Tannréttingar

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 13:52:00 (349)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Samkvæmt lögum og reglugerð eiga þeir sem leita hjálpar tannréttingalækna rétt á að fá endurgreiddar ákveðnar fjárhæðir sem þeir þurfa að leggja út vegna kostnaðarins. Til þess að svo geti orðið þurfa tannréttingalæknar að skila til Tryggingastofnunar ríkisins vottorðum um hvað þeir hafi gert svo að endurkröfunni sé hægt að koma fram og fólkið nái rétti sínum. Þetta er sambærilegt við það sem gert er í núgildandi virðisaukaskattslögum þar sem húsbyggjendum sem þurfa að leggja í verulegan kostnað vegna meiri háttar viðhalds á húseign sinni er gefinn réttur til þess að fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu á byggingarstað að því tilskildu að viðkomandi iðnaðarmenn skili reikningum þar sem hægt er að sjá hver endurgreiðslurétturinn er. Iðnaðarmenn gera þetta, tannréttingalæknar gera þetta ekki þannig að fólkið sem við þá skiptir getur ekki komið fram rétti sínum.

    Ég hef leitað til landlæknis með þetta mál. Í læknalögum er skylda til allra lækna að skila þeim vottorðum sem heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisyfirvöld krefjast af þeim. Landlæknir hefur skrifað þessum læknum til þess að gefa þeim kost á að koma með sín rök í málinu um það að skila ekki tilsettum vottorðum svo að sjúklingar þeirra geti náð fram rétti sínum. Ég mun beita öllum ráðum til þess að tryggja það eftir réttum löglegum leiðum að fólk þetta fái rétti sínum framgengt og ég treysti á stuðning landlæknis í þeim efnum og þarf ekki meira um það að segja.