Afhending EES-samningsins í utanríkismálanefnd

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 14:05:00 (358)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

     Virðulegi forseti. Forsrh. hefur í þremur ræðum hér lýst skoðun sinni á samningi sem utanríkismálanefnd Alþingis hefur ekki enn þá fengið að sjá. Það er fullkomlega óeðlilegt að forsrh. Íslands og utanrrh. Íslands séu að segja þjóðinni opinberlega að þessi samningur sé góður, hann sé svona, þetta sé jákvætt o.s.frv., forsrh. fullyrðir að fyrir samningnum sé meiri hluti á Alþingi þegar þrátt fyrir ítrekaðar óskir, síðast í morgun var neitað að afhenda utanrmn. samninginn. Það er fullkomlega óeðlilegt að forsrh. og utanrrh. séu að tjá sig opinberlega um þennan samning --- og utanrrh. ætli t.d. að halda blaðamannafund um samninginn núna eftir nokkrir klukkustundir --- án þess að utanrmn. og þingið fái að sjá samninginn. Þess vegna vil ég hér í sérstöku tilefni af ræðum forsrh. bera fram þá formlegu fyrirspurn til hans, er hann ekki reiðubúinn að fallast á þá ósk allra stjórnarandstöðuflokkanna í utanrmn. að þegar í dag fái stjórnarandstöðuflokkarnir að sjá þann samning sem undirritaður var í Lúxemborg í nótt? Ég skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin hafnar þessari sjálfsögðu ósk eins og hún gerði í morgun og ber þess vegna fram þá fyrirspurn nú til forsrh. hvort hann er ekki reiðubúinn til að beita sér fyrir því að við fáum þennan samning í hendurnar í dag.