Afhending EES-samningsins í utanríkismálanefnd

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 14:07:00 (359)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég tel að utanrrh. og embættismenn hans hafi haft mjög náið og gott samráð við utanrmn. á öllum stigum málsins eins og lög gera ráð fyrir, meira samráð kannski en menn hafa átt að venjast. Hins vegar var auðvitað ekki hægt á þessum síðasta sólarhring að halda uppi slíku samráði, enda ekki ráð fyrir því gert.
    Ég hafði áætlað að ríkisstjórnarfundur yrði kl. 8 í fyrramálið og í framhaldi af því í yrði fundur í utanrmn., ég hafði rætt það við formann nefndarinnar sem taldi engin tormerki á því þannig að ríkisstjórninni yrði kynnt málið fyrst og síðan utanrmn. í heild. Mér finnst sjálfsagt vegna þessarar athugasemdar formanns Alþb. að taka málið upp við utanrrh. hvort við getum haft á þessu breytta skipan. En ég vil ekki hér og nú úr þessum ræðustól, án samráðs við hann, gefa neinar sérstakar yfirlýsingar um það.