Fjárlög 1992

12. fundur
Þriðjudaginn 22. október 1991, kl. 20:30:00 (378)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Það er í rauninni dálítið sérkennilegt að tala um fjárlagafrv. íslenska ríkisins fyrir árið 1992 við þær aðstæður sem við búum við núna þar sem þjóðin, og þingmenn að sjálfsögðu líka, eru uppteknir af þeim stóru tíðindum sem hafa verið að gerast í tengslum við hið Evrópska efnahagssvæði og þar sem einstakir þingmenn berjast um á hæl og hnakka við að reyna að fá upplýsingar um það hvað er í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og hefur gengið heldur illa. Menn hafa ekki fengið að sjá neina texta, hvorki utanrmn. Alþingis né heldur ríkisstjórnin sjálf, nema kannski utanrrh., það er líklegt að hann hafi séð einhverja texta. Við þessar aðstæður erum við að fjalla um fjárlög íslenska ríkisins fyrir árið 1992 ( Gripið fram í: Og þar vantar ekki textann.), og þar vantar nú ekki textann og óþarfi að reyna að giska á hlutina á svona ,,telepatískum`` loftkenndum forsendum. En maður hlýtur þó að velta því fyrir sér hvort þetta er kannski af ýmsum ástæðum söguleg stund að því er varðar fjármál íslenska ríkisins vegna þess, þó ekki komi annað til, að það er líklegt að þegar fjárlög íslenska ríkisins verða afgreidd fyrir árið 1993 þá hafi átt sér stað breytingar sem verði með þeim hætti að óhjákvæmilegt verði að taka tillit til þeirra við fjárlagagerðina haustið 1992 vegna ársins 1993 ef Ísland ákveður að gerast aðili að hinu svokallaða Evrópska efnahagssvæði. Þannig getur það með öðrum orðum verið að við séum hér að fjalla um síðasta fjárlagafrv. þar sem forsendurnar eru í raun og veru eingöngu þær sem við ákveðum sjálf með okkar lögum og reglum, ýmist góðum eða vondum, ýmist viturlegum eða vitlausum eftir atvikum. En það er nú kosturinn við lýðræðið að við höfum ekki einasta leyfi til að hafa rétt fyrir okkur heldur líka rangt. En hugsanlegt er þegar kemur að fjárlögum ársins 1993 og umræðunni í október að ári þá verði menn að ræða um hlutina út frá allt öðrum forsendum en nú eru uppi, í efnahagsmálum, atvinnumálum, skattamálum, heilbrigðismálum, landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum og jafnvel þeim málum sem snerta félagslega velferð. Ég hygg að það eigi reyndar eftir að koma í ljós varðandi hið Evrópska efnahagssvæði að það verði ýmsir hlutir sem menn muni sjá á næstu vikum og mánuðum þar sem menn segja sem svo: Nú er þetta virkilega svona, ekki var mér sagt frá því. Og menn muni í einstökum atriðum telja að þeir hafi ekki haft réttar og glöggar upplýsingar um málin vegna þess að hið Evrópska efnahagssvæði er auðvitað ekki bara fiskur heldur er það kannski fyrst og fremst fjölmargt annað.
    Það fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er auðvitað merkilegt fyrir annarra hluta sakir. Sérstaklega fyrir þær sakir að hér er farið út af tiltekinni braut sem mótuð hefur verið á undanförnum árum og áratugum liggur mér við að segja. Þá er ég ekki að tala um skuldasöfnun út af fyrir sig vegna þess að hér er haldið áfram skuldasöfnun. Ég er að tala um það fyrst og fremst að forsendur fjárlaga íslenska ríkisins hafa byggst á tiltekinni almennri pólitískri sátt um ýmis meginatriði velferðarkerfinsins, mér liggur við að segja burt séð frá því hverjir hafa komið að málinu. Ef maður lítur t.d. á árin frá 1960 og allt fram til ársins 1990 má segja að í grundvallaratriðum hafi menn verið sammála um viss meginatriði, hverjir svo sem hafa stýrt landinu. Það eru t.d. ákveðin lágmarksmannúðarsjónarmið sem menn hafa haft í heiðri. Ég tel að núna hafi það hins vegar gerst með framlagningu þessa fjárlagafrv. og stefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar að menn hafi sett spurningarmerki við þessi mannlegu grundvallargildi, mannúðargildin, sem okkar þjóðfélag byggist á, mannúðargildi sem halda okkar þjóðfélagi saman hvar svo sem við kunnum að hafa vera stödd í stjórnmálaflokkum.
    Nú þekki ég vitaskuld eins og aðrir hv. þm. vel rök ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Þau eru m.a. þau að um hafi verið að ræða óhóflega skuldasöfnun og það verði að gera ráðstafanir til að draga úr henni. Það sé hætt við því að ef haldi áfram á sömu braut verði okkar efnahagslega sjálfstæði hætta búin. En í stefnumótun ríkisstjórnarinnar birtist það líka að menn telja nauðsynlegt að hverfa frá hinum félagslegu grundvallaratriðum til þess að hinar markaðslegu forsendur, m.a. svokölluð kostnaðarvitund almennings, fái að njóta sín. Ég held að það væri mjög alvarlegur hlutur ef við breyttum Íslandi í tilraunastöð fyrir markaðskerfið með þeim hætti sem mér finnst gert hér. Ég er ekki að segja það að hæstv. núv. ráðherrar, sem hér sitja mér á vinstri hönd séu sérstaklega illa innrættir menn, né sá sem situr mér á hægri hönd. Ég ímynda mér það að þeir muni t.d. hjálpa gömlu fólki yfir götuna og að þeim þyki vænt um börn, svo ég nefni dæmi um viss manneskjuleg grundvallaratriði. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að þeir telji að þeir séu í nauðum staddir, þeir eigi kannski engra annarra kosta völ en þeirra að reyna að klóra í bakkann með þeim hætti sem hér er reynt að gera. Og þá vil ég segja það sem mína skoðun að ég tel að þeir séu að því er þetta varðar á rangri braut. Ég tel að þetta sé óþarfa braut. Ég tel að þeir þurfi ekki að vera á þessari braut og þá er ég ekki kannski síst að beina orðum mínum til Alþfl. Ég held að það hefði verið hægt að fara aðrar leiðir til þess að treysta velferðarkerfið, jafnaðarkerfið í þjóðfélaginu, heldur en hér eru gerðar tillögur um. Ég held að það hefði verið skynsamlegra að afla skatta með sérstöku hátekjuskattþrepi t.d.,

með skattlagningu fjármagnstekna og reyna þannig að ná endum saman um leið og það verður auðvitað að vera alveg ljóst, eins og ég hygg að segja megi að við höfum sýnt í fráfarandi ríkisstjórn, að við viljum veita aðhald. Auðvitað verður að veita aðhald í ríkisrekstrinum. Á þeim tíma sem við fórum með þessi mál t.d. í fjmrn. og menntmrn., svo ég nefni dæmi, þá hygg ég að það sé hægt að sýna mjög mörg dæmi þess að við höfum þrátt fyrir allt og allt gengið í það að veita mjög strangt aðhald sem var ekkert sérstaklega vinsælt af því fólki sem starfaði t.d. í skólakerfinu á þeim tíma. En þar var um að ræða þó á þeim tíma aðra nálgun í grundvallaratriðum, aðra aðferð.
    Nú er farið inn á nýja braut. Annars vegar persónulega gjaldtöku þeirra, ekki sem njóta þjónustunnar, ég mundi ekki orða það þannig, heldur þeirra sem verða að fá þjónustuna eins og sjúklinga og hins vegar inn á einkavæðingarbraut. Ég er í grundvallaratriðum ósammála þessum aðferðum.
    Varðandi einstök atriði í fjárlagafrv. vildi ég drepa á nokkra þætti eftir að ég hef rakið þetta almenna, sem sagt að ég tel að menn séu hér á rangri braut, það sé óþarfi að fara þessa leið. Það hefði verið hægt að fara aðra leið. Ég tel t.d. að Alþfl. sé engin vorkunn í þessu efni, hann hefði getað kosið sér betri bandamenn til þess að ná fram áherslum jafnaðar og velferðar. Og auðvitað harma ég það að hann skyldi kjósa sér það hlutskipti að fara með Sjálfstfl. í núv. ríkisstjórn.
    Í fjárlagafrv. koma fram nokkuð mörg grundvallaratriði þar sem maður sér að hlutirnir eru með þeim hætti að ástæða er til að ætla að þar sé verið að víkja frá meginatriðum undanfarinna ára og áratuga og ég ætla nú að víkja að þeim. Þá vil ég í fyrsta lagi segja: Fjárlagafrv. boðar kjaraskerðingu þjóðarinnar umfram það sem nemur skerðingu þjóðartekna. Ég viðurkenni að þar getur verið um að ræða verulegan vanda, en ég tel að í fjárlagafrv. sé um að ræða skerðingu sem er umfram þann vanda sem birtist okkur í skerðingu þjóðartekna, þar sé gengið lengra heldur en efnisleg rök þjóðarbúsins segja til um. Ég tel að þetta komi t.d. fram í því að það er bersýnilega gert ráð fyrir kauplækkun í fjárlagafrv. Það er gert ráð fyrir meiri skerðingu launatekna í fjárlagafrv. en nemur þeirri skerðingu tekna þjóðarbúsins sem líka er talað um í fjárlagafrv. Það er sem sagt verið að ganga meira á hlut launafólksins, sem á ekkert að selja nema vinnuafl sitt, en samdrátturinn í þjóðarbúinu gefur tilefni til. Og til viðbótar við hina beinu kjaraskerðingu, kaupmáttarskerðingu, sem birtist fólki á næsta ári í kauptöxtunum sjálfum og þá er ég að tala um forsendur fjárlagafrv., sjáum við í einstökum þáttum þess að þar er verið að auka skerðinguna með ýmsum hætti. Það er t.d. rætt um það að breyta tekjuskattskerfinu, það er rætt um að breyta því í verulegum mæli þannig að munar nokkrum hundruðum milljónum króna án þess að það sé tekið fram nákvæmlega hvað það er sem menn eru þar að tala um, menn eru að ræða þar um ýmsa hluti. Ég hygg að menn séu t.d. að tala um að breyta barnabótakerfinu í grundvallaratriðum. Ég hef ekki séð hvernig það lítur út. Kannski eru menn að hugsa um að nota sömu upphæð til barnabóta og gert er núna og tekjutengja þær allar. Ef það er skoðun ríkisstjórnarinnar þá er ég hlynntur þeirri stefnu. Ég tel að það eigi að ganga mjög langt í tekjutengingu. Hins vegar hefur það komið fram í ummælum hæstv. fjmrh. við fjölmiðla, það er ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að ætlunin sé í raun og veru að draga úr heildarútgjöldum ríkisins til barnabóta. Hann orðar það þannig að það eigi að lækka endurgreiðslur tekjuskattsins. Það eru þá barnabætur og vaxtabætur og sjómannaafsláttur. Og ég hlýt á þessu stigi málsins, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. fjmrh., hversu langt á að ganga í þessum efnum? Hvað líður því starfi sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna í þessu efni? Eru menn sérstaklega að hugsa um sjómannaafsláttinn eða sérstaklega um barnabæturnar eða sérstaklega um vaxtabæturnar eða allt þetta? Ætla menn að ganga enn lengra í tekjutenginu eða skemmra en nú er gert? Þetta held ég að sé mjög nauðsynlegt að fá að vita núna við 1. umr. málsins.
    Til viðbótar þessu er svo gert ráð fyrir því að almenningur eigi að greiða fyrir skólavist, skólagjöld, nokkur hundruð millj. kr. og það er gert ráð fyrir greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu, sérstaklega þó lyf í viðbót við það sem verið hefur. Það er gert ráð fyrir því að greitt verði fyrir heilsugæslu og það er gert ráð fyrir öðrum greiðslum þannig að í heild er um að ræða mörg hundruð millj. kr. Og þegar þetta er allt lagt saman, þ.e. að frv. stefnir opinskátt að kjaraskerðingu, að frv. segir að það eigi í raun og veru að draga úr endurgreiðslum tekjuskatts, það á að leggja á skólagjöld og það á að innheimta greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu, er niðurstaðan sú að þetta frv. getur ekki undirbúið jarðveginn fyrir áframhaldandi frið við stéttarsamtökin í landinu.
    Ég segi það alveg fullum fetum, virðulegi forseti, að ég held að það hljóti að vera afar erfitt fyrir samtök launafólks að taka þeim trakteringum upp á nokkra milljarða króna sem eru í þessu frv. Ég tel með öðrum orðum að þetta frv. greiði ekki fyrir kjarasamningum. Væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. fjmrh. svarar því með hvaða rökum hann telur að þetta frv. greiði fyrir kjarasamningum þegar í frv. er gert ráð fyrir kjaraskerðingu umfram skerðingu þjóðartekna og auk þess gjöldum á almenning upp á nokkra milljarða króna. Það hlýtur að vera afar snúið mál fyrir forustumenn í samtökum launafólks að taka á málinu við þessar aðstæður.
    Síðan bætist það við að bersýnilega er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að breyta í grundvallaratriðum réttarstöðu opinberra starfsmanna og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann hugsar sér að halda þeim málum áfram. Hafa átt sér stað viðræður um þau mál við BSRB eða hvað?
    Frv. víkur með öðrum orðum almennt frá þeirri mannúðarstefnu sem hefur verið í gildi í þjóðfélaginu og heildarsátt hefur verið um. Það boðar meiri kjaraskerðingu en felst í skerðingunni á tekjum þjóðarbúsins.
    Þá er ég kominn að einstökum atriðum og ætla einkum að víkja að heilbr.- og trmrn. Mér sýnist gert ráð fyrir því að skera eigi niður framlög til lífeyristrygginganna um 330 millj. kr. Og ég vil spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. hvernig ætlunin er að gera þetta. Hann getur auðvitað sagt við mig: Ja, við erum að vinna í þessu í heilbrrn. og við sýnum ykkur í stjórnarandstöðunni ekkert það sem við erum að vinna í o.s.frv. Ég hef heyrt þá rullu 30 sinnum hér þegar á stuttum valdatíma hæstv. heilbrrh. En ég nenni ekki að fá svoleiðis svör núna. Ég er bara að spyrja hann í einlægni: Hvað eru menn að gera? Hversu langt er þetta komið? Hvenær kemur frv. inn í þingið? Er þetta hluti af heildarendurskoðun almannatryggingalaganna eða er þetta bara þetta mál út af fyrir sig? Ætla menn að tekjutengja meira? --- elli- og örorkulífeyrinn t.d.? Og ef svo er, hafa alþýðuflokksmenn skipt um skoðun frá síðasta þingi? Það getur auðvitað vel verið að annað sé þarna uppi, en ég vil spyrja um þetta atriði. Þarna er verið að skerða tekjur, skerða kjör tryggingaþega um 330 millj. kr.
    Í öðru lagi eru sjúkratryggingarnar. Það er gert ráð fyrir því að taka kostnað sjúkratrygginganna talsvert niður. Í greinargerð fjárlagafrv., á bls. 331, er farið yfir það rækilega hvaða þættir það eru sem menn eru að tala um. Það er verið að tala um kostnað við hjálpartæki sem á að lækka um 95 millj. kr. vegna útboða á einnota vörum og greiðsluþátttöku notenda í kostnaði þeirra. Ég hefði aðeins viljað inna hæstv. heilbr.- og trmrh. eftir því hvaða útboð hann er þarna að hugsa um t.d. á hjálpartækjum fatlaðra eða hvað er verið að tala um vegna þess að engar nánari skýringar hafa komið fram á þessu. Vafalaust er heilbr.- og trmrn. með ítarlegri skýringar en hér koma fram vegna þess að mér sýnist nú sums staðar á þessum texta að hann hljóti að hafa verið skrifaður í fjmrn.
    Það er gert ráð fyrir því að lækka útgjöld vegna 39. gr. almannatryggingalaganna um 30 millj. kr. en undir þennan lið falla ýmsar bætur sjúkratrygginga, svo sem styrkir til tannviðgerða, sjúkraþjálfunar, ferðakostnaður til útlanda o.fl. Ég spyr um þetta. Ég spyr enn fremur um það að gert er ráð fyrir því hér að lækniskostnaður lækki um 260 millj. kr. með hækkun á gjaldi fyrir komu til lækna. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi fara um það nokkrum orðum hvernig hugmyndin er að framkvæma þetta. Þá er gert ráð fyrir að draga úr erlendum sjúkrakostnaði um 20 millj. kr. og að síðustu lækkar framlag til niðurgreiðslu lyfja um 800 millj. kr. frá því sem ella hefði verið. Ég skil greinargerðina þannig, þ.e. frá því sem hefði verið að óbreyttu áður en reglugerð nr. 300 7. júlí 1991 var sett. Þannig eru þetta í raun og veru ekki 800 millj. kr. frá núverandi stigi heldur 800 millj. kr. frá því stigi sem var í útgjöldum sjúkratrygginganna til lyfja í ársbyrjun 1991.
    Ég mun koma aðeins að lyfjunum nánar síðar en víkja þessu næst að sjúkrahúsunum og þá sérstaklega að sjúkrahúsunum á höfuðborðarsvæðinu þar sem gert er ráð fyrir verulegum breytingum. Það er verið að tala um að breyta rekstri Borgarspítalans og Landakotsspítalans í grundvallaratriðum. Nú er kannski rétt að taka það fram, virðulegi forseti, að þetta er í fyrsta sinn sem þingið fjallar um fjárlög eftir nýju þingsköpunum, þ.e. eftir að fagnefndir eru farnar að fara yfir málin og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að þær nefndir, sem ég á sæti í alla vega, hafi gert þetta samviskusamlega og þær heimsóknir, sem við höfum farið í heilbr.- og trn. hafa til þessa verið gagnlegar og verða það vonandi áfram. Og umræður um fjárlagafrv. í hv. iðnn. hafa einnig verið mjög gagnlegar. Það er þess vegna hægt að fara aðeins ítarlegar í fagþættina í frv. heldur en venjulega á þessu stigi málsins. Ég tel það mjög til bóta. Mér sýnist að málið liggi í rauan og veru þannig frá sjónarmiði þingsins séð að áður en að frv. kemur til 1. umr. sé mjög heppilegt að nefndirnar hafi byrjað yfirferð málsins og ég tel ástæðu til að geta þess hér varðandi forustumenn hv. nefnda, heilbr.- og trn. og iðnn., og einkum þann síðarnefnda sem ég hef ekki ávarpað af sérstakri virðingu áður hér úr ræðustólnum að það er ástæða til að þakka það að menn hafa sinnt því samviskusamlega. ( Gripið fram í: Hefurðu dottið, Svavar?) Við erum nú alltaf sanngjarnir, alþýðubandalagsmenn eins og þú veist, hv. þm.
    Varðandi Borgarspítalann og Landakotsspítalann langar mig aðeins til að biðja hæstv. heilbrrh. um að ræða það nokkru nánar við okkur hvernig það er hugsað. Í fyrsta lagi þetta: Það er í raun og veru ekki búið að ákveða þessar breytingar í einstökun atriðum. Forráðamenn Borgarspítalans og Landakotsspítalans vita ekkert um til hvers er ætlast af þeim í dag. Og það er auðvitað mjög alvarlegur hlutur að standa þannig að málum að forustumenn þessarar sjúkrahúsa, eins og ég geri ráð fyrir t.d. með sjúkrahúsið í Stykkishólmi, viti ekkert um til hvers er í rauninni ætlast af þeim. Og ég gagnrýni vinnubrögð heilbrrn. í þessu máli. Ég tel að þessi vinnubrögð séu óeðlileg. Forráðamenn þessara stofnana, eins og t.d. Landakotsspítala, eru algerlega í lausu lofti, hafa ekki hugmynd um til hvers er ætlast af þeim. Þeir hafa heyrt það eftir hæstv. heilbrrh. og fleirum að það standi til að breyta Landakotsspítala í hjúkrunarheimili. Ég verð að segja að það er auðvitað algjör fjarstæða að gera það eins og hv. 13. þm. Reykv. vék hér aðeins að áðan. Það er í rauninni algerlega út í hött að breyta Landakotsspítala í hjúkrunarheimili vegna þess að það er svo dýrt. Það þarf að gera svo miklar breytingar á búnaði spítalans, lyftum, göngum og öðru slíku, að það er útilokað að gera þetta.
    Það liggur ekkert fyrir um það enn þá hvaða starfsemi Landakotsspítala og Borgarspítala það er sem á að færa saman. Hvaða starfsemi það gæti verið sem væri sérstaklega hentugt að flytja til. Ég sé það satt að segja ekki í fljótu bragði með góðu móti hvað það gæti verið nema menn ætli sér að flytja tiltekinn hluta skurðlækninganna, handlækningar sem þarna eru unnar, í burtu. Sem þýðir ósköp einfaldlega það að þær verður að vinna einhvers staðar annars staðar. Þá er fyrst og fremst um að ræða bæklunarlækningar og það eru biðlistar alls staðar eftir bæklunarlækningum. Með þessu er að mínu mati verið að segja: Það á bara að bíða lengur eftir bæklunarlækningum ef það eru bara handlækningarnar sem menn eru að tala um að flytja frá Landakotsspítala yfir á Borgarspítalann. Önnur hugmynd, sem hefur komið upp og menn geta út af fyrir sig rætt, er að flytja barnadeild Landakotsspítala yfir á Borgarspítala með þeim faglegu rökum fyrst og fremst að Borgarspítalinn er með slysadeild. Þangað kemur mikið af börnum. Og Borgarspítalinn þarf í rauninni að hafa deild fyrir börn. Ég sé hins vegar ekki

ef maður skoðar rekstartölur Landakotsspítala og Borgarspítala að þetta spari neitt. Hvernig svo sem ég velti þessu dæmi sé ég í rauninni ekki að það sparist neitt við það að gera þetta svona. Og ég kemst að þeirri niðurstöðu eftir þó nokkuð vandlega umhugsun að menn segi í fyrsta lagi: Menn geta þetta ekki, þetta verður ekki gert í raun og veru. Vegna þess að þeir aðilar sem standa að stofnunum eins og Borgarspítalanum, Landakotsspítalanum og St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði munu ekki láta segja sér svona fyrir verkum af því að það er svo vitlaust sem menn eru að tala um út frá faglegu sjónarmiði og líka út frá fjárhagslegu sjónarmiði.
    Mér er tjáð að forráðamenn St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði hafi þegar skilað hæstv. heilbrrh. tillögum um breytingar á spítalanum. En það var gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að fjárveitingar til spítalans verði lækkaðar í fjárveitingum að mig minnir um 115 millj. kr. Mér er tjáð að sparnaðartillögur forráðamanna St. Jósefsspítalans í Hafnarfirði séu einhvers staðar á bilinu 10--20 millj. kr. og þeir segja að þeir komist bara alls ekki lengra.
    Út af fyrir sig er hugsanlegt að breyta St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði í hjúkrunarheimili. En það er dýrt. Það er í raun og veru rándýrt vegna þess að búnaður spítalans hæfir ekki hjúkrunarheimili. Auk þess sem það vill svo vel til að langlegumál aldraðra eru í betra horfi í Hafnarfirði, svo að ég tali aðeins um það, heldur en t.d. hér í Reykjavík. (Gripið fram í. ) Þeim var nú hjálpað á síðasta kjörtímabili þar eins og annars staðar, hv. þm. Þannig að ég fæ ómögulega séð í fljótu bragði að þessir tilflutningar milli spítalanna, Landakotsspítala og Borgarspítala, breytingin á St. Jósefsspítala, breytingarnar á Stykkishólmsspítala, breytingarnar á Patreksfirði, ganga faglega upp nema menn ákveði að fella niður þjónustu sem fólk á núna lögbundinn rétt á samkvæmt lögunum um heilbrigðisþjónustu eins og þau voru sett 1973 og hafa verið síðan. Ef það er í raun og veru þannig að ríkisstjórnin ætli sér að fella niður rétt manna til heilbrigðisþjónustu, ef ríkisstjórnin hefur þá stefnu á hún auðvitað að segja það fullum fetum. Forráðamenn Landakotsspítala, sem við ræddum við á dögunum, sögðu: Það er engin leið að ná þessum markmiðum nema með því að fella niður þjónustu, þ.e. að breyta í grundvallaratriðum 1. gr. laganna um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um það að fólk eigi rétt á eins góðri heilbrigðisþjónustu og almennt er völ á á hverjum tíma. Ég fullyrði með öðrum orðum að það sé ekki hægt án slíkra breytinga að ná þessum markmiðum sem hæstv. heilbrrh. hefur ákveðið að beita sér fyrir burt séð frá því hvort þau eru réttlætanleg eða ekki.
    Það er einnig mjög athyglisvert í þessu sambandi, virðulegi forseti, að átta sig á því að forráðamenn Landakotsspítala t.d. hafa ekki fengið um það upplýsingar hvernig á að fara að því að loka Hafnarbúðum. Þeir hafa ekki undirbúið neinar ráðstafanir í þeim efnum enn þá, þó er verið að tala um að loka þeim nú um áramótin, eftir örfáar vikur. Þeir hafa ekki hugmynd um hvernig þeir eiga að standa að þessu. Þegar maður spyr þá hvernig á að fara í þessi mál og hvort þeir hafi ekki heyrt eitthvað í heilbrrn. segja þeir: Nei, nei við vitum ekkert um þetta en við höfum heyrt þetta í fjölmiðlum. Það væri svo sem eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn að hún léti sér nægja að senda út opinberar tilkynningar í fjölmiðlum. En allir forráðamenn þessara stofnana, hvort sem það er Landakot, Hafnarbúðir, St. Jósefsspítali, Borgarspítalinn eða hvað það er, búa núna við algera óvissu frammi fyrir árinu 1992 af því að þeir hafa í raun engin fyrirmæli um það í einstökum atriðum hvernig á að fara að þessu eða leiðbeiningar um það í einstökum atriðum. Ég segi að forráðamenn þessara stofnana séu örugglega allir af vilja gerðir til þess að vinna með stjórnvöldum. Ég er sannfærður um það og þekki það reyndar. Þeir hafa engar leiðbeiningar um það og ég segi: Þessi tilraun til breytinga og sparnaðar er dæmd til þess að mistakast vegna þess að svona er að henni staðið burt séð frá því hvort er rétt eða rangt að gera þessa hluti. Hún er dæmd til þess að mistakast. Og ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að þegar kemur að umræðu um fjárlögin fyrir árið 1993 mun verða hægt að slá því föstu að menn hafi ekki náð þeim markmiðum sem menn skrifa niður í þessu plaggi af því að þau eru ekki framkvæmanleg með þessum aðferðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur uppi í þessum efnum. Og það lýsir auðvitað alveg ótrúlegu kunnáttuleysi í vinnubrögðum þegar um er að ræða mann eins og hæstv. heilbr.- og trmrh. sem hefur mikla reynslu af hinu opinbera kerfi sem form. fjárveitinganefndar um langt árabil og þekkir þessi mál betur en mjög margir aðrir.
    Hið sama er auðvitað að segja um Fæðingarheimili Reykjavíkurborgar. Það var hjartans mál hjá sumum að halda því opnu dálítið áfram. Ég ætla ekkert að fara að tala hérna við hæstv. forsrh. og borgarfulltrúann í Reykjavík um það mál núna á þessum kvöldfundi. En það var mikið hjartans mál hjá sumum að hafa þetta fæðingarheimili um skeið. Þá voru demonstrasjónir, með leyfi forseta, alls konar fyrirsagir í Morgunblaðinu, leiðarar og Reykjavíkurbréf um nauðsyn þess fyrir konur þessa lands að til væri Fæðingarheimili Reykjavíkur. Það var nú ekki lítið sem gekk á og ályktanir í borgarstjórn Reykjavíkur um gerræði manna að láta sér detta það í hug að leggja það niður. Formaður heilbrigðisráðs Reykjavíkur, það er nú ekki búið að kjósa hann inn á Alþingi enn þá þannig að hann hefur enn þessa skoðun sem borgarstjórnaríhaldið hafði um skeið, að það mætti engu breyta þarna, Árni Sigfússon heitir hann. En eins og biskupinn yfir Íslandi benti á í dag þá breyta sjálfstæðismenn mjög mikið um skoðun eftir því hvort þeir eru innan eða utan stjórnar, eða innan eða utan þings. Biskupinn hélt alveg sérstaka dómadagsræðu um það í upphafi prestastefnu í dag hvað þeir væru snöggir að skipta um skoðun í Sjálfstfl.
    Staðan er auðvitað þannig í kringum Fæðingarheimili Reykjavíkur, það er nákvæmlega eins, menn hafa í raun og veru engar leiðbeiningar um það hvernig á því máli á að taka. Ég get hins vegar sagt það fyrir mitt leyti í sambandi við Fæðingarheimilið að ég tel sjálfsagt að endurskoða rekstur þess. Ég er þeirrar skoðunar og hef alltaf verið það. Það er sjálfsagt að gera það. Hins vegar held ég að það eigi að koma þessum málum dálítið öðruvísi fyrir heldur en að setja þetta allt undir ríkið eins og yrði gert að óbreyttu. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það

eigi að vera tiltekið svigrúm fyrir ákveðna faglega samkeppni í heilbrigðisþjónustunni. Ég held að einokunarstarfsemi þar sé vond eins og í samgöngunum, siglingum til landsins. Ég er á móti því að breyta þjóðfélaginu í eitt allsherjar Eimskipafélag. Hvort sem það er á spítölum eða í frakt. Ég er á móti því.
    Sameining spítalanna er líka mál sem hefur verið skoðað dálítið. Hér er skjal sem heitir ,,Samsöfnun og dreifing sjúkrahússþjónustu á höfuðborgarsvæðinu`` og er þýtt af löggiltum skjalaþýðanda og dómtúlki fyrir ríkisspítalana. Sjálfsagt borgað fyrir það þó þeir hafi enga heimild til þess að mati heilbrrh. því að hann vill vita alveg nákvæmlega hvernig þessum milljörðum er varið sem ríkisspítalarnir eru með og má það heita göfugmannlegt markmið að velta fyrir sér hverri krónu sem ríkisspítalarnir fá. (Gripið fram í.) Það er mesta furða hvað maðurinn lítur vel út og er brattur að sjá miðað við þær annir sem hann hefur tekið á sig, (Gripið fram í.) að velta fyrir sér krónum ríkisspítalanna því þær eru margar. En niðurstaðan í þessari skýrslu er ekki sú að það eigi að sameina Borgarspítalann og Landakotsspítalann. Það er nú eitthvað annað. Og það er von að heilbrrh. hafi verið reiður þegar hann fékk þessa skýrslu, alveg fokvondur í sjónvarpinu. Ég veit ekki hvort menn muna eftir því, hann hefur svo oft verið það í sumar. (Gripið fram í.) Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Við samruna Borgarspítalans og Landakotsspítalans verður tvöföldunin mest.`` --- þ.e. tvöföldun á þjónustu --- ,,Borgarspítalinn og Landakotsspítalinn munu sameiginlega hafa 40--60% markaðshlutdeild í mörgum sérgreinum.`` --- Það er aldrei hægt að tala um neitt öðruvísi en sem markaðshlutdeild. Það mun vera átt við fólk hér, býst ég við. --- Svo segir hér: ,,Við þessa sameiningu Landakotsspítala og Borgarspítala mun kostnaður hækka, sóun verður í hámarki og gæði munu minnka.`` --- Þetta er fagleg niðurstaða og það er ekki nokkur leið að horfa fram hjá þessu fyrir hv. Alþingi. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. geri grein fyrir því hér hvernig á því stendur að hann ætlar að hafna þessum sjónarmiðum vegna þess að ég er alveg sannfærður um að það er rétt sem fyrrv. hæstv. heilbrrh. sagði hér áðan, að samvinna allra sjúkrahúsanna í Reykjavík er líkleg til að skila sparnaði þegar fram í sækir, en auðvitað ekki strax, eftir eitt ár eða þvíumlíkt.
    Því endurtek ég það sem ég sagði hér áðan að ég tel það algjörlega fráleitt að steypa öllum þessum húsum saman í eitt stórfyrirtæki, svoleiðis kompaní mundi ég ekki vilja hafa. En skipuleg samvinna er skynsamleg og fagleg samkeppni á vissum sviðum er einnig skynsamleg og veitir aðhald að gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Kannski getur það verið að við séum mjög mörg hér, þingmenn, sammála um þetta og mér heyrðist það reyndar á hv. 13. þm. Reykv. áðan að svo væri. Spurningin er þá um það hvort hugsanlegt sé að við getum hér í þessum sal náð saman um það að taka á þessum málum því að í mínum huga er það þannig að við eigum þá skyldu, hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu, að fara yfir mál af þessu tagi vegna þess líka að menn vita að það er ekki víst að við verðum mjög lengi í stjórnarandstöðu. Það gæti nefnilega orðið stutt. Það er því vissara fyrir þá sem eru í stjórnarandstöðu í dag að vera ábyrgir strax svo fari ekki fyrir þeim eins og núv. kirkjumálaráðherra sem biskupinn tók á kné sér í dag og flengdi, með leyfi forseta. ( Gripið fram í: Leyfði forseti það?) Ja, forseti sagði ekki orð um það. Þess vegna er það þannig . . . ( Fjmrh.: Er þetta ekki sami maðurinn og var sóknarprestur ræðumanns?) Þetta er fyrrverandi sóknarprestur minn, það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Tók hann ekki einhvern tímann sóknarbarnið á kné?) Nei, hann náði því aldrei, en kannski hæstv. núv. fjmrh. af því að hann mætti í kirkju hjá honum einu sinni en ég aldrei.
    Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að við eigum hér öll óskiptan hlut. Ég held það sé nauðsynlegt að átta sig líka á því þegar menn eru að tala um þróun ríkisútgjalda að það er alveg rétt að heilbrigðisútgjöldin hafa þanist út, það er rétt. Það er enginn ágreiningur um það. Það er hins vegar rangt sem stundum er sagt að útgjöld til heilbrigðis- og menntamála hafi þanist út, vegna þess að í rauninni er það þannig að menntamálaútgjöld hafa hreyfst furðulega lítið hér á undanförnum árum miðað við útgjöld til heilbrigðismála. Þess vegna eigum við hér óskiptan hlut og spurningin er sú: Getum við t.d. gert hv. heilbr.- og trn. Alþingis að vettvangi til að fara yfir þessa hluti í alvöru og af einlægni, þannig að menn skoði þetta opnum augum, algjörlega opnum augum. Ég viðurkenni að vísu að í þeim efnum vil ég að menn hafi jafnarsjónarmið í heiðri. Menn hafi kröfur um gæði heilbrigðisþjónustunnar að leiðarljósi og ég endurtek að ég tel að einokunarstefna á því sviði þjóni ekki þeim markmiðum sem við eigum að stefna að.
    Fyrir utan þetta með spítalana sem ég hef hér rætt er gert ráð fyrir því í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 að auka gjöld þeirra sem koma til heilsugæslustöðva um 375 millj. kr. Ég ætla í sjálfu sér ekki að ræða það almennt, en ég ætla að spyrja hæstv. heilbrrh. --- og nú þykir mér leitt ef hann er farinn. Hann hefur brugðið sér fram aðeins. (Gripið fram í.) Í símann, já. Þá hinkra ég bara. Ég get þá vikið hérna aðeins að öðrum ráðherra Alþfl. á meðan til að nota tímann.
    Ég ætla aðeins að víkja að iðnrn. í þessu fjárlagafrv. og ég verð að biðja hæstv. fjmrh. að vera í fyrirsvari fyrir það, eins og auðvitað fjárlagafrv. í heild af því ég sé að iðnrh. er ekki mættur hér. Ég er ekki að segja að það komi mér á óvart, því hann er eiginlega aldrei hérna. En það er mjög athyglisvert að líta yfir fjárlagatillögur iðnrn. Þannig háttar til með ráðuneytin að yfirleitt er gert ráð fyrir tilteknum upphæðum sem ráðuneytin hafi til ráðstöfunar eins og það er kallað í sambandi við ýmsa málaflokka. Það er liður sem heitir Ráðstöfunarfé en hitt er yfirleitt mjög nákvæmlega njörvað niður hvað það er sem ráðherrarnir mega eyða. Það er á bls. 191. Það er að sjálfsögðu passað mjög vandlega að ráðherrarnir séu ekki mikið að þvælast um með opin tékkhefti. En þegar maður skoðar fjárlagatillögur iðnrn., þá eru aldeilis jól og páskar á þeim bæ. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að til sé liður sem heitir ,,Til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun ráðherra, 8 millj.``, sem er óvenjumikið miðað við það

hvað þetta er lítið ráðuneyti. Látum það nú vera. Síðan kemur liður sem heitir Iðnaðarrannsóknir, algjörlega ósundurgreint. Hvað ætli eigi að rannsaka þar? Það veit enginn. Hver á að fá þessa peninga? Enginn veit. --- 31,1 millj., Iðnaðarrannsóknir. Þá er hann kominn í 39 millj. Síðan kemur liður sem heitir ,,Iðnþróun og tækninýjungar``. Áðan voru það iðnaðarrannsóknir og svo er það iðnþróun og tækninýjungar. Það eru 9,7 millj. og engin grein gerð fyrir því í hvað á að nota þessa seðla. Það veit ekki nokkur maður. Svo kemur hérna liður sem heitir Iðnþróunarverkefni. Hann er 2,4 millj. Og svo er hérna liður sem engin grein er gerð fyrir en er vafalaust hinn þarfasti og heitir Smáiðnaður í dreifbýli, 10,7 millj. Og þegar búið er að veita peninga í iðnþróun og tækninýjungar og iðnþróunarverkefni þá kemur hérna nýr liður sem heitir Iðnþróun og markaðsmál. --- Þeir hafa ekki einu sinni vit á því að skýra þetta mismunandi nöfnum. --- 10,7 millj.
    Hæstv. iðnrh. er því með seðla upp á marga tugi milljóna og bætir um betur undir liðnum Ýmis orkumál. Það eru 10 millj. það sem heitir Markaðs- og skipulagsmál. Þannig að hann er á þremur stöðum með peninga í iðnþróun, á þremur stöðum með peninga í markaðsmál, fyrir utan það að vera með lið sem heitir Ráðstöfunarfé. Það hefði bersýnilega verið hreinlegra að kalla þetta allt ráðstöfunarfé ráðherra 90 millj., því þetta er auðvitað þannig að samkvæmt reglum og venjum í Stjórnarráði Íslands fer iðnrh. með þessa liði. En það er auðvitað algjörlega fráleitt að setja fjárlagafrv. fram með þessum hætti. Þó að hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. sé duglegur --- það er alveg óumdeilanlegt, duglegur er hann --- þá finnst mér það of langt gengið að verðlauna dugnaðinn með því að hann sé með opinn tékka á fimm reikninga í ríkissjóði. Það er óþarflega flott fyrir hann.
    Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvort hann er ekki sammála mér um að það eigi að breyta þessu þannig að þessir liðir séu settir upp með þeim hætti að fólk átti sig á því í hvað þessir peningar fara. Auðvitað getur hæstv. núv. fjmrh. komið upp og sagt: Já, en þetta hefur lengi verið svona.
    Það er út af fyrir sig nokkuð til í því því að hann er búinn að vera nokkuð lengi iðn.- og viðskrh. og alveg kominn tími til að skipta honum út. ( Fjmrh.: Þetta var svona hjá Hjörleifi líka.) Ég er sannfærður um að það var ekki svona hjá honum, nei, ég kann þetta nú ekki í 20 ár að vísu, en alla vega held ég að það sé afar óeðlilegt að ráðherrar séu með opna tékkareikninga á fimm reikninga úr ríkissjóði.
    Þetta er langt símtal hjá hæstv. heilbr.- og trmrh., hann hefur þurft að tala vestur á firði kannski. ( Forseti: Það er búið að gera ráðherra viðvart.) ( Gripið fram í: Hann er að tala við iðnrh.) Hann er að tala við iðnrh., já. Hver ætli borgi símtalið? ( Forseti: Forseti er búinn að gera hæstv. ráðherra viðvart svo hann mun áreiðanlega koma strax og hann getur.) Já. Það er auðvitað dálítið vandasamt, virðulegi forseti, í sambandi við umræður af þessu tagi að forráðamenn Alþfl. skuli --- já, kemur hann blessaður.
    Ég vil þá, af því að ég er búinn að ræða hér talsvert um iðn.- og viðskrh. víkja þessu næst aðeins nánar að lyfjamálunum sem ég var að fjalla um fyrir nokkru. Spurningin er sú: Nást þessar 800 millj.? Verður hægt að ná þessum 800 millj. í sparnað í lyfjunum? Það er auðvitað spurning sem við hljótum að velta fyrir okkur. Í sjálfu sér er alveg hugsanlegt að það gerist. Hins vegar er ljóst að það hefur margt verið að gerast í sumar í lyfjamálum sem bendir til þess að vinnubrögðin séu býsna fálmkennd og fljótfærnisleg, burt séð frá hinu efnislega innihaldi málsins, þ.e. því að láta sjúklinga borga meira í lyfjum.
    Mér er tjáð að sl. vor hafi verið í gangi 3000 lyfjakort í landinu. Í fyrri hluta júlímánaðar voru gefin út 1700 kort. Í síðari hluta júlímánaðar voru gefin út 4047 kort. Í fyrri hluta ágústmánaðar voru gefin út 1858 kort. Í síðari hluta ágústmánaðar voru gefin úr 1522 kort. Í fyrri hluta septembermánaðar voru gefin út 1158 kort. Í síðari hluta septembermánaðar voru gefin út 1165 kort. Og í fyrri hluta októbermánaðar, 15. okt., voru gefin út 1011 kort. Samtals hafa verið gefin út, frá í vor að reglugerðin var sett, 12.489 lyfjakort. Og auk þess á Akureyri 970 kort á þessum tíma öllum, eða samtals 13.459 lyfjakort á þessum tíma.
    Ég held að það sé nauðsynlegt, virðulegi forseti, að menn reyni að átta sig á því hvernig á þessum hlutum er haldið. Ég er út af fyrir sig ekki að gagnrýna það að gefin séu út lyfjakort. Spurningin er hins vegar hvort það hafi verið rétt í þessa hluti farið. Ég held að það hafi ekki verið gert, ég held að það hafi verið farið í þessi mál af allt of miklu offorsi og niðurstaðan blasir við í þessari útgáfu lyfjakorta upp á 14.000 eða svo, 14.000 kort frá því að reglugerðin var gefin út 1. júlí sl. En í öðru lagi kemur þetta auðvitað fram í því að það hafa verið gefnar út tvær leiðréttingarreglugerðir á þessari reglugerð sem gefin var út 7. júní, reglugerð nr. 300 í Stjórnartíðindum. Síðan hafa verið gefnar út leiðréttingarreglugerðir, reglugerð nr. 368 og reglugerð nr. 372, vegna þess að menn sáu að upphaflega reglugerðin gekk ekki af því að í henni voru margar fljótfærnisvillur burt séð frá innihaldi málsins að öðru leyti. Til dæmis ber það vott um faglega fljótfærni svo ég nefni eitt dæmi, og ég ætla að nefna fleiri hér, að það er ákveðið í reglugerð nr. 300 frá því snemma í sumar að neflyf skuli greidd að fullu. Lyf skuli ákvörðuð í verðflokki til sjúklinga eftir því hvar þau eru tekin inn, en ekki eftir verkun lyfjanna. Lyf sem var tekið í gegnum nefið urðu menn að borga að fullu en lyf sem hafði sömu áhrif en er notað ,,óralt``, eins og það heitir í apótekum, var hægt að fá það niðurgreitt. Þeir sáu undir eins í heilbrrn. eftir nokkra daga að þessi nefreglugerð gekk ekki upp og þess vegna urðu þeir að breyta þessu þannig að niðurstaðan varð sú að það sem tekið væri í gegnum nefið og hefði tiltekna verkun yrði jafnvel líka niðurgreitt.
    Í annan stað vil ég nefna það dæmi að það er ákveðið að minnka lyfjaskammta og það styðst við alveg tiltekin rök sem ég er fullkomlega sammála og hafa komið fram hjá hæstv. heilbrrh., menn hafa ávísað á óheyrilega stóra lyfjaskammta. En það á auðvitað sérstaklega við þegar um er að ræða fólk sem fær skjótt bót meina sinna. Þegar aftur á móti er um að ræða einstaklinga sem þurfa að nota lyf að staðaldri og eru væntanlega flestir eða allir þeir sem eru með lyfjakortin, þá hefur þetta bersýnilega kostnaðarauka í för með sér. Það þýðir það að menn verða að leita oftar til læknis á ári en áður, sex sinnum í stað fjórum sinnum og auk þess er það auðvitað þannig að lyfjagreiðslan miðast við 60 stykki í pakkningu, þó svo um 100 stykkja pakkningar sé að ræða, þær má ekki rjúfa, það er almennt öryggisatriði, en fyrir 100 stykkja pakkningu borga menn eitt fastagjald. Það er líka ljóst að með þessu móti verða lyf fyrir sjúklinga sem þurfa lyf að staðaldri, ég er ekki að tala um hina, 10--15% dýrari en ella. Með öðrum orðum: Þetta er ekki allt saman sparnaður heldur að hluta til verulegur kostnaðarauki fyrir tryggingarnar.
    Ég hef áður minnst á lyfjakortin. Ég gæti nefnt t.d. lausasölulyfin sem nú eru óniðurgreidd. Það hefur það iðulega í för með sér að læknar verða að vísa á niðurgreidd dýrari lyf. Ég tek dæmi: Sýrubindandi lyf sem fæst í handkaupi kostar óniðurgreitt 7.728 kr., átta vikna skammtur. Sýruhemjandi lyf sem hægt er að nota í staðinn kostar hins vegar ekki 7.728 kr. heldur 14.168 kr., en þetta sýruhemjandi lyf fæst samkvæmt lyfseðli en ekki hitt. Menn velja þess vegna dýrara lyfið af því að ódýrara lyfið er aðeins selt í handkaupi. Niðurstaðan verður sú að þessi átta vikna lyfjaskammtur af þessum lyfjum, sýrubindandi lyfjum og sýruhemjandi lyfjum, er 6.440 kr. dýrari fyrir ríkið en hann þyrfti annars að vera. Hann er verulega mikið dýrari fyrir ríkið heldur en annars þyrfti að vera. Ég held að þessi dæmi nægi alveg, virðulegi forseti, til að sýna fram á að það er útilokað að fullyrða að reglugerðin um lyfin, hvaða reglugerð af þessum þremur sem er, skili þessum 800 millj. kr. sem verið er tala um. Það er algjörlega útilokað.
    Ég held að menn muni komast að því að þarna séu hlutirnir talsvert mikið öðruvísi en gert var ráð fyrir í upphafi og ég held að menn muni sjá að í þessi mál var farið af mikilli fljótfærni og offorsi. Ég er ekki almennt að gagnrýna það að menn reyni að hemja lyfjakaup en það er að sjálfsögðu ekki sama hvernig að því er staðið. Ég held að í þessu máli sé það nákvæmlega eins og með sjúkrahúsin að við munum í október 1992, þegar við fjöllum um fjárlagafrv. 1993, sjá að vinnubrögðin skiluðu ekki þeim árangri sem menn ætluðu sér að ná af því að það var farið svona í hlutina. Ég spyr í þessu máli: Er það hugsanlegt að menn fáist til að setjast yfir þetta í sameiningu, bæði stjórn og stjórnarandstaða? Ég vil segja fyrir mig, eins og hefur komið fram í þessari ræðu áður, að ég skil það mjög vel að menn reyni að ná utan um heilbrigðisútgjöldin. Ég held að lyfin séu þar alveg sérstaklega vandasamur þáttur.
    Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur gert ráð fyrir því að lyfjalögum verði breytt. Ég vil inna hann eftir því hvernig það stendur og spyrja hann hvenær þess sé að vænta að frv. um það efni komi inn í þingið, en aðeins benda á það að hann hefur sagt að það eigi að taka upp hlutfallsgreiðslur og þak. Það er í grófum dráttum danska kerfið. En þá spyr ég: Hverjir eru það sem munu verða fyrir hlutfallsgreiðslum og þaki eftir að búið er að gefa út 15--17 þús. lyfjakort? Ef ráðherrann ætlar að fara yfir í hlutfallsgreiðslur og þak, er hann þá að segja að hann ætli að innkalla öll lyfjakortin aftur sem menn hafa núna til þess að geta komið þessum greiðslum við eða hvað? Væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra vildi vera svo vinsamlegur að fara nokkrum orðum um það hér á eftir.
    Ég vék að því í máli mínu áðan, virðulegi forseti, að í rauninni væri í þessu frv. hróflað við mörgum þeim grundvallaratriðum mannúðarstefnu sem nánast allir flokkar hefðu a.m.k. í orði kveðnu játað hér á undanförnum árum og áratugum. Ég vék að því að þetta frv. væri kjaraskerðingarfrv. vegna þess að það skerti kjör launafólks eins og ég rakti. Og ég verð að segja það enn fremur að ég tel að hinar almennu efnahagslegu forsendur frv., sem ég ætla þá að víkja næst að, séu afar veikar. Í fyrsta lagi byggir frv. á því að það verði um að ræða mikið af svokallaðri einkavæðingu --- en það er orð sem jafnvel gamaldags stjórnmálamenn hafa tamið sér og lært eins og kom fram í útvarpsþætti á dögunum, jafnvel hæstv. menntmrh. er búinn að læra þessa rullu. Einkavæðing, deildir Ríkisútvarpsins. Það hefur ekki komið fram hvaða deildir það eru, hvort það er innheimtudeildin eða hvað það er. --- Einkavæðing, það er mikið atriði í þessu frv. og það á að taka inn pening á því. Og það stendur í frv. að hæstv. fjmrh. ætli að stofna deild, einkavæðingardeild í fjmrn. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig gengur að stofna þessa einkavæðingardeild? Hafa verið ráðnir menn í þennan einkavæðingarher? Einhvers staðar annars staðar las ég svo að þetta einkavæðingartrúboð ætti að vera á vegum forsrh. þannig að þetta er eiginlega þverfagleg deild sem stofna á í fjmrn. Væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hvort hún á ekki samt örugglega að heyra undir fjmrh. þó að hann sé bara varaformaður í Sjálfstfl., eða hvað? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. Og hverjir eiga að stýra þessari einkavæðingardeild? Það væri gaman að heyra það . Á að stofna hana núna um áramótin? ( Gripið fram í: Viðskrh. hæstv. fær að vera með.) Hann fær að vera með með tékkheftin, sjö tékkhefti á ríkissjóð, opin. Það er fróðlegt að vita. Verður staðan auglýst? Verður staða deildarstjóra einkavæðingardeildar auglýst? Verður frjáls samkeppni um stöðuna? Hvaða hæfileikum þurfa menn að vera gæddir? Hvaða prófgráðu þurfa menn að hafa til að stjórna einkavæðingardeildinni? ( Gripið fram í: Bílpróf.) Bílpróf. Það er góð hugmynd. Hvaða hugmyndir gerir hæstv. fjmrh. sér um þetta efni? Það væri fróðlegt að fá að vita um það. En ég segi við hann: Þetta er ein af þeim forsendum fjárlagafrv. sem mun bresta. Hann getur ekki komið fram þeirri einkavæðingu sem hann er að tala um í frv. Ekki vegna þess að hann muni reka sig á kreddur neins staðar heldur vegna þess að hann mun reka sig á íslenskan félagslegan veruleika. (Gripið fram í.) Þetta var góð spurning, hv. þm. Það væri kannski eðlilegt, virðulegi forseti, að benda hæstv. fjmrh. á það að þetta yrði kannski bara boðið út sem verkefni. Það væri auðvitað eðlilegt að það væri einkaskrifstofa sem sæi um einkavæðinguna. En ég fullyrði gamanlaust að hæstv. fjmrh. hefur ekkert upp úr þessu krafsi. Ekki neitt.
    Í öðru lagi eru það þjónustugjöldin sem eru ein forsenda þessa fjárlagafrv. Mér er sagt að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafi lýst því yfir að fjórir þingmenn Alþfl. væru á móti skólagjöldum. Í Alþfl. er deild sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson stýrir. --- Er hann nú farinn? Nei, hann er þarna, blessaður. --- Það er deild sem ætlar að stoppa skólagjöldin. Hér í vinstri hreyfingunni fyrir 20 árum voru flokkar stundum auðkenndir með bókstafnum R í sviga fyrir aftan tiltekið nafn. Hv. þm. Össur Skarðhéðinsson hefur kosið sér að vera formaður í Alþfl. ,,revólúsjónerarna``. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi hugsað sér að keyra málið fram eftir sem áður og hvernig hann hugsar sér að innheimta skólagjöldin. Ég held að þetta sé óframkvæmanlegt burt séð frá afstöðu hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar, sem menn gera nú greinilega ekki allt of mikið með í stjórnarflokkunum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig hann hyggst koma þessu við. Þetta er enn ein ástæðan fyrir því að ég segi: Forsendur frumvarpsins eru veikar.
    Í þriðja lagi segir hæstv. fjmrh. í fjárlagafrv.: Verðbólgan verður eins. Mjög lítil verðbólga á næsta ári. Ég segi: Ég dreg það mjög í efa. Vegna þess að menn eru hér að slá því föstu að kauplag og gengi verði örugglega 100% óbreytt milli áranna 1991 og 1992. Ég leyfi mér mjög að draga í efa að það gangi upp miðað við þá stöðu sem nú er uppi í sjávarútveginum og þær raddir sem nú heyrast um að gengið sé í raun og veru þegar fallið. Ég er ekki að segja neitt slíkt en þær raddir hafa heyrst, m.a. frá flokksfélögum þeirra forustumanna Sjálfstfl. sem sitja mér hér á hægri og vinstri hönd. Auðvitað er það líka algjörlega fráleitt að kauplag verði óbreytt hér allt næsta ár, það gengur alls ekki. Því segi ég: Þessar forsendur ganga heldur ekki upp. Margoft hefur verið bent á að það að hingað komi álver, og reiknað er með því í þessu fjárlagafrv., en það er mjög óviss þáttur að ekki sé meira sagt.
    Í fjárlagafrv. er eins og ég hef komið að áður gert ráð fyrir breytingum á tekjuskattskerfinu í heild. Það liggur ekkert fyrir um að stjórnarflokkarnir nái samstöðu um eitt eða neitt í þeim efnum. Í fjárlagafrv. er birtur listi upp á margar blaðsíður yfir frv. til laga sem á að breyta. Ég segi: Það liggur ekkert pólitískt samkomulag fyrir í stjórnarflokkunum um það hvernig þessum lögum á að breyta í einstökum atriðum. Ekki neitt. Og ég segi við hæstv. fjmrh.: Þær grundvallarforsendur, pólitískar og efnahagslegar, sem þetta frv. byggir á, halda ekki. Ég er þess vegna sannfærður um að það verður ekki aðeins hæstv. heilbrrh. sem mun verða fyrir því að menn fari yfir málin í október 1992 og segi: Þetta náðist ekki, heldur verður það fyrst og fremst hæstv. fjmrh. vegna þess að pólitíski veruleikinn í kringum hann er ekki þannig að hann geti gert ráð fyrir því að ná þessum markmiðum.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram var mikill skjálfti að sögn í vinstri armi Alþfl. Þá var mikill titringur. Hæstv. félmrh., sem er því miður ekki stödd hér, kom oft í sjónvarpið, eins og hún gerði nú oft þegar kom að fjárlögum hér fyrr á árum, og sagðist aldrei mundu samþykkja þetta. Svo samþykkti hún það auðvitað. Og þegar fjárlagafrv. var samþykkt í ríkisstjórninni nú í haust sagði hæstv. félmrh. að það væri alveg óhjákvæmilegt að koma inn í fjárlagafrv. tekjujöfnunaraðgerðum. Og dag eftir dag birtust dramatískar fréttir í DV og víðar um að það léki allt á reiðiskjálfi í Alþfl. út af fjárlagafrv. ,,Ósamkomulag tefur fjárlagagerð. Reynt til þrautar að ná samkomulagi í dag``, 3. sept. ,,Skólagjöld ágreiningsatriði``, segir Össur Skarphéðinsson, 3. sept. ,,Hugmyndir mínar hafa ekki fengið hljómgrunn``, sagði Jóhanna Sigurðardóttir á sömu síðu í sama blaði. ,,Óbundin af þeim ákvörðunum sem teknar voru``, sagði Jóhanna Sigurðardóttir 4. sept. ,,Skólagjöld og sjúkraskattur eru enn inni``, sama blað. Daginn eftir kemur Jóhanna Sigurðardóttir --- þá fer maður nú að kannast við þetta allt saman frá gamalli reynslu. ,,Jóhanna Sigurðardóttir: Bjartsýnni um að samkomulag náist.`` Og þá er kominn kunnuglegur hljómur þar sem segir hér orðrétt: ,,Að mati Jóhönnu þarf að koma upp öflugu neti jöfnunaraðgerða til að tryggja hag þeirra sem lakast eru settir samfara auknum gjaldtökum. Hún segir að slíkt muni óhjákvæmilega leiða til aukinna útgjalda en á móti megi fá tekjur þannig að heildardæmi fjárlagagerðarinnar raskist ekki.`` Alltaf ábyrg. ( Gripið fram í: Hvar er hún núna?) Ég er nú alveg hættur, hv. þm., að spyrja mikið um ráðherrana, þeir eru ekki vanir að vera hér svo mikið nema hæstv. heilbrrh. Hann lætur sjá sig stundum. En ætli hæstv. félmrh. eigi heimangengt, eða er hún með fjarvistarleyfi? ( Forseti: Hún er með fjarvistarleyfi í dag.) Nú, þá er það gott en hæstv. heilbrrh. getur örugglega talað fyrir Alþfl. Svo kemur frétt í DV 6. sept.: ,,Þrír kratar með bókun gegn skólagjöldum.`` Byltingarliðið mætt á staðinn. (Gripið fram í.) Og tekið er fram að Jóhanna hafi lýst sérstakri andstöðu við þetta mál. Daginn eftir þetta, laugardaginn 7. sept. kom hæstv. félmrh. í sjónvarpið og sagði: ,,Ég hef tryggingu fyrir því að það verði gripið til jöfnunaraðgerða. Ég hef fengið alveg örugga pólitíska tryggingu fyrir því.`` Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh.: Hvaða jöfnunaraðgerðir eru það sem þið lofuðuð félmrh., sem eru ekki hér, sem er ekki hér í þessari bók? Hvaða jöfnunaraðgerðir eru það sem þið lofuðuð og eru ekki í þessari bók? Því að það eru engar í þessari bók. Þessi bók er bara með ójöfnunaraðgerðir. En hvaða jöfnunaraðgerðir eru það sem Alþfl., byltingardeildinni, var lofað þegar menn voru látnir kokgleypa þetta fjárlagafrv.? Það er útilokað að ljúka þessari umræðu hér í þessari virðulegu stofnun öðruvísi en að ríkisstjórnin geri grein fyrir því: Hverjar eru þessar jöfnunaraðgerðir? Hvar eru þær? Það verður að koma fram í hverju þær verða fólgnar. Og ég skora á hæstv. ráðherra að gera grein fyrir því hvar þær eru því að það er vonlaust að fjalla um þetta mál öðruvísi en að menn geri hér grein fyrir jöfnunaraðgerðunum í einstökum atriðum, þeim jöfnunaraðgerðum sem réðu úrslitum um það að Alþfl. samþykkti þetta frv., að sögn. Ég trúi því ekki að forustumenn Alþfl. hafi blekkt eða reynt að blekkja flokksstjórn Alþfl. eða þingflokk til stuðnings við þetta plagg. Það hlýtur að vera að menn hafi í raun og veru eitthvað í þessum efnum. Kannski hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé með einhverjar upplýsingar í pokahorninu um þetta mál sem hann mundi vilja koma á framfæri? ( Gripið fram í: Hann er alltaf að skrifa.) Hann er alltaf að skrifa og ég vona að hann sé á mælendaskrá. Er hv. þm. Össur Skarphéðinsson á mælendaskrá, virðulegi forseti. ( Forseti: Ég sé það nú ekki.) Nei. ( ÓRG: Setja hann á mælendaskrá.) Þá óska ég eftir því, virðulegur forseti, að hv. þm. Össur Skarphéðinsson verði bara settur á mælendaskrá til þess að hann geti komið fram með sín sjónarmið í málinu. Vegna þess að hann hefur alltaf verið að reyna að leika hlutina þannig að Alþfl. væri í raun og veru bæði með og á móti þessari ríkisstjórn.
    Í umræðunum um stefnuræðu forsrh., sem hefði í raun og veru nákvæmlega getað verið flutt á landsfundi Sjálfstfl. því það var ekkert frá krötunum í henni, voru t.d. tveir menn í fyrri umferðinni frá Alþfl. Fyrst hæstv. utanrrh. sem sagðist vera með skólagjöldum og sagði sem væru á móti skólagjöldum væru kommúnistar, síðan hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem var á móti skólagjöldum og var þar af leiðandi eini kommúnistinn sem hér er í þinginu eða hefur fengið þá nafngift í seinni tíð. Ég óska honum til hamingju með það í sjálfu sér. En það er kominn tími til það þessir menn í Alþfl. sem eru að reyna að leika tveim skjöldum og þykjast alltaf vera betri en hinir fantarnir, þeir komi nú fram. (Gripið fram í.) Vegna þess að það verða auðvitað tættar af þeim spjarirnar hér í atkvæðagreiðslum um fjárlagafrv. þegar þar að kemur. Það mun þá koma greinilega í ljós hvaða heilindi eru á bak við þeirra ummæli í þessum efnum. Ekki aðeins í sambandi við skólagjöldin, heldur ýmis önnur mál sem þeir hafa haft uppi alls konar svardaga um. Og það er auðvitað ódýrt, að ekki sé meira sagt, að menn skuli reyna að þvo sig hreina af óvinsælum og erfiðum ákvörðunum ríkisstjórna með þeim hætti sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur reynt að gera, það er ódýrt, nema menn ætli að fylgja því eftir. Þess vegna skora ég á hv. þm. að sýna nú einu sinni kjark og þora að tala hér í óbundinni umræðu í þinginu þar sem hægt er að svara honum og tala við hann.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir nokkur meginatriði í þessu fjárlagafrv. Ég tel mig hafa sýnt fram á það að í grundvallaratriðum sé hér ráðist að ákveðnum samnefnara mannúðarstefnu sem hefur í raun og veru einkennt málflutning, ákvarðanir stjórnmálaflokka á undanförnum árum og áratugum. Ég tel mig hafa sýnt fram á það að frv. boði kjaraskerðingu umfram það sem þörf er á miðað við samdrátt í þjóðartekjum og ég hef látið það koma fram að ég dreg það í efa að heilbrrh. nái sínum markmiðum, m.a. vegna þess hvernig að málum er staðið af hans hálfu, burt séð frá því hvert sé efni málsins að öðru leyti.
    Ég vil aðeins, af því að hæstv. heilbrrh. brá sér fram áðan, leggja fyrir hann eina spurningu að lokum. Það er varðandi heilsugæsluna. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir því að taka inn í tekjur í heilsugæslunni um 375 millj. kr., og ég vil spyrja hann: Er þessi tala miðuð við þau gjöld sem tekin voru í heilsugæslunni áður eða er gert ráð fyrir meiri þjónustu þarna sem eigi að skattleggja heldur en áður var tekin á heilsugæslustöðvum? Ég spyr að gefnu tilefni. Samkvæmt upplýsingum sem hér komu fram í gær í ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. fellur það niður um næstu áramót að ungbarnaeftirlit og mæðravernd séu gjaldfrí í þessum efnum. Og ég vil spyrja hæstv. heilbrrh. hvort það sé ekki algjörlega á hreinu að ungbarnaeftirlit og mæðravernd eigi áfram að vera gjaldfrí þrátt fyrir þessa lagabreytingu um áramótin, því ef það er ekki þá sýnist mér að þær tekjur sem ríkið mundi taka inn á þessari breytingu á heilsugæslustöðvunum yrði ekki 375 millj., heldur miklu hærri upphæð, þannig að menn væru að taka 10--20 og allt upp í 100--200 millj. kr. inn með sérstakri skattlagningu á foreldra ungbarna og mæðravernd og ungbarnaeftirliti yfirleitt. Þessa spurningu vildi ég skilja eftir hjá hæstv. heilbrrh. um leið og ég læt í ljós ósk um það að bæði hann og hæstv. fjmrh. svari þeim mörgu spurningum sem hér hafa verið bornar fram og sem komið hafa fram í máli annarra þingmanna.
    Hér fyrr í dag var nokkuð vikið að kostnaðarmálum heilbrigðisþjónustunnar almennt og þá alveg sérstaklega að þeirri breytingu sem gerð var á lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og rætt var um það að sú breyting hefði ekki verið heppileg að öllu leyti fyrir heilbrigðisþjónustuna. Ég vil láta það verða mín síðustu orð hér í þessum stól núna í bili að ég er algjörlega sammála þessu. Ég tel að margir þættir varðandi breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hafi verið mjög vanhugsaðir. Ég tel að menn hafi í raun og veru sett dæmið þannig upp: Hér er ég með svo og svo mikil útgjöld hjá sveitarfélögunum til heilbrigðismála, sjúkratrygginga, tannviðgerða aðallega og slíkra þátta, það þarf að losa sveitarfélögin við þetta. Sveitarfélagamenn þrýstu þessu í raun og veru út af sveitarfélagareikningunum og inn á reikninga ríkisins. Með þessu móti var verið að slíta í sundur samstarf ríkis og sveitarfélaganna um heilbrigðisþjónustuna í landinu, og það er rangt. Ríkið og sveitarfélögin þurfa að vinna saman að verkum af þessu tagi annars er hætta á óhæfilegri miðstýringu á þessu sviði. Á móti þessu var svo ákveðið, eins og hv. þm. þekkja, að sveitarfélögin tækju í staðinn upp byggingar grunnskóla, dagheimila, tónlistarskóla og fleiri slíka þætti. Ég segi alveg eins og er að ég tel að þessi niðurstaða hafi verið fráleit vegna þess að sveitarfélögin eru svo misjöfn í þessu efni, það var fullkomlega fjarstætt að henda í þau öll verkefnum af þessu tagi. Þó svo að sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg ráði vel við þessi verkefni, þá á það ekki við um hin litlu sveitarfélög. Ég tel að það hefði verið mikið nær að flytja til sveitarfélaganna ýmsa aðra þætti. Ég nefni í því sambandi t.d. vissa þætti í safnaðarstarfi presta. En eins og þetta gerðist var niðurstaðan að mínu mati ófagleg frá sjónarmiði heilbrigðismála annars vegar og menntamála hins vegar. Ég er sannfærður um það að áður en mjög langur tími líður, þegar kemur fram á næsta ár, þegar þessi verkaskipting hefur verið í gildi í tvö til þrjú ár, þá muni menn sannfærast um þetta.
    Ég hef aldrei verið hrifinn af þessari klisju um hreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Mér finnst það lýsa reglustikusjónarmiði, menn vilji búa til þil og hólf. Ég er meira fyrir óhreina verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Að ríkið og sveitarfélögin hjálpist að. Og ég er sannfærður um það að þeir hnökrar, sem nú hafa komið upp á milli heilbrrn. og St. Jósefsspítalans og Stykkishólmsspítalans og Borgarspítalans og Landakotsspítalans, hefðu ekki komið upp ef stjórnkerfið hefði verið öðruvísi, ef menn hefðu ekki verið búnir að hrúga þessu öllu á ríkið, eins og það er. Ég tel að það sé útilokað í raun og veru að ráða nokkuð við yfirstjórn heilbrigðismála á Íslandi meðan þessum hlutum er svona fyrir komið. Þess vegna mun ekki líða langur tími, eins og ég sagði áðan, áður en menn átta sig á því og segja: Þessu verður að breyta aftur, þetta gengur ekki. --- Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.