Fjárlög 1992

12. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 01:48:00 (388)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Það er nú fari að líða svolítið fram á nóttina og farið að fækka mjög í þingsalnum. Ég ætla ekki að tala mjög langt mál þannig að ég reikna með að þingmenn komist til náða áður en líður mjög langt fram á næsta klukkutíma a.m.k. Mig langaði í upphafi minnar ræðu að tala um þann ótta sem setti að mér þegar þessi ríkisstjórn varð til í vor. Mér fannst nefnilega að á allri hennar tilurð og þeirri samsetningu sem er á bak við hana gætum við átt von á því að jákvæð afstaða til landsbyggðarinnar yrði ekki söm og ef áfram hefðu verið við völd þeir flokkar sem voru við völd fyrir kosningar. Þessi neikvæða afstaða sem ég átti von á hefur komið fram í sumar, hún hefur komið fram með ýmsum hætti, með alls kyns yfirlýsingum frá forsrh., með umfjöllun um hin og þessi málefni sem ríkisstjórnin hefur verið með til umræðu. Við höfum orðið vör við neikvæðari afstöðu til byggðamálanna. Við höfum orðið vör við umtal um að það eigi nú að hætta stuðningi við alls kyns fyrirtæki á landsbyggðinni sem hafi verið dælt í peningum og annað hefur verið talað í þessum dúr. Svo þegar fjárlagafrv. lítur dagsins ljós þá koma fyrirætlanirnar fram í því. Við sjáum að það er verið að tala um minnkandi fé til framkvæmda, t.d. í vegamálum. Það er merkilegt að heyra stjórnarþingmenn koma hér hvern á fætur öðrum og halda því fram að það sé um aukningu að ræða í vegamálum. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór yfir það hér áðan og benti á það að reiknað er með jafnvel 17% samdrætti framkvæmda miðað við áður gerðar áætlanir. Við höfum séð að raforkuverð hefur verið að hækka í sumar, að þjónusta Skipaútgerðarinnar á að dragast saman og jafnvel að leggjast af. Við sjáum samdráttinn í landbúnaðinum sem fólkið á landsbyggðinni finnur auðvitað mest fyrir og við sjáum þessa minnkuðu þorskveiði sem áætlað er að verði á næsta ári og þar af leiðandi samdrátt í öllu þjóðfélaginu sem af því leiðir. En auðvitað hefur þetta mest áhrif úti á landsbyggðinni.
    Á sama tíma er gert ráð fyrir því í þessu fjárlagafrv. að hér verði byggt álver og ég ætla að endurtaka það sem ég hef áður sagt að ég tel að ábyrg stjórnvöld, sem eru við völd á þeim tíma sem slíkar stórframkvæmdir fara af stað, eigi að taka tillit til þess í sínum áætlunum og reyna að draga úr neikvæðum áhrifum sem auðvitað verða við slíkar miklar framkvæmdir og þá þurfa menn auðvitað að draga úr framkvæmdum annars staðar til að koma þar á móti. Þetta finnst mér vera það sem blasir við að allir ábyrgir stjórnmálamenn hljóti að gera ef það stefnir í svona stórframkvæmdir. En á sama tíma sem við sjáum fram á þessa hörmungatíð um byggðir landsins þá er sem sagt gert ráð fyrir því að landið sporðreisist í framkvæmdum við nýtt álver.
    Það er ýmislegt búið að koma fram í umræðunni hér í kvöld sem væri ástæða til að fara mörgum orðum um. Eitt er það sem hv. heilbrrh. hefur verið iðinn við að tala um á undanförnum mánuðum, en hann talar gjarnan um að ein kynslóðin sendi reikninginn á aðra. Þetta sagði nú reyndar hæstv. fjmrh. líka hér í kvöld. Ég segi það að þetta er hluti af þeim óvandaða málflutningi sem hefur verið stundaður af hæstv. ráðherrum. Þeir hafa leyft sér að tala sífellt um einhverja gúmmítékka sem þessi kynslóð, sem núna ber ábyrgð á stjórn landsins, sé að senda á þær næstu. Ég ætla ekki að draga úr þeim góða ásetningi að hætta að safna skuldum, en á bak við þessar fullyrðingar hef ég ekki séð neinn rökstuðning. Ég hef ekki séð menn fara yfir það hvað það er sem við erum að vísa á framtíðina. Menn þurfa auðvitað að reikna það út til þess að skoða hvað það er sem unga fólkið tekur í arf frá þessari kynslóð. Þá sjáum við að á sl. 20--30 árum hafa orðið til gífurleg verðmæti í þjóðfélaginu. Við getum séð framkvæmdirnar í raforkuverunum í landinu, við getum séð framkvæmdirnar í vegamálunum, í heilbrigðismálunum, hafnirnar, skólana, sjúkrahúsin. Allt þetta hljóta menn að verða að skoða og bera saman til þess að sjá hvort við erum að skila til framtíðarinnar miklu lélegra búi og skrifa mikið af gúmmítékkum, eins og menn tala gjarnan um í óvirðulegum tón um þessa kynslóð sem heldur um stjórnvölinn núna. En þetta má alls ekki taka þannig að ég telji að það eigi að halda áfram að safna skuldum. Mér finnst bara að menn eigi að vanda sinn málflutning svolítið betur, menn eigi a.m.k. að hafa það alveg á hreinu að verið sé að skila af sér verra búi til framtíðarinnar heldur en áður.
    Það er reyndar furðulegt að heyra rökstuðning manna fyrir ýmsu af því sem ríkisstjórnin er að taka sér fyrir hendur í þessu fjárlagafrv. T.d. hlustaði ég á það hér í kvöld að hæstv. heilbrrh. sagði að það væri til að styðja við bakið á þeim lakast settu sem menn settu þjónustugjöld. --- Til að styðja við bakið á þeim lakast settu. Til að vernda þetta kerfi, velferðarkerfi, þá væri verið að setja þjónustugjöldin. Óskaplega finnst mér þetta undarlegur málflutningur og ég verð að segja það að ég skil það ekki að þingmönnum skuli vera boðið upp á svona rökstuðning. Auðvitað koma þjónustugjöldin þyngst niður á þeim sem minnst hafa í vösunum. Þjónustugjöldin verða auðvitað hæst prósentan af kaupi þess manns sem lægst hefur kaupið.
    Hv. 1. þm. Vesturl. hafði áhyggjur af því í ræðu sinni hér í kvöld að skattalækkanir væru fjær en vonir stóðu til, eins og hann orðaði það, því að sjálfstæðismenn lofuðu skattalækkunum í kosningunum í vor. Þeir verða nú að bíta í það súra epli að verða að hækka skattana og það hefur komið mjög skýrt og greinilega fram í þessum umræðum að vissulega eru á ferðinni skattahækkanir. Ég ætla út af fyrir sig ekkert að álasa hæstv. fjmrh. fyrir það að reyna að ná í auknar tekjur til þess að standa undir gjöldum ríkisins. Ég ætla aftur á móti að álasa honum fyrir það að hafa ekki valið aðrar leiðir en þessi þjónustugjöld. Ég tel að það hefði a.m.k. verið ástæða til að nota þær leiðir sem menn hafa verið að ræða í umræðunni hér í kvöld, eins og að skattleggja fjármagnstekjur. Það hefði a.m.k. getað orðið til þess að það hefði verið hægt að hafa minna af þessum þjónustugjöldum þó að menn hafi viljað gera lítið úr því hvað væri hægt að ná í af tekjum með þeim hætti sem stjórnarandstæðingar hafa bent á í umræðunni.
    Hæstv. heilbrrh. hélt hér ræðu um það að stjórnarandstaðan væri að rassskella sjóinn, eins og hann orðaði það, innan um þessa ræðu sína sem hann hélt um mixtúruna og alls kyns lyf sem hann er búinn að læra allt utan að og uppfræddi þingmenn mjög vel um hvaða mixtúrur væru ódýrastar ef einhver krankleiki yfirtæki líkamann. En ég var á einum fundi þar sem hæstv. heilbrrh. var mættur til þess að fara yfir þessi mál. Á þeim fundi talaði hann í hástemmdum tón um það að menn væru að rassskella sjóinn og berja sjálfa sig með hrísi. Og hann skammaði alla sem þar voru inni. En það vildi svo til að eftir því sem ég komst næst þá var enginn maður í þeim sal sem ekki var í Alþfl. eða studdi hann nema ég. Þetta var nefnilega á opnum fundi Alþfl. á Akranesi. Ég held að raunveruleikinn sé sá að hæstv. heilbrrh. hafi fengið mest af þeirri gagnrýni sem honum hefur auðvitað sviðið mest undan frá sínum eigin flokksmönnum, þó svo að hann kjósi að skamma stjórnarandstöðuna í stað þeirra fyrir það sem honum svíður undan.
    Það er eitt mál sem mig langar til þess að ræða um hér núna sem stjórnarliðar hafa hampað og það er að gert sé ráð fyrir því í þessum fjárlögum að auka niðurgreiðslur á raforku til húshitunar. Aukningin er heilar 44 millj. Það er verið að auka þessar niðurgreiðslur úr 297 millj. upp í 341 millj., það eru sem sagt 44 millj. til viðbótar til niðurgreiðslu á húsahitun frá því sem áður hefur verið. Þetta hefur verið upplýst hér í umræðunum að geti gert u.þ.b. 10.000 kr. á þessa staðalíbúð sem menn eru búnir að finna upp til að reikna út hverjir eigi skilið að fá þessar niðurgreiðslur. En það er ekki allt sem sýnist í þessu frv. Á öðrum stað í frv. kemur það fram að ekki er gert ráð fyrir því lengur að styðja við bakið á sveitaveitunum í landinu og styrking raflína er ekki lengur uppi á borðinu, þ.e. dregið er úr þessum tveimur liðum sem voru í fjárlagafrv. síðast upp á 50,8 millj. en eru núna upp á 18,7. Það þýðir lækkun upp á 32 millj. Ég hirði ekki um að bera þetta saman upp á nákvæmar tölur. En við erum að tala um krónuhækkun upp á eitthvað í kringum 8 millj. til lækkunar á kyndingarkostnaði fólks á landsbyggðinni. Þarna er nú öll rausnin. Það er tekið þarna til baka.
    En það er annað sem mig langar að ræða í þessu sambandi og það eru hækkanir á raforkuverðinu. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þessi mikla rausn þeirra í því að greiða niður kyndingarkostnað á landsbyggðinni hverfi í skuggann af hækkunum Landsvirkjunar. Landsvirkjun hækkaði sína gjaldskrá um 5% í júlí ef ég man rétt. Hún óskaði eftir 5% hækkun til viðbótar nú í haust. Hún hafði áætlað 20%

hækkun til viðbótar við 5% frá í vor til að bæta sér upp tímabundinn hallarekstur sem Landsvirkjun telur sig verða fyrir á næstu þremur árum.
    Ég hef í höndunum bréf sem Þjóðhagsstofnun hefur skrifað Landsvirkjun þar sem hún er að gefa álit sitt á þessum hækkunartilefnum. Mig langar til að vitna í bréfið, með leyfi hæstv. forseta. Bréf er frá 17. sept. Þar segir: ,,Með bréfi, dags. 12. sept., óskaði Landsvirkjun eftir umsögn Þjóðhagsstofnunar um þörf fyrirtækisins fyrir 5% hækkun á gjaldskrá til almenningsveitna frá 1. okt.`` Það eru sem sagt seinni 5%. ,,Landsvirkjun hefur gert rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir árin 1991 og 1992. Þar kemur fram að áætlaður rekstrarhagnaður í ár mun verða 68 millj. kr. miðað við óbreytta gjaldskrá en greiðsluafgangur fyrirtækisins verði neikvæður um 616 millj. kr. Að óbreyttri gjaldskrá er talið að á árinu 1992 muni bæði rekstrar- og greiðsluafkoma fyrirtækisins versna um röskar 500 millj. kr. frá áætlaðri niðurstöðu í ár. Á sömu forsendum er talið að ávöxtun eigin fjár verði 0,3% í ár en neikvæð um 2,2% á næsta ári.`` Svo kemur: ,,Ljóst hefur verið lengi að fyrstu árin eftir að Blönduvirkjun yrði tekin í rekstur yrði rekstrarafkoma fyrirtækisins léleg. Einnig leiða áætlanir fyrirtækisins í ljós að raunverð raforkunnar er nú nægjanlega hátt til að skila fyrirtækinu viðunandi arði til langs tíma litið.``
    Um þetta er fjallað í bréfi Þjóðhagsstofnunar til Landsvirkjunar frá 27. júní. Þar kemur m.a. fram samkvæmt útreikningum Landsvirkjunar að óbreytt raunverð til aldamóta og 3% árleg lækkun úr því fram til 2012 skili Landsvirkjun 5,9%, og ég endurtek það, 5,9% arðgjöf eigin fjár að meðaltali yfir 30 ára tímabil, þ.e. 1991--2021. Það ber að taka sérstaklega fram að miðað við þessar áætlanir er gert ráð fyrir því að Landsvirkjun verði búin að greiða upp allar sínar skuldir árið 2004. Mig langar til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki hafi verið ástæða til að reyna koma í veg fyrir að Landsvirkjun hækkaði sína gjaldskrá. Á sama tíma og ríkisstjórnin er af rausn sinni að greiða niður húshitunarkostnað komi ekki Landsvirkjun og hækki vegna einhverra tímabundinna tilefna, eins og þarna kemur fram að eru, gjaldskrá sem eigi svo að lækka aftur á árinu 1995. Ég tel að það sé full ástæða til þess að halda aftur af þessum hugmyndum Landsvirkjunar og vonast sannarlega til þess að menn hugsi til þess.
    Það er annars mjög merkilegt að heyra þessar löngu ræður og útleggingar þingmanna og ráðherra á vaxtamálum og gengismálum í landinu. Mér finnst það ákaflega merkilegt og ég vil rifja það upp að í sjónvarpinu var viðtal við seðlabankastjóra Íslands í kvöld út af því að nú væri Evrópska efnahagssvæðið koma og það færi að hafa áhrif á bankamálin. Hann sagði alveg blákalt á skjánum að það mætti reikna með því að vextir mundu lækka í landinu. Hann er að segja okkur það, þessi yfirmaður peningamála í landinu, að allt þetta frelsi sem við höfum haft í sambandi við vextina hafi ekki virkað. Bankarnir hafi bara verið að taka miklu meiri vaxtamun en þeir geti tekið ef þeir lenda í samkeppninni. Sjálfsagt er eitthvað til í þessu hjá honum. En þegar menn eru með þessar fræðilegu útskýringar á því hvernig raunvextir verða til í þjóðfélaginu er dálítið umhugsunarvert að hugleiða hvað gerist ef við erum nú komin inn í þetta alþjóðlega samstarf um peningamálin. Hvar eru þá þessi heppilegu áhrif aðhaldsins vegna vaxtanna? Hvað gerist þegar ríkissjóður fer að skrifa gúmítékkana eftir að við erum komin inn í þetta samstarf? Það hefur engin áhrif á vextina vegna þess að vextirnir taka mið af allt öðru. Þá er ekki lengur þetta lokaða kerfi sem við höfum núna. Bankarnir og ríkisstjórnin skammta ekki lengur lánsfé inn í þetta kerfi hér með því að ákveða hvað kemur mikið af erlendum peningum inn. Eftir að fullt frelsi ríkir hljóta vaxtamálin að ráðast erlendis. Skiptir þá engu máli lengur hve mikill hallarekstur verður á ríkissjóði og hvað hann gefur mikið út af skuldabréfum?
    Það er kannski ástæða fyrir menn að velta þessu fyrir sér. Eins er það með gengið að við höfum hlustað á langar ræður um gengismálin. Við heyrðum sjútvrh. kvarta mikið undan því að hann hefði ekki getað ráðið því á sínum tíma hvernig gengið var skráð. Ráðherra úr sömu ríkisstjórn og er með það á sinni stefnuskrá að tengja íslensku krónuna við þetta svokallaða ECU. Það verður býsna merkilegt að sjá hvernig gengur að koma þessu öllu heim og saman.
    Ég ætla ekki að halda ræðu langt fram eftir nóttu. Mér hefur fundist það merkileg upplifun að koma á hv. Alþingi og sjá hvernig menn starfa, hvernig menn halda fundi, halda ræður og halda langa fundi og þreyta hvern annan á þeim. Mér finnst mjög merkilegt að upplifa það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Mér finnst margt sem menn mættu taka til athugunar, m.a. stjórn þingsins, hvernig eigi að standa að þessum hlutum. Ég ætla að geyma mér að setja það álit mitt fram. En ég vil segja það sem nýr þingmaður að ég tel mörgu ábótavant við stjórn þingsins og í sambandi við það gætu menn kannski lært svolítið af því hvernig menn stjórna málum í sveitarstjórnum út um landið. Þar eru að mínu viti miklu skilvirkari vinnuaðferðir en á hv. Alþingi.