Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 14:52:00 (325)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Frú forseti. Það er rétt hjá forsrh. að byggðastefna undanfarinna áratuga hefur verið röng. Byggðastefna sem skipulega hefur flutt fólk af landsbyggðinni hingað suður á suðvesturhornið. Hér ber ríkisvaldið í gegnum árin mjög mikla ábyrgð. Ríkisvaldið hefur raunverulega haldið fram þessari byggðastefnu sem hefur flutt fólkið suður, gert suðvesturhorninu auðveldara með að laða til sín fólk.
    Hver er stærsti vinnuveitandi hér í Reykjavík? Ætli öllum þingmönnum sé það ljóst svona í fljótu bragði? Það er ríkisvaldið. Og hvaða vinnuveitandi er það sem hefur þanið fyrst og fremst út starfsemi sína, báknið sitt hér á undanförnum árum? Það er ríkisvaldið í Reykjavík. Öflugasta fyrirtækið á suðvesturhorninu, kallar til sín fólk. Aftur á móti ef við hefðum haldið fram byggðastefnu sem hefði flutt stofnanir út á land, eflt þar þjónustuna og gert ríkisvaldið þar skilvirkara, þá hefði það stuðlað að jafnvægi í byggð landsins. Það er á slíkum grunni, hæstv. forsrh., sem við þurfum að skapa byggðastefnu sem býr til þjóðarsátt en ekki að sundra meira en orðið er með óheppilegum yfirlýsingum án þess að taka á málunum í heild. Það er einmitt á þeim skilum sem við þurfum að fara að ræða byggðamálin núna, að skapa þjóðarsátt á milli byggðanna og það gerum við helst og fremst með því að viðurkenna að fólk á rétt á því að búa þar sem það hefur sitt heimili, á sínar eignir, að það sé réttur þess, að jafna aðstöðumuninn á milli þeirra sem búa í dreifbýlinu og hinna sem búa hér í Reykjavík og nágrenni. Það er á þessum skilum sem við þurfum að fara að ræða um málefni byggðanna. Það er arðsamt og það er hagkvæmt vegna þess að oftast er unnið á hagkvæman hátt og í arðsömum störfum í sjávarþorpum vítt og breitt um landið. Ætli það sé ekki fremur efnahagsvandi þjóðarinnar að fólk flyst í ríkari mæli úr arðbærum og hagkvæmum störfum í ýmiss konar þjónustu sem ekki er þjóðarbúinu hagkvæmt í heild sinni?