Ummæli forsætisráðherra um byggðamál

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:30:00 (339)

     Matthías Bjarnason (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það hefur oftar en einu sinni komið fram þegar fjallað hefur verið um erfiðleika á einstaka stöðum á landsbyggðinni að fólk hefur kveðið upp mjög harða dóma í útvarpi og víðar. Það hefur sagt: Það á að flytja fólk frá heilum kauptúnum í einhvern annan ákveðinn stað. Þetta harðneskjulega umræðuefni hjá því miður allt of mörgum landsmönnum hefur farið ákaflega fyrir brjóstið á mér. Ég gerði það í örstuttu samtali að minna á félaga Ceausescu sem sumir voru hrifnir af í eina tíð en er nú dáinn. Og ég bætti við, þetta gerist aldrei á Íslandi. Þetta er svo heimfært upp á það að ég eigi við hæstv. forsrh. hvað þetta snertir. Forsrh. hefur ekki lýst því yfir að hann ætli að stuðla að einhverjum nauðungarflutningum á Íslendingum. Það sem gerir það að hér eru erfiðleikar víða á landsbyggðinni er fyrst og fremst röng fiskveiðistefna á undanförnum árum sem hefur kippt atvinnugrundvellinum undan fjölmörgum kauptúnum og kaupstöðum á Íslandi. Það hefur orðið samdráttur þar víða og úr því þarf að bæta með réttlátari skiptingu á afla á milli landsmanna.