Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:03:00 (329)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Þessar umræður eru mjög athyglisverðar. Síðastliðið vor lét af völdum ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og eins og hann talaði hér áðan og ýmsir aðrir stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar þykjast þeir

hafa skilið þannig við að allt væri í blóma í hinum strjálu byggðum landsins, það væri verið að efla byggð þar hvarvetna, en nú hefði skyndilega kveðið við nýjan tón. Við getum tekið einn málaflokk eftir annan.
    Ástandið í landbúnaði var þannig að síðasta ríkisstjórn gerði búvörusamning á sínum síðustu vikum sem felur í sér að skera niður heildarfullvirðisrétt í sauðfjárrækt, úr 12.000 tonnum niður í 8.600 tonn. Halda svo þeir menn, sem stóðu að þessum samningi, að þessi niðurskurður, sem er um 30%, komi hvergi við?
    Ef við lítum á um sjávarútveginn og sérstaklega vegna þess að Vestfirði bar á góma, þá skulum við rifja það upp að búast má við því að aflakvóti á þessu svæði, á Vestfjörðum og við Eyjafjörð, dragist saman um 27% á þessum árum. Eru menn svo hér í þessum sal að láta eins og þetta komi ekki við neinn eða eru hv. þm. búnir að gleyma þeim áhrifum sem samsvarandi samdráttur í aflabrögðum hafði á þessi byggðarlög þegar kvótinn var tekinn upp á árinu 1984 og á þeim árum? Það var enginn smávegis samdráttur þá í þeim héruðum sem voru mest háð sjávarútvegi.
    Við getum líka litið á dæmið út frá öðrum forsendum. Eigum við að horfa þannig á ástandið núna að þjónustufyrirtæki úti á landsbyggðinni hafi verið að styrkja sig? Er það t.d. þannig ef við horfum á afskekkta staði eins og Norður-Þingeyjarsýslu að þau fyrirtæki, sem þar hafa haldið uppi bæði verslun, viðskiptum og vinnslu á afurðum fyrir bændur, hafi staðið sig eitthvað sérstaklega vel? Nei, síður en svo. Staðreyndin er auðvitað sú, hæstv. forseti, að þessi ríkisstjórn tekur við erfiðu búi. Það er nauðsynlegt að ræða opinskátt um vanda landsbyggðarinnar, en auðvitað forkastanlegt að einstakir þingmenn, ég tala ekki um fyrrverandi forustumenn þjóðarinnar, séu að reyna að fela sig á bak við einhver skrautyrði og þori ekki að bera ábyrgð á ástandinu eins og það var þegar þeir létu af völdum.