Tekjuskattur og eignarskattur

11. fundur
Mánudaginn 21. október 1991, kl. 15:31:01 (340)

     Flm. (Kristín Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 37 um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru aðrar þingkonur Kvennalistans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Einarsdóttir.
    Í frv. þessu leggjum við til að við A-lið 1. mgr. 30. gr. laganna bætist nýr töluliður er verði 1. tölul. og orðist svo: ,,Iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til viðurkenndra lífeyrissjóða.``
    Með frv. þessu er lagt til að menn geti dregið iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða frá tekjum utan atvinnurekstrar. Árið 1987 var tekin upp staðgreiðsla skatta. Frá þeirri breytingu hafa landsmenn búið við tvísköttun á lífeyrissjóðsgjöld. Framlag launþega í lífeyrissjóði er skattlagt þegar hann myndar réttindi sín með inngreiðslum og lífeyrisgreiðslur til hans eru einnig skattlagðar þegar launastarfi lýkur.
    Í starfi milliþinganefndar þeirrar er undirbjó upptöku staðgreiðslukerfisins kom þetta vandamál til umræðu. Mögulegar lausnir þóttu flóknar og því heppilegra að láta breytinguna ganga yfir áður en flókin afbrigði yrðu tekin upp. Meginástæðan fyrir því að málið þótti flókið var sú að menn voru að einbeita sér að þeim möguleika að hafa lífeyrisgreiðslur skattfrjálsar við útborgun andstætt því sem áður hafði verið. En réttindi fólks til eftirlaunagreiðslna eru mjög mismunandi. Sumir eiga mikil og jafnvel margföld réttindi til lífeyris. Aðrir fá háar greiðslur vegna þess að vinnuveitandi þeirra hefur greitt mun hærra iðgjald en algengast er. Fjöldinn fær hins vegar fremur lágar greiðslur. Með því að leggja allar greiðslur úr lífeyrissjóðum að jöfnu væri því verið að skapa mikið óréttlæti, en til þess að tryggja að allir búi við ámóta skattfrelsi hefði þurft mjög flóknar reglur.
    Á sínum tíma var enginn tilbúinn með lausn á þessu vandamáli en ýmsar gallaðar leiðir voru nefndar. Jafnframt þótti heppilegt að svo mikil kerfisbreyting sem staðgreiðslan var fengi að vera sem einföldust í upphafinu. Því fór það svo að lögin voru samþykkt með þessum ágalla.
    Þetta fyrirkomulag hefur í för með sér mikið óréttlæti. Álagning tekjuskatts, bæði við myndun sjóðsins og úttekt úr honum, er óeðlileg. Fólk leggur fyrir í lífeyrissjóði til þess að búa í haginn fyrir elliárin. Hins vegar er hægt að leggja fyrir sparifé eða kaupa ríkisskuldabréf og mynda þannig eigin lífeyrissjóð, eins og segir í auglýsingum frá ríkissjóði. Tekjuskattur er greiddur við öflun eigin sparnaðar en ekki þegar peningarnir eru teknir út. Að þessu leyti er ólík skattaleg meðferð á frjálsum sparnaði og skyldusparnaði í lífeyrissjóði. Í frv. er lagt til að tekjuskattur verði aðeins greiddur einu sinni af sömu tekjunum. Ástæður þess að fremur er valið að hafa skattfrelsi við myndun sjóðsins en úttekt úr honum eru nokkrar.
    Í fyrsta lagi er það ljóst að ekki munu allir þeir sem greiða í lífeyrissjóð fá greiðslur úr honum. Hluti þeirra sem greiða í lífeyrissjóði lifa það ekki að njóta lífeyrisgreiðslna, jafnvel ekki heldur erfingjar þeirra. Enn aðrir fá aðeins lítinn hluta.
    Í öðru lagi má spyrja: Verða lífeyrissjóðirnir til eftir nokkra áratugi? Nokkur ótti er meðal fólks um það að eftir nokkra áratugi muni einhverjir lífeyrissjóðanna ekki hafa bolmagn til að standa undir skuldbindingum sínum. Allir vona að svo verði ekki, en fari svo munu aðeins þeir sem fá greiðslur úr sjóðnum greiða skatta af þeim. Hinir sem mynduðu sjóðinn en fengu lítið eða ekkert hefðu a.m.k. ekki þurft að greiða skatt af framlaginu ef þetta frv. verður samþykkt.
    Í þriðja lagi er nýting persónuafsláttar oft betri á efri árum vegna nokkuð lægri tekna. Þorri fólks hefur lægri tekjur á eftirlaunum en það hafði í fullu starfi eða mundi hafa í sams konar starfi nú. Það yrðu því meiri líkur til þess að nýting persónuafsláttar á lífeyrisgreiðslur yrði betri hjá eftirlaunaþeganum en þegar launþegi er að afla tekna til að skapa framlag sitt í sjóðinn.
    Í fjórða lagi þarf að hvetja fólk til þess að mynda lífeyrissjóði. Langtímasparnaður og fyrirhyggja varðandi afkomu fólks eftir starfslok er nauðsynleg ef hægt á að vera að lifa mannsæmandi lífi. Hvetja þarf til fyrirhyggju með skattfrelsi við myndun slíkra varasjóða. Full ástæða er til að hvetja til að jafnvel enn stærri hluti verði lagður fyrir en nú er gert. Skattfrelsi er hluti af slíkri hvatningu. Það er ljóst að ríkissjóður mun ekki geta staðið undir mannsæmandi eftirlaunagreiðslu til fólks ef lífeyrissjóðirnir bregðast.
    Í fimmta lagi getur skattfrelsi á lífeyrisgreiðslur við útborgun falið í sér mismunun. Einstaklingar fá greiðslur úr mismunandi sterkum lífeyrissjóðum og framlag vinnuveitenda er mishátt. Ef lög væru þannig að allar lífeyrissjóðsgreiðslur til eftirlaunaþega væru skattfrjálsar hefði það í för með sér mikla mismunun því endurgreiðslur eru mjög mismunandi eins og fyrr var sagt. Allar tilraunir til að hafa skattfrelsið innan skynsamlegra marka kalla á mjög flóknar reglur. Einfaldasta leiðin og sú réttlátasta er því að hafa skattfrelsið við myndun sjóðsins.
    Það er mjög mikilvægt að þrátt fyrir fyrirsögn 30. gr. verði ákvæðið túlkað svo rúmt að sjálfstæðir atvinnurekendur geti setið við sama borð og aðrir varðandi greiðslur í lífeyrissjóði. Þeir munu ekki síður en aðrir þurfa á lífeyri að halda í elli sinni, enda sýnist manni oft að atvinnurekstur á Íslandi standi ekki svo traustum fótum að allir þeir sem leggja fé sitt og frumkvæði í hann geti gengið að digrum sjóðum að lokinni starfsævi. Það þarf raunar að fylgja því eftir að allir myndi sér lífeyrisréttindi á ævi sinni og þar verði enginn launþegi undanskilinn.
    Það verður ekki nauðsynlegt að hafa neitt hámark á upphæð iðgjaldagreiðslna, hvorki á hlutfalli framlagsins né heildarupphæð hverju sinni, sé það skýlaust að allar greiðslur úr sjóðnum verði skattlagðar eins og aðrar tekjur. Það mun þá verða persónuafslátturinn og nýting hans sem hefur áhrif á það hvort óskertar greiðslur fást úr lífeyrissjóðum eða einhver skattur verði greiddur af þeim.
    Mikil umræða hefur verið um þessa tvísköttun lífeyrisiðgjalda í þjóðfélaginu. Á vinnustöðum um allt land hafa þessi mál orðið að umræðuefni og öðru hverju hafa þessar umræður orðið mjög háværar. Á 113. löggjafarþingi var samþykkt ályktun um þetta mál að frumkvæði Guðmundar H. Garðarssonar. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela fjmrh. að gera könnun á skattalegri meðferð lífeyrissparnaðar og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar til að slíkur sparnaður njóti ekki lakari kjara en annar sparnaður í landinu.``
    Það er skoðun flm. þessa frv. að sú leið sem hér er lögð til sé einföld og sú réttlátasta sem kostur er á.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.