Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 15:04:00 (298)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði í þessari umræðu fyrir nokkrum dögum síðan, sem ég var því miður ekki viðstaddur, að hann teldi það brýnt að héðan frá Alþingi heyrðist sú rödd út um byggðir landsins þar sem fólkið fengi trú á því að löggjafarsamkoma þjóðarinnar vilji á málefnalegan hátt fjalla um þennan höfuðatvinnuveg þjóðarinnar á þann veg að mönnum skiljist að hann er undirstaða velferðar og verðmætasköpunar í landinu.
    Hæstv. sjútvrh. sagði jafnframt: ,,Það er þess vegna mjög mikilvægt að okkur takist að stilla saman kraftana til að styrkja undirstöðu sjávarútvegsins og treysta samstöðuna í þessu þjóðfélagi og styrkja undirstöðu velferðar og lífskjara í landinu.`` Og að lokum vil ég vitna í það sem hæstv. sjútvrh. sagði jafnframt í upphafi sinnar ræðu: ,,Sjávarútvegurinn býr nú við erfiðar aðstæður.`` Ég er þessum orðum hæstv. sjútvrh. mjög sammála. En þá kemur næsta spurning. Hvernig heldur hæstv. ríkisstjórn á þessari málefnalegu umræðu sem hún er að kalla eftir?
    Við höfum heyrt, ég vil segja fúkyrði hæstv. forsrh. landsins um nokkurt skeið um það sem fyrrv. ríkisstjórn gerði og á hvern hátt hann hefur fjallað um það við landsmenn. Það er að sjálfsögðu hans mál, en ég hafði vænst þess af núv. hæstv. sjútvrh. að hann ræddi þessi mál með öðrum hætti en hæstv. forsrh. Hæstv. sjútvrh. sagði þegar hann hóf þessa umræðu, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þar kemur glöggt í ljós að þær ráðstafanir sem fyrrv. ríkisstjórn greip til fólu fyrst og fremst í sér að fresta vandanum, skjóta vandamálunum á frest án þess að taka á þeim.`` Og hann sagði jafnframt: ,,Það er ekki nóg að koma á fót lánasjóðum. Það þurfti að tryggja undirstöður atvinnugreinarinnar.`` Hann sagði jafnframt: ,,Samt var haldið þannig á málum að það fjaraði undan og það er ekkert til þegar á móti blæs.``
    Mér dettur ekki til hugar að standa hér og kenna hæstv. núv. sjútvrh. eða öðrum ráðherrum í núv. ríkisstjórn um það hvernig er komið í okkar samfélagi. Málin eru því miður ekki svo einföld að það sé nóg að skipta um ráðherra og þá verði allt gott og blessað, hvar í flokki sem þeir annars eru. Það er nefnilega ekki slíkur búskapur hér á Íslandi að ráðherrar ráði því einir hvernig gengur í samfélaginu og ég hefði haldið sem betur fer.
    Þess vegna kemur mér það á óvart að menn skuli ræða málin með þessum hætti og halda því fram, eins og gert er í þessu dæmalausa kveri, að hér hafi fyrst og fremst, á undanförnum árum, hversu lengi veit ég ekki, ríkt forsjárhyggja og miðstýring í atvinnumálum. Ég kannast ekki við að hafa búið í því samfélagi. Hvernig í ósköpunum stendur á því að núv. ríkisstjórn leggur á það höfuðáherslu að reyna að sannfæra landsmenn um það að hér hafi ríkt forsjárhyggja og miðstýring í atvinnumálum og hér hafi allt verið í kalda koli?
    Ég rifja upp vegna þessa hvert umhverfi sjávarútvegs á Íslandi er og hvenær það umhverfi kom upp. Það hefur verið að gerast á löngum tíma, það hefur verið að þróast um langt skeið. Við höfum verið að átta okkur á því að ekki er endalaust hægt að sækja í

hafið og við höfum áttað okkur á því að við höfum þurft að breyta ýmsu, fiskveiðum, fiskvinnslu, og hugsa upp á nýtt. M.a. þess vegna voru sett hér lög um stjórn fiskveiða. Þessi löggjöf er mikið grundvallaratriði. Hún opnar möguleika til að hagræða í sjávarútveginum, sameina veiðiheimildir, opnar m.a. möguleika til þess að markaðskraftarnir fái að njóta sín. Og hvernig talaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., um það hér í útvarpsumræðunum? Það var allt af hinu vonda, það var allt saman kallað brask, kvótabrask. Það eru vissulega viðkvæm mál en þar er þó opnuð leið til þess að þessir frægu markaðskraftar geti notið sín. Er það miðstýring? Er það forsjárhyggja?
    Hvað vill núv. ríkisstjórn gera í sambandi við það mál? Þar hefur hún skapað óvissu. Sett hefur verið niður nefnd til þess að fjalla um það mál, milli Alþfl. og Sjálfstfl., og yfirlýsingar ganga sitt á hvað frá Alþfl. og Sjálfstfl., þó að ég vilji taka það skýrt fram að núv. hæstv. sjútvrh. hefur gert hvað hann hefur getað til að eyða þeirri óvissu og mótmæla ýmsum yfirlýsingum vegna þess að hann veit að þessi óvissa tefur fyrir nauðsynlegri framþróun í sjávarútveginum. Ég styð hann í því og vil vinna að því að þeirri óvissu verði eytt. Hins vegar vill svo merkilega til að menn hafa ekki viljað leita mikils samstarfs við núverandi stjórnarandstöðu um það mál. Það er að vísu sagt að það muni verða gert í gegnum sjútvn. Alþingis. Gott og vel. En við sem í stjórnarandstöðu vinnum hefðum viljað gera það með öðrum hætti og taka á þessum alvarlegu málum með þeirri hugsun sem hæstv. sjútvrh. nefndi í upphafi síns máls.
    Annar mikilvægur þáttur í þessu umhverfi eru lögin um Hagræðingarsjóð. Því hefur nú verið lýst yfir af núv. ríkisstjórn að þeim lögum eigi að gjörbreyta og þær heimildir eigi að nýta til að fjármagna ríkissjóð. Við vitum það vissulega að ríkissjóður er í miklum vanda og það þýðir ekkert að segja sem svo að við honum skuli ekki brugðist. Ég tel hins vegar að sjávarútvegurinn sé ekki þannig staddur í dag að hann geti lagt þar mikið af mörkum og ég er mjög andvígur því að breyta lögunum um Hagræðingarsjóð. Það má hæstv. ríkisstjórn vita að með því er hún að stofna til pólitískra átaka hér á Alþingi um það mál vegna þess að við munum berjast gegn því máli. Ég er ekki að segja það í neinum hótunartón, en það mega menn vita að það mál verður að sjálfsögðu ekki afgreitt umræðulaust á Alþingi miðað við þann vanda sem er víða í byggðum landsins því að þessi sjóður átti að verða öryggisventill ef upp kæmi neyðarástand í ákveðnum byggðalögum.
    Hæstv. núv. sjútvrh. segir: ,,Það er ekki framkvæmanlegt. Það er engin leið að framkvæma þessi lög.`` Það hefur ekki reynt á það enn þá og ég er honum ósammála í því. Það má vel vera að þessi löggjöf sé ekki fullkomin og það þurfi að taka hana til endurskoðunar. Gott og vel. Við skulum þá gera það um leið og fiskveiðistefnan er tekin til endurskoðunar og gefa þessum lögum einhvern tíma.
    Ég vil líka minna á það að hér kom upp mikið vandræðaástand í sambandi við loðnuflotann og þá þurftum við að grípa til þeirra neyðarráðstafana að nýta aflaheimildir þessa sjóðs til að færa yfir til þeirra skipa. Hvað ætla menn að gera nú ef í ljós kemur að loðnan er ekki í því magni sem nægir til þess að reka þessi loðnuskip með sómasamlegum hætti? Á þá að skerða hjá hinum hluta flotans? Að sjálfsögðu gerum við okkur vonir um að svo verði ekki og loðnustofninn sé í skikkanlegu ástandi og þar sé hægt að veiða. Við höfum hins vegar enga vissu fyrir því og meðan við höfum ekki þá vissu á að sjálfsögðu ekki að fara út í að orða breytingar á hlutverki Hagræðingarsjóðsins.
    Ég minni á lögin um Verðjöfnunarsjóð vegna þess að hæstv. sjútvrh. hélt því fram að ekkert hafi verið til þegar á móti blés. Það vill nú svo til að í Verðjöfnunarsjóði eru til í dag um 2,6 milljarðar og það hefur verið að safnast saman í þessum sjóði. Þess vegna er það algjörlega rangt sem hæstv. ríkisstjórn heldur fram sí og æ í fjölmiðlum, að ekkert sé til, allir sjóðir tómir, allt tómt. Menn hafi gengið nánast ránshendi um þjóðfélagið. Þetta er nú málflutningurinn. Svo eru menn að biðja um málefnalega afstöðu stjórnarandstöðunnar hér á Alþingi.
    Ég ætla vissulega að temja mér það en ég bið hæstv. ríkisstjórn að gæta orða sinna þegar slíkar beiðnir eru lagðar fram. Ég minni á það skipulag sem var tekið upp í sambandi við Aflamiðlun sem er líka mikilvægur þáttur og hefur verið að þróast. Að vísu eru núv. hæstv. utanrrh. og fyrrv. hæstv. utanrrh. á móti þeirri skipan mála. Ég sé að núv. sjútvrh. er það ekki og það er mikilvægt að sú starfsemi fái að þróast, ekki síst til þess að

reyna að draga úr útflutningi á ferskum fiski sem er ávallt átakamál og eru engin töfrabrögð við að finna lausnir á.
    Það eru margvísleg samstarfsverkefni í gangi, hafa verið í gangi og eru enn þá í gangi, um gæðastjórnun, um fræðslu og menntamál, um hafrannsóknir, um margvíslegar nýungar í sjávarútvegi. Þetta er það umhverfi sem sjávarútvegurinn býr við í dag. Að halda því fram að ekkert hafi verið gert til að styrkja undirstöðu þessarar atvinnugreinar er náttúrlega slík fásinna að það er nánast ekki hægt að hlusta á það til langframa hér á Alþingi.
    Menn spyrja núv. hæstv. ríkisstjórn: Ja, hvað ætlið þið að gera í þessum vanda? Og það er alveg eins og menn haldi að þeir geti svarað því nákvæmlega hvernig eigi að gera þetta allt saman. Ég held að það sé mikilvægt að sjútvegurinn fái að vera í friði fyrir núv. ríkisstjórn því að umræðan á þeim bæ snýst ekki síst um það hvernig menn eigi að fara að því að skattleggja þessa atvinnugrein. Alþfl., sem er ekki viðstaddur hér við þessa umræðu og er hans sárt saknað, vill ávallt, þegar hann opnar munninn í þessari sjávarútvegsumræðu ( Gripið fram í: Hann er kominn.), eilíflega, leggja skatt á sjávarútveginn, selja veiðiheimildir og reyna að ná einhverjum peningum í ríkiskassann frá sjávarútveginum. Þetta er sorgleg umræða. Alþfl. hefur nú að vísu tekist að fá Hagræðingarsjóðinn inn í ríkissjóð og ég býst við að þeir telji það til meiri háttar afreka þótt ég sé ekki mjög hrifinn af því afreki þeirra, og ég vænti þess að hæstv. sjútvrh. sé það í hjarta sínu ekki heldur. En það er nú svo í ríkisstjórnum að þegar forustumenn flokka koma sér saman um eitthvað, jafnvel lítt grundað eins og þeir gerðu í Viðey, þá kemur það fyrir að hinir verða að standa með þeim til að halda samstöðunni. Hins vegar er ekki hvað sem er gerandi fyrir samstöðuna þó að ég hafi fullan skilning á því að auðvitað þurfa menn að reyna að viðhalda samstöðu um erfið mál.
    Ég er því sammála að það sem þarf að gera er fyrst og fremst á sviði almennra aðgerða. Við þurfum sameiningu aflaheimilda, við þurfum sameiningu vinnslustöðva, við þurfum betri nýtingu, við þurfum meiri sérhæfingu, við þurfum að auka gæðin, við þurfum meiri markaðssókn, við þurfum eflingu rannsókna. Sumt af þessu er fyrst og fremst málefni sjávarútvegsins sjálfs og það verður ekki gert af núv. ríkisstjórn. Hins vegar þarf sjávarútvegurinn að hafa frið fyrir núv. ríkisstjórn til þess að gera það en sumt er á hennar færi.
    Hæstv. forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu, en ég á því miður eftir að koma inn á dálítið úr fortíðinni sem ég verð þá að gera síðar í þessari umræðu. Ég legg hins vegar áherslu á að það skiptir sjávarútveginn miklu máli hverjir vextirnir eru í þessu landi, og það sem hefur sett vextina úr böndum er fyrst og fremst húsbréfakerfið sem fór úr böndum í tíð fyrri ríkisstjórnar, það er rétt, og þurfti að byrja á að taka á við stjórnarskiptin, okkur tókst það ekki. En það hefur tekið núv. ríkisstjórn allt of langan tíma að koma böndum á það kerfi. Það er mikilvægt að því verði haldið áfram og það líðist ekki að menn séu í slíkri peningaprentun þó að það sé til góðra mála.
    Gengisstefnan skiptir afar miklu máli. Og hver er hún? Það stendur í fjárlagafrv. að gert sé ráð fyrir óbreyttu gengi á árinu 1992 og að dollarinn muni hækka um 2,5%, þ.e. gert ráð fyrir að Evrópumyntirnar muni lækka. Þetta er í forsendum fjárlagafrv. Auðvitað veit ég að það sem stendur í fjárlagfrv. er ekki það eina sem skiptir máli.
    Síðan er komið fram frv. á Alþingi þar sem ríkisstjórnin fer fram á heimild til að binda gengi íslensku krónunnar við ECU, held ég að sé rétt. Hæstv. viðskrh., sem fer með gjaldeyrismál og gengismál, hefur lýst því yfir að stefnan sé að taka upp tengingu við ECU. Ef það verður gert er ekki nóg að hafa sterkan Seðlabanka --- en ég tek þó undir með hæstv. sjútvrh. að það er mikilvægt að hafa sterkan Seðlabanka. Ef menn segja hins vegar Seðlabankanum nákvæmlega fyrir um það hvað hann á að gera hefur það ekki mikið upp á sig. Ég hef heyrt mótmæli hæstv. sjútvrh., að hann telji þetta ekki tímabært. En hvernig í ósköpunum stendur á því að ríkisstjórnin talar svona út og suður? Og hvernig á það starfsumhverfi að vera sem sjávarútvegurinn er að finna sér í öllum þessum yfirlýsingum? Það er kannski von að mönnum gangi það illa. Þess vegna held ég að það sé kannski mikilvægt að annaðhvort tali ráðherrarnir í takt eða þá að þeir segi ekki neitt, sem ég held að sé miklu betra.