Stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 14:04:00 (284)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Tilefni þess að ég kem hér upp er kannski það að hæstv. samgrh. fór nokkuð um víðan völl í ræðu sinni áðan, fór bæði á landi, legi og alla leið upp í himinblámann þegar hann blandaði flugsamgöngum inn í málið líka. Ræða hans var um tíma undir lokin farin að minna mig á hina gömlu, góðu daga í Ed. þegar þar var stundað alvörumálþóf, enda kom það í ljós að hæstv. ráðherra var enn þá með hugann við hið deildaskipta Alþingi.
    En fyrst varðandi ræðu hv. 1. þm. Vestf. áðan og meiningar hans um það að við frjálslyndir framsóknarmenn ætluðum að fara að taka upp thatcherisma, þá er það alger misskilningur. Við erum hins vegar tilbúnir að taka undir frjálslynda stefnu í peningamálum og uppbyggingu atvinnulífsins en ég vil miklu frekar sækja fyrirmyndir til uppbyggingar og endurreisnar atvinnulífs í Þýskalandi en til thatcherismans sem að mínu viti byggir á hinni hörðu peningahyggju sem ég sé marga meinbugi á. Það hefur nú verið svo þegar við höfum flutt mál, sem við höfum talið til framfara í viðskiptaheiminum, hvort sem það hefur lotið að löggjöf um samvinnufélög eða annað, höfum við nú alltaf átt hauk í horni þar sem er hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson.
    Ég ætla einmitt í beinu framhaldi af þessu að víkja að nokkrum atriðum í máli ráðherrans. Það var eitt sem kom mér eiginlega mjög á óvart, því að ég þekki hæstv. samgrh. að því að vilja beita markaðslausnum helst alls staðar þar sem hægt er, að hann færði það sem rök gegn áframhaldandi rekstri Skipaútgerðar ríkisins, hvort sem væri í því formi sem hann er í í dag eða breyttu formi, að óhjákvæmilega þyrfti að efna til nokkurra fjárfestinga. Þar finnst mér nú Bleik brugðið ef talsmenn frjáls markaðsbúskapar leggjast gegn grundvallaratriði, að mínu mati, gegn slíku kerfi. Ég hef alltaf skilið það svo að það byggði á því að menn reyndu á hverjum tíma að nota hagkvæmustu tækni, en þyrftu þá óhjákvæmilega að grípa til nokkurrar fjárfestingar. Það er svo annað mál að í breyttu formi Skipaútgerðarinnar sem skipafélags í hlutafélagsformi verða allir aðilar málsins miklu betur meðvitaðir um sína ábyrgð. Ef samið er við ríkið um fasta upphæð fyrir þá þjónustu við afskekkta staði sem viðkomandi félag ætti að sinna, þá er félagið orðið stjórnunarlega og rekstrarlega miklu betur í stakk búið til að takast á við þessi verkefni og það verður þá ekkert sótt meira. Ef þetta dugir ekki til þá verður að sækja til eigendanna um nýtt hlutafé og það geta menn metið út frá þeim forsendum.
    Ég vil ekki ætla hæstv. ráðherra það að þarna leynist á bak við einhverjar hugsanir í þá átt --- og það í beinu framhaldi af því sem hann nefndi um óhjákvæmilega nýja fjárfestingu --- að menn óttist um þá fjárfestingu sem nú þegar er til staðar og sem því miður miðast mestöll við að allir vöruflutningar til landsins hafi viðkomu í Reykjavík.
    En síðan var það eitt atriði sérstaklega í máli hæstv. ráðherra sem ég ætla að taka til umræðu og það er þegar hann kom að flugmálunum og þeirri reglugerð sem tekur gildi nú um næstu áramót sem leggur þá kvöð að á öllum flugleiðum, eins og hann rakti áðan, verði tveir flugmenn. Þetta er vissulega áhyggjuefni og getur komið harkalega niður á þjónustu við smærri staði sem hafa notið þessarar þjónustu fram að þessu og hún hefur staðið undir sér.
    Hæstv. ráðherra sagði hins vegar að af þessu hefðu þingmenn engar áhyggjur og létu sér í léttu rúmi liggja. Í því sambandi vil ég benda hæstv. samgrh. á það að mér er kunnugt um það að 1. þm. Austurl. og varaformaður Framsfl. hefur skrifað samgrh. bréf þar sem hann fer fram á það að upplýst verði á hvern hátt samgrn. ætli að bregðast við þessum breyttu aðstæðum gagnvart þeim litlu stöðum sem þarna um ræðir. Ég vil því, virðulegi forseti, biðja hæstv. samgrh. að leita nú --- virðulegi forseti, ég ætla að gera hlé á ræðu minni á meðan ráðherrar spjalla saman í ráðherrastólum þannig að samgrh. hafi tækifæri til þess að hlusta á mál mitt. (Gripið fram í.) Ég mun hins vegar ekki endurtaka allt sem ég hef sagt um þetta mál, en, hæstv. samgrh., ég vil fara fram á það að þú leitir nú í bréfasafni ráðuneytisins að þessu bréfi. ( Landbrh.: Ég man eftir því.) Þú manst eftir þessu bréfi? Það er þá því miður í hróplegu ósamræmi við þau orð sem þú hafðir hér úr ræðustól áðan.
    Að lokum, virðulegi forseti, sýnist mér að hér í þinginu muni vera --- og dreg þá ályktun af þeim umræðum sem hér hafa farið fram --- meiri hluti fyrir því að þetta mál nái fram að ganga í einhverja þá veru sem hér er lagt til. Vissulega fer það fyrir þingnefnd og kann þar að taka breytingum, en ég tel víst að það sé ekki bara hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Matthías Bjarnason sem hugsa á þennan hátt í Sjálfstfl. Og ég hlýt þá að treysta því líka að hæstv. samgrh. framfylgi þessum vilja Alþingis þegar og ef hann kemur fram í formi laga.