Gæðamál og sala fersks fisks

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 13:56:00 (311)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram í þessari umræðu að Alþfl. telur það rétta stefnu að allur fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum sé boðinn til sölu á innlendum mörkuðum. Þetta er hægt að gera með tvennum hætti. Það er hægt að gera það annars vegar með því að sett verði löndunarskylda á öll fiskiskip, þ.e. að fiskiskipin þurfi að koma með aflann að landi og hann verði síðan boðinn til sölu á innlendum fiskmörkuðum. Það eru bæði til kostir og gallar við þá aðferð. Kostirnir eru að sjálfsögðu þeir að þá fer vigtunin fram í landinu sjálfu og auðvelt að koma við fullkomnu eftirliti með slíkum löndunum. Það er líka kostur að flutningastarfsemi á fiski yrði þá alfarið í höndum Íslendinga sjálfra og mundi sjálfsagt skapa talsverða vinnu í landi. Ókosturinn er hins vegar að sjálfsögðu sá, a.m.k. hvað varðar þann fisk sem seldur er til útlanda, að hann yrði að öllum líkindum eitthvað eldri við það að vera fyrst landað á Íslandi, boðinn upp á íslenskum mörkuðum og síðan fluttur til útlanda til neyslu.
    Hinn kosturinn er sá að öll sala fari fram á íslenskum mörkuðum en menn geti boðið fisk til sölu í gegnum fjarskiptakerfi þannig að löndunin þyrfti ekki í öllum tilvikum að eiga sér stað á Íslandi. Ókosturinn við þá aðferð er að sjálfsögðu sá að þá er eftirlitið með vigtun ekki í höndum Íslendinga sjálfra. Kosturinn er hins vegar sá að ef keyptur er afli sem veiddur er á Íslandsmiðum og seldur til neyslu erlendis er líklegra að sá fiskur kæmi nýrri í hendurnar á kaupendum og minni líkur á að hann verðfélli.
    Í báðum þessum tilvikum gætu íslenskir fiskkaupendur átt sama rétt og erlendir fiskkaupendur til kaupa á fiski. Auðvitað þarf hins vegar þegar menn taka upp þann hátt að bjóða allan fisk sem veiddur er á Íslandsmiðum til sölu á innlendum mörkuðum, hvora leiðina sem menn velja, að gera aðrar breytingar jafnhliða. Þá er ljóst að við verðum að gera breytingar á mjög gömlum lagaákvæðum sem heimila ekki landanir erlendra fiskiskipa í íslenskum höfnum. Auðvitað er það einsýnt að ef við tökum upp þau vinnubrögð að selja allan afla íslenskra fiskiskipa á Íslandsmiðum í gegnum íslenska fiskmarkaði verðum við að gefa erlendum skipum sem vilja selja afla sinn á íslenskum fiskimörkuðum heimild til að landa í íslenskum fiskihöfnum. Enn fremur þyrfti þá að skoða 20% kvótaskerðingarálagið, sem nú er lagt á vegna sölu á ísfiski til erlendra kaupenda, vegna þess að ekki væri alveg einsýnt afli hvaða skips væri keyptur af erlendum kaupendum ef um slíka opna fiskimarkaði væri að ræða þar sem allur fiskur sem veiðist á Íslandsmiðum væri seldur í gegnum íslenska markaði.
    Sú þróun hefur átt sér stað núna að undanförnu að mikið hefur dregið úr löndunum á ísfiski og gámafiski erlendis. Það sem af er þessu ári hafa landanir innan lands á botnfiski verið 4% meiri en á sama tíma á síðasta ári. En erlendis er hann 23% minni en á sama tíma á síðasta ári. Hér er rætt um hefðbundnar landanir á ísfiski. Útflutningur á ferskum fiski í gámum hefur dregist saman um 27%. Þá er einnig athygli vert fyrir okkur að reyna að gera okkur grein fyrir hvað verður um þann fisk sem veiddur er á Íslandsmiðum og keyptur af erlendum kaupendum. Það var gerð athugun á því árið 1989 hve stórt hlutfall af útfluttum ferskum fiski sem seldur var í Grimsby færi beint til neytenda og hve mikið færi til frekari vinnslu. Af 92 þús. tonnum sem seld voru það ár á fiskmarkaði í Grimsby fóru 54 þús. tonn til frekari vinnslu eða 60% af lönduðum afla.
    Við skoðum þessar tölur með hliðsjón af því að það virðist vera að verðmætasköpun við frystiverkun innan lands sé um 84% þannig að það er miklu hagkvæmara fyrir Íslendinga að vinna þann afla af Íslandsmiðum sem fer til vinnslu heima fyrir en selja hann til útflutnings þar sem hann er tekinn til vinnslu. Auðvitað verður það alltaf svo að einhver hluti af þeim fiski sem veiddur er á Íslandsmiðum fer til beinnar almennrar neyslu sem nýr fiskur erlendis. En það er ekki eðlilegt að veruleg brögð séu að því að þessi fiskur sé seldur til vinnslu á erlendum mörkuðum þegar höfð er hliðsjón af því hve verðmæti þessa fisks aukast mikið við vinnslu hér heima fyrir.
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins láta það koma fram að það hefur verið og er stefna Alþfl. að allur fiskur veiddur á Íslandsmiðum skuli seljast um íslenska markaði. Að sjálfsögðu leggjum við áherslu á að sú stefna nái fram að ganga.