Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:00:00 (328)

     Páll Pétursson :
     Frú forseti. Það er ekki hægt að gera þessu umræðuefni tæmandi skil í símskeytastíl eins og er í þessari umræðu. Ég óskaði í gær eftir umræðu utan dagskrár um byggðamál og ég vonast til að hún verði heimiluð innan skamms.
    Ummæli forsrh. sem hann viðhafði nú um helgina eru að sjálfsögðu algjörlega forkastanleg, eins og þau hafa verið túlkuð eða flutt í fjölmiðlum a.m.k., og ef sönn eru þá bera þau vott um ótrúlega vanþekkingu og ókunnugleika á staðháttum. Það hefur verið bent á það rækilega að þetta mistókst hjá Ceausescu og það kemur líka til með að mistakast hjá hæstv. forsrh. að framfylgja byggðastefnu á þennan hátt.
    Forsrh. gerði það að umtalsefni í ræðu sinni að byggðastefnan hefði brugðist. Hún hefur ekki brugðist. Sannleikurinn er sá að byggðastefnan hefur gert feiknamikið gagn á umliðnum árum. Hún hefur hins vegar ekki leyst allan vanda. Það þarf að breyta byggðastefnunni og aðlaga hana breyttum staðháttum og reyna að finna sem allra árangursríkast form fyrir hana. En ef byggðastefnan hefði ekki komið til þá væri vandi landsbyggðarinnar miklu meiri en hann er í dag, þá væri illa komið fyrir landsbyggðinni og stór svæði þar komin í eyði og þyrfti þá ekki að brúka rúmenskar aðferðir við að færa fólkið til.
    Ríkisstjórnin hefur gert ýmislegt fleira í byggðamálum heldur en boða það að gelda Byggðastofnun og taka af henni fjárforræði. Hún hefur látið atvinnulífið afskiptalaust, hún hefur gefið atvinnulífið, framleiðsluatvinnuvegina, upp á bátinn og það er út af fyrir sig ekki nein smáræðisaðgerð í byggðamálum. Hún hefur haft forgöngu um að stórhækka vextina. Það hefur komið afar hart niður á atvinnulífi á landsbyggðinni. Hún hefur ekkert frumkvæði haft í kjaramálum. Þar með hlýtur þjóðarsáttin að hrynja og dýrtíðarskriðan að fara af stað.
    Það gleður mig að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er kominn til baka og hefur manndóm í sér til þess að bera til baka ummæli forsrh. sem honum, eins og mér, hefur greinilega þótt mjög óvitur.