Sjávarútvegsmál

10. fundur
Fimmtudaginn 17. október 1991, kl. 16:08:00 (301)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil fyrst svara fyrirspurn sem til mín var beint af hv. 1. þm. Reykn., sem spurði hvort ég væri á móti því að vinna fisk um borð í frystitogurum. Ég vil benda þingmanninum á að það sem menn vinna um borð í frystitogurum hefur vaxið gríðarlega frá árinu 1984 eða frá því að vera um 20 þús. tonn af botnfiski upp í það að vera 120 þús. tonn. Af þessum botnfiski voru á síðasta ári um 42 þús. tonn af þorski einum saman. Ég vil líka benda þingmanninum á að það liggur fyrir óumdeilanlega, þó að menn geti deilt um hvað upphæðin er mikil, að verðmæti afurða úr frystihúsi í landi er meira en verðmæti afurða úr frystihúsi á sjó. Ég gat um það áðan að þær tölur sem ég áætlaði gætu verið fyrir frystihús á Vestfjörðum um 1 milljarður kr. eða sem nemur um 60 kr. á kíló. Ég vil líka benda á að nú er uppi sú staða að það þarf að draga úr veiðum sem þýðir að það fólk í landi sem vinnur við þessa atvinnugrein sér fram á að hafa ekki fulla vinnu. Það er um 10% samdráttur í atvinnu í sjávarútvegsplássum vegna samdráttar í afla sem fyrirhugaður er á næsta ári. Það er því skynsamlegt að beina meira af fiskinum til vinnslu í verðmætari vinnslugreinar en að auka vinnslu fisks úti á sjó eins og er verið að gera núna í dag. Það eru ekki margir dagar síðan Fiskveiðisjóður samþykkti að veita mörg hundruð milljóna króna lán til að byggja nýjan frystitogara á Skagaströnd.
    Ég tel að við ættum að draga úr þeirri þróun sem verið hefur með sjófrystinguna og reyna að minnka það aflamagn sem fer þar í gegn, en auka aflamagnið sem fer í gegnum landfrystihúsin. Ég er hins vegar ekki að tala um að það eigi að þurrka að fullu og öllu út þessa grein í sjávarútvegi.
    Hæstv. sjútvrh. upplýsti það hér áðan að hann er farinn að ryðga dálítið í því sem gerðist haustið 1988 og kallaði eftir kennslustund í þeim efnum. Þegar hann kvartaði undan því að Framsfl. hefði ekki viljað fella gengið þá voru fleiri, hæstv. sjútvrh., sem ekki vildu fella gengið en Framsfl. og Alþfl., það var líka nefnd, sem vann fyrir þáv. hæstv. forsrh. undir forustu Einars Odds Kristjánssonar, sem afskrifaði gengisfellingarleiðina. Og forsrh. þáv. stóð einn að þeirri kröfu sinni að efnahagsvandann ætti að leysa með stórfelldri gengisfellingu. Ég held að það sé full þörf á því að taka hæstv. sjútvrh. í kennslustund í þeim fræðum hvernig eigi að búa að atvinnugrein sem sjávarútvegi og hvaða skilyrði þurfi að vera í lagi til að menn geti rekið þessa atvinnugrein af einhverju viti.
    Ég hef ekki séð að það væri vit í því fyrir atvinnugrein að búa við þau skilyrði að hún þurfi að framleiða sína vöru fyrir 100 kr. þurfa síðan að skila afurðum þeirrar vöru sem heitir gjaldmiðill í banka fyrir 80 kr. vegna pólitískra ákvarðana, m.a. í Sjálfstfl. Það

heitir miðstýring á máli sumra manna. Og ég sé það að hæstv. sjútvrh. og flokkur hans hefur ekkert lært frá því haustið 1988 því hér stefnir í það sama, að það verði fjöldagjaldþrot í sjávarútvegsplássum á landsbyggðinni. Það er það sem blasir við. Það er það sem við finnum sem búum á svæði eins og Vestfjörðum þar sem jörðin skelfur undir mönnum í hverju einasta plássi og kannski hvergi meir en í því plássi sem ég á heima í. Því spyrja menn: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að koma í veg fyrir að þessi pláss hringinn í kringum landið hrynji? Og svarið er: Tími hinna sértæku aðgerða er liðinn. Nú höfum við fengið fyrstu almennu aðgerðina í gegnum stjórnarmeirihlutann í stjórn Byggðastofnunar og ég spyr: Er þetta almenn aðgerð? Að selja eitt pláss til annars. Selja eitt frystihús til annarra fyrirtækja í sjávarútvegi sem er stjórnað og átt og rekið af valinkunnum sæmdarmönnum í Sjálfstfl. Þetta lítur út í mínum augum sem sértæk aðgerð til að færa almannaeign í hendur færri aðila. Mér sýnist að Sjálfstfl. leggi nokkuð mikið upp úr því í stefnu sinni gagnvart landsbyggðinni að verða það sem stundum er kallað flokkur allra stétta. Búa til eina stétt sem honum finnst hafa vantað hér á landi, aðalsmannastéttina og styrkja hana síðan.