðið arðvænlegt og skilað hagnaði en samt mikilli hagsæld til fólksins í landinu sem félagið þjónar.