Heilbrigðisþjónusta

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:12:01 (317)

     Flm. (Stefanía Traustadóttir) :
     Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, á þskj. 36. Flutningsmenn auk mín eru þau Guðrún Helgadóttir og Svavar Gestsson.
    Frv. þetta er flutt þar sem taka þarf af öll tvímæli um það að mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd verði ókeypis fyrir verðandi mæður og foreldra ungra barna. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 2. mgr. 20. gr. laganna (20.2) bætist nýr málsliður svohljóðandi: Mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd er þó ævinlega á kostnað ríkissjóðs.``
    Og í 2. gr. frv. segir einfaldlega: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Virðulegi forseti. Ég hef verið innt eftir því hér í þingsölum til hvers við værum að flytja þetta frv., hvort þessi réttur sé ekki tryggður í lögum. Það eru ekki einungis þingmenn sem trúa að svo sé, það á einnig við um margt starfsfólk heilsugæslustöðva og ekki síst konur almennt. En því miður er hann það ekki.
    Í grg. með frv. er að finna helstu efnisatriði laga og reglugerða er varða þetta mál og ætla ég að stikla á því helsta. Í 19. gr. núgildandi laga um heilbrigðisþjónustu er talin upp sú þjónusta sem heilsugæslustöðvum er ætlað að veita. Þar er mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd talin upp í liðum 5.2 og 5.3 sem liðir í almennri heilsuvernd. Í 20. gr. sömu laga segir að rekstrarkostnaður heilsugæslustöðva skuli greiðast úr ríkissjóði og að ráðherra setji gjaldskrá fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva og hún skuli vera í samræmi við hliðstæða gjaldskrá samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Í athugasemdum með frv. til þeirra laga var þetta ákvæði réttlætt með vísun til breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þ.e. laga nr. 87/1989, þess efnis að ríkið taki nú yfir rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrasamlög verði lögð niður. Því þótti rétt að ráðherra ákveði gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og hún skuli vera í samræmi við hliðstæða gjaldskrá samkvæmt lögum um almannatryggingar og vera með sama hætti alls staðar á landinu en ekki eins og nú er með mismunandi hætti, eins og þar segir.
    En hvers vegna er látið að því liggja að fólki sé mismunað? Getur það verið, virðulegi forseti, að það séu einhvers staðar ákvæði í lögum sem mismuna fólki t.d. eftir búsetu hvað varðar greiðslu fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva? Því miður er það svo en aðeins hvað varðar nokkra tiltekna þætti heilsugæslunnar. Í gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu er ákvæði til bráðabirgða um heilsuverndarstarf í Reykjavík sem er samkvæmt lögum nr. 44/1955 og lögum nr. 28/1957. Þetta ákvæði fellur úr gildi um næstu áramót og þá skulu sömu lög gilda um land allt.
    Í 4. gr. laganna frá 1955 segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Kostnaður af rekstri heilsuverndarstöðva, að því er tekur til heilsuverndargreina samkvæmt 1., 2., 7. og 9. tölul. 2. gr., skiptist að jöfnu á milli hlutaðeigandi sveitarsjóðs eða sveitarsjóða, hlutaðeigandi sjúkrasamlags og ríkissjóðs.`` Hér er vísað til 2. gr. þessarar sömu laga en þar eru taldar upp helstu heilsuverndargreinarnar en þær sem hér er vísað til eru nr. 1, sem er mæðravernd, nr. 2, sem er ungbarnavernd (0--2 ára barna) og smábarnavernd (2--7 ára barna) og svo nr. 7, sem er berklavarnir, og nr. 9, áfengisvarnir.
    Virðulegur forseti. Þetta ákvæði 4. gr. laganna frá 1955 er eftir því sem næst verður komist eina ákvæði í lögum sem tekur til mæðraverndar og ungbarna- og smábarnaverndar og þá á þann hátt að hið opinbera eigi að greiða hana. Og eins og þegar hefur komið fram, þá fellur þetta ákvæði niður um næstu áramót og á í raun einungis við um heilsuverndarstarf í Reykjavík. Þetta ákvæði hefur verið til bráðabirgða inni í almennum lögum um heilbrigðisþjónustu um nokkurn tíma og hefur verið framlengt með einfaldri lagasetningu á hverju ári að ósk borgarstjórnar Reykjavíkur.
    Nú er það hins vegar svo eftir því sem ég hef getað staðreynt að það er í raun hvergi tekið gjald fyrir mæðravernd né ungbarna- og smábarnavernd á heilsugæslustöðvum vítt og breitt um landið. Það skal tekið fram að það var ekki innt eftir öðrum þáttum heilbrigðisþjónustunnar.
    Virðulegur forseti. Það efast enginn um mikilvægi mæðraverndar og ungbarna- og smábarnaverndar. Hér á Íslandi höfum við konur átt kost á mjög góðri þjónustu fyrir okkur sjálfar og börnin okkar, svo góðri að við og heilbrigðisyfirvöld okkar höfum getað farið út í hinn stóra heim og sagt: Það er hvergi í heiminum eins lítið um burðarmálsdauða og á Íslandi og það er hvergi í heiminum eins lítið um mæðradauða og á Íslandi.
    Í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu íslenskra stjórnvalda er það sérstaklega tekið fram að lög um heilbrigðisþjónustu, sem sett voru 1944, hafi skipt sköpum fyrir þjónustu ungbarna og mæðraverndar og lagðar fram tölur um framúrskarandi árangur okkar í baráttunni gegn ungbarnadauða. Þess vegna vekur það enn meiri furðu að þar skuli að öðru leyti hvergi minnst á mæðra- og ungbarnaeftirlitið. Í yfirlýstri heilbrigðisstefnu okkar er hvorki sett fram það markmið að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem við búum við né heldur að hana skuli auka eða bæta. Þessi grundvallarþáttur í forvarnastarfi heilsugæslu hvað varðar konur og börn er þar ekki á blaði, hefur hreinlega gleymst. Og hvers vegna? Kannski vegna þess að okkur þykir hann svo sjálfsagður að við tökum ekki eftir þegar smám saman er grafið undan honum. En rétturinn til ókeypis mæðra- og ungbarnaverndar þótti ekki sjálfsagður hér áður fyrr. Barna- og mæðravernd var eitt af helstu baráttumálum íslenskra kvenna sem sést m.a. á lögum næstelsta kvenfélags landsins, Kvenfélags Svínavatnshrepps, frá 1874. Það er af mörgu að taka í baráttusögu íslenskra kvenna hvað varðar heilbrigðismál og þeirra framlag er ómetanlegt. Það má minna á stofnun Landspítalans og á stofnun ungbarnaverndar Líknar frá árinu 1927 en þar unnu konur eins og Katrín Thoroddsen læknir endurgjaldslaust árum saman og veittu verðandi og nýbökuðum mæðrum ómetanlega aðstoð þar til mikilvægi þessarar þjónustu var loks viðurkennt og skyldur og ábyrgð hins opinbera í lög leidd árið 1944.
    Virðulegur forseti. Konur hafa þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu á mörgum sviðum. Stærsti hluti þeirrar þjónustu varðar mæðravernd og fæðingarhjálp. Reglubundið eftirlit á meðgöngutíma skiptir sköpum í öllu forvarnarstarfi hvað varðar öryggi og heilbrigði fæðandi móður og barns. Samkvæmt þeim heimildum, sem ég hef undir höndum, hefur ekkert tilfelli mæðradauða verið skráð frá árinu 1975 og er það eingöngu þakkað reglubundnu eftirliti því að meðgöngueitrun, sem var algengasta dánarorsök fæðandi kvenna, þarf ekki að vera hættuleg ef hún er greind á byrjunarstigi. Þessi sjúkdómur veldur hins vegar oft og tíðum engum óþægilegum einkennum og ýtir sú staðreynd enn frekar undir nauðsyn þess að konur eigi kost á og mæti reglulega í skoðun. Mikilvægi ungbarnaverndarinnar er óumdeilanlegt. Sú þjónusta sem felst í heimsóknum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á heimili nýfæddu barnanna er ómetanleg, bæði hvað varðar ráðgjöf og kennslu til nýbakaðra foreldra og eftirlit með heilsu og framförum litla barnsins. Ég er sannfærð um að þá öryggiskennd sem þessar heimsóknir veittu mér á sínum tíma á ég sameiginlega með fleiri mæðrum. Ég er líka sannfærð um að það er ekki til betra og skilvirkara forvarnastarf hvað varðar barnavernd hér á landi en einmitt ungbarnaeftirlitið og við megum ekki gera neitt sem getur hindrað eða dregið úr þeirri þjónustu. Þvert á móti eigum við að leggja okkur fram um að auka hana með öllum tiltækum ráðum, m.a. þar sem henni verður ekki komið við vegna búsetu foreldra eða starfsmannaeklu á viðkomandi heilsugæslustöð. Slík markmið hefði ég m.a. viljað sjá í okkar nýju heilbrigðisstefnu.
    Það hefur ekki farið fram hjá mörgum, virðulegur forseti, að hæstv. ríkisstjórn ráðgerir miklar og umdeildar breytingar á heilbrigðiskerfi landsmanna. Þar er talað í stórum bókstöfum um sparnað og hagræðingu í rekstri. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár er ætlunin að spara ríkissjóði greiðslu til heilsugæslustöðva með því að auka sértekjur þeirra um 375 millj. kr. Þannig eiga heilsugæslustöðvar á landinu öllu að taka inn um það bil hálfan milljarð í formi svokallaðra þjónustugjalda, þ.e. taka sérstakt gjald fyrir hverja heimsókn á heilsugæslustöð eins og skýrt er tekið fram í fjárlagafrv.
    Það kom hins vegar ekki fram í máli hæstv. heilbrrh. þegar hann var að vígja nýja og glæsilega heilsugæslustöð á Húsavík sl. föstudag að á næsta ári skuli Húsvíkingar borga 8,6 millj. kr. fyrir þá þjónustu sem þeir eiga að fá í þessum glæsilegu húsakynnum. Sértekjur gömlu stöðvarinnar á Húsavík á yfirstandandi fjárlagaári eru áætlaðar 140 þús. kr. Samkvæmt þessu eiga sjúkir og aldraðir, barnafjölskyldur og aðrir sem þangað þurfa að sækja að greiða rúmum 8 millj. kr. meira fyrir heilsugæslu á næsta ári en þeir gera núna að viðbættri aukinni þátttöku í lyfjakostnaði. Og þetta á ekki bara við um Húsavík, þetta á við um landið allt. Það er ekki að sjá að margumtalaður samdráttur eigi við um það sem er í launaumslögum almennings eða í peningaveskjum sjúkra eða aldraðra hér á landi þrátt fyrir spár um minni þjóðartekjur og lægri kaupmátt.
    Það má líka velta því fyrir sér hvort hæstv. ríkisstjórn líti á heilsu landsmanna sem fortíðarvanda sem komi henni ekki við og fólk skuli taka afleiðingum eigin lífernis í gegnum árin hafi það ekki efni á að leita sér lækninga. Það má líka velta fyrir sér hvaða afleiðingar þær furðulegu hugmyndir sem hæstv. heilbrrh. hefur verið að viðra um sjálfsábyrgð og frelsi til að taka áhættu hvað varðar eigið heilbrigði geta haft á líf fólks.
    Virðulegi forseti. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar, sem er ekki ætlunin að ræða hér frekar, vekur mér ugg um að í orðunum ,,gjald fyrir hverja heimsókn`` felist að nú eigi líka að taka gjald fyrir mæðravernd og smábarna- og ungbarnavernd. Sú staðreynd að það er hvergi tryggt í lögum nema í bráðabirgðaákvæði um Reykjavík að þessi þjónusta skuli vera ókeypis gerir slíkt skref óþarflega auðvelt fyrir núverandi eða seinni tíma ríkisstjórnir, sem geta þegjandi og hljóðalaust, án lagabreytinga, sett gjald á þessa þjónustu til að ná fram markmiðum um sparnað. Vissulega getur hæstv. núv. heilbrrh. sparað ríkissjóði tugi milljóna með því að gera verðandi mæðrum og foreldrum ungra barna skylt að greiða fyrir hverja heimsókn á heilsugæslustöð. Hver móðir á rétt á a.m.k. 10 heimsóknum ef farið er eftir reglugerðum þar sem kveðið er á um hvað felst í mæðravernd og þá er gert ráð fyrir að allt sé eðlilegt og eins og það á að vera. Hér á landi fæðast 4500 börn á ári. Nú má leika sér með tölur og segja: 300 kr. fyrir hverja heimsókn, kannski 500, kannski 800. Ungbörn eiga rétt á a.m.k. átta heimsóknum fyrsta aldursárið og þá er miðað við að barnið sé heilbrigt að öllu leyti. Þetta eru margar heimsóknir og ekki ólíklegt að hæstv. ráðherra og aðstoðarmenn hans sjái þarna möguleika á miklum sparnaði. Smábörn eiga rétt á a.m.k. 2--3 heimsóknum. Það er hægt að spara mikið fyrir ríkissjóðs ef allar þessar heimsóknir verða gerðar gjaldskyldar og jafnframt auka útgjöld heimilanna um litlar 30--70 millj. kr. eftir því hvað gjaldið verður hátt. En hitt er sýnu alvarlegra hverjar afleiðingar slíkur sparnaður, fyrir hönd ríkissjóðs, getur haft fyrir öryggi og heilsu verðandi mæðra og kornabarna.
    Virðulegur forseti. Langflestar íslenskar mæður hugsa vel um eigin heilsu og heilsu ófædda barnsins síns og mæta reglulega í mæðraskoðun. Þær vita langflestar að þessi þjónusta er nauðsynleg og góð og að þær eiga rétt á henni. Hvaða áhrif getur það haft ef þær eiga að fara að greiða kannski 500, kannski 800 kr. fyrir hverja heimsókn? Það þarf ekki nema eina verðandi móður sem tekur áhættu af því að hún hefur ekki efni á að greiða fyrir skoðun og stofnar sér og sínu ófædda barni óafvitandi í hættu, það er einni konu of mikið. Langflestir foreldrar vilja börnum sínum það besta og leggja sig fram um að þeim líði sem best. En því miður er ekki öllum nýfæddum börnum búin bestu skilyrði. Foreldrar þeirra eru mismunandi vel undir það búnir að annast þau, kannski vegna þekkingarskorts, óreglu eða fátæktar. Það þarf ekki nema eitt lítið vannært barn með illa brenndan bossa sem fær ekki þá umönnun sem það á rétt á vegna þess að foreldrar þess hafa ekki efni á að borga hjúkrunarfræðingnum. Það þarf ekki nema eitt slíkt barn til þess að það sé einu barni of mikið.
    Virðulegur forseti. Í ljósi þessara staðreynda og þeirrar áhættu sem gjaldtaka fyrir mæðravernd og ungbarna- og smábarnavernd getur haft í för með sér þykir flutningsmönnum rétt að tryggja að sú reglubundna og góða heilsuvernd sem felst í mæðra- og ungbarnaverndinni verði áfram mæðrum og foreldrum ungra barna að kostnaðarlausu. Því er lagt til að tryggja þann rétt með lagasetningu.
    Að lokinni umræðu vænti ég þess að málinu verði vísað til heilbrn. og þaðan til 2. umr.