Framtíðarsýn forsætisráðherra

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 13:57:00 (353)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég tel að hún sé mjög tímabær, þ.e. í dag, á þessum sólarhring, hafa verið að gerast mikil tíðindi. Samningar hafa náðst eftir tæplega þriggja ára þjark um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég var þeirrar skoðunar --- það er að vísu bara skoðun --- að ef svo færi að sá samningur hefði ekki orðið, þá hefði þrýstingur aukist innan lands á stjórnvöld að þau gengju til beins samstarfs og fengju aðild að Evrópubandalaginu. Ég er þeirrar skoðunar að þessi samningur, þessi mjög svo hagstæði samningur, muni ekki leiða til þess. Ég tel líka að þeir möguleikar sem þessi samningur opnar fyrir íslenska þjóð muni nýtast henni þó svo færi að allverulegur hluti þessara þjóða mundi ganga inn í Evrópubandalagið. Við vitum ekki enn þá um nokkur þessara ríkja. Við vitum ekki enn þá um Finnland. Finnland mun taka afstöðu til þessa þáttar væntanlega fyrir mitt næsta ár. Við vitum ekki enn þá um Noreg. En ég er sannfærður um það --- það er líka bara sannfæring og framtíðarsýn --- að ef svo fer að öll þessi ríki gangi inn í Evrópubandalagið, þá mundi það bandalag með okkur sem fyrrverandi aðila að hinu Evrópska efnahagssvæði hafa skyldu til þess að sjá réttindum Íslands borgið í viðskiptum við bandalagið umfram það sem orðið hefði ef við hefðum ekki orðið þátttakendur í hinu Evrópska efnahagssvæði.