Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 13:40:00 (392)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
     Virðulegi forseti. Aðfaranótt þriðjudags 22. þ.m. tókust samningar milli Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna sjö um myndun Evrópsks efnahagssvæðis og er við það miðað að samningurinn komi til framkvæmda frá og með 1. janúar 1993.
    Áður en ég geri Alþingi grein fyrir samningsniðurstöðum skal þess getið að samningurinn hefur þegar verið kynntur í hv. utanrmn. og að sjálfsögðu í ríkisstjórn.
    Fyrst vil ég víkja nokkuð að fram kominni gagnrýni á málsmeðferð. Ég vek athygli hv. þm. á því að þessi hinn mikli samningur, í þeim drögum sem hann nú liggur fyrir, er að sjálfsögðu í höndum allra meðlima utanrmn. Það sem gerðist á þessum samningafundi í Lúxemborg fjallaði um tiltekin, fá, skýrt afmörkuð mál. Þrjú hin stóru mál voru sjávarútvegsmálið, þungaumferð um Alpana og stofnun eins konar Þróunarsjóðs af hálfu EFTA við þróunarsvæði innan Evrópubandalagsins. Auk þess var þarna fjallað um fáein önnur mál sem minna máli skipta. Að öðru leyti voru samningsdrögin rækilega rædd og reyndar í höndum meðlima utanrmn. fyrir utan það að þessi þrjú stóru mál höfðu verið þar þaulrædd og kynnt. Áður en haldið var til lokafundarins höfðu embættismenn sérstaklega kynnt hv. formanni utanrmn. stöðu málsins. Það eina sem ekki var lagt á borðið fyrir fram voru nákvæmar upplýsingar um samningataktík íslensku samningamannanna áður en haldið var til fundarins og þarf það ekki skýringar við. Um leið og samningar höfðu tekist um nóttina aðfaranótt þriðjudagsins hafði ég samband við formann utanrmn. Það sem hér er verið að segja er einfaldlega þetta: Gagnrýni um það að málið, sé órætt í utanrmn., að meðlimir utanrmn. hafi ekki allar þær upplýsingar sem tiltækar eru um málið, er ekki á rökum reist.
    Reyndar er það svo að meginhluti þessara samninga lá fyrir í öllum höfuðdráttum þegar í tíð fyrrv. ríkisstjórnar eins og sýnt mun verða fram á hér á eftir. Þá hefur sá misskilningur einhvern veginn komið fram að ekkert hafi verið sett á blað um þessa samninga. Það er auðvitað misskilningur. Hið sanna er að það er á verkstjórnarábyrgð formennskulands EFTA að ganga endanlega skriflega frá þeim textum sem hér um ræðir. Þeir bárust síðdegis í gær og þeim var dreift í hendur ráðherra og meðlima utanrmn. í gærkvöldi um leið og þeir lágu fyrir. Það skal síðan tekið fram að endanlegur texti þessa mikla samnings getur ekki legið fyrir í endanlegu formi fyrr en báðir aðilar hafa gengið frá honum, þegar hann hefur verið þýddur á þjóðtungur viðkomandi þjóða. Að því er stefnt að aðalsamningamenn setji stafi sína með öllum eðlilegum fyrirvörum á þann texta innan svona hálfs mánaðar en utanríkisráðherrar geta ekki undirritað með fyrirvörum um staðfestingu þjóðþinga fyrr en endanlegur texti hefur verið þýddur á þjóðtungur allra aðildarlanda og þá á ég líka við níu þjóðtungur tólf aðildarríkja Evrópubandalagsins. Þetta er nauðsynlegt að komi fram vegna þess að annað hefur verið gefið í skyn að því er varðar málsmeðferðina.
    Víkjum þá að efnisatriðum, virðulegi forseti. Fyrst um sjávarútvegsmálið. Eins og hv. þm. er kunnugt, seinast af þeirri utandagskrárumræðu sem fram fór hér á hinu háa Alþingi fáeinum dögum áður en haldið var í lokalotuna, var staða málsins þessi: Evrópubandalagið lagði til grundvallar forsendur sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu sinnar með kröfu um hvort tveggja, veiðiheimildir í lögsögu EFTA-ríkja og kröfu um rétt til fjárfestingar í útgerð og fiskvinnslu. Staða EFTA-ríkjanna var þessi: Í upphafi lögðum við fram kröfuna um fríverslun með fisk sem þýðir ekki aðeins tollfrjálsan aðgang að markaði heldur einnig samræmdar samkeppnisreglur og þar með niðurfellingu á ríkisstyrkjum. Þeirri kröfu var hafnað þegar á haustmánuðum 1989, þ.e. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og þá var ákveðið af þeirri ríkisstjórn að við mundum halda til streitu kröfunni um fullnægjandi markaðsaðgang.
    Hver var niðurstaða þessara samninga? Hún var sú í fyrsta lagi að hin ófrávíkjanlegu skilyrði Íslendinga um að hafna algerlega kröfunni um veiðiheimildir Evrópubandalagsins í skiptum fyrir tollfríðindi stóðu, sú ófrávíkjanlega krafa náði fram. Í annan stað. Sú ófrávíkjanlega krafa okkar að vísa á bug kröfum um rétt til fjárfestingar í útgerð og fiskvinnslu stóð, sú krafa stóðst og hún er tryggð.
    Að því er varðar markaðsaðganginn, þá var samningsstaðan vissulega ekki mjög góð vegna þess að um leið og þessum kröfum hafði verið hafnað lá það fyrir að mörg aðildarríki EB, reyndar sex talsins, settu fram auknar kröfur um að þrengja markaðsaðgang EFTA-ríkjanna þannig að sá kafli samningsins þar sem ekki er um breytingar á tollum, það voru tillögur uppi um það að fjölga t.d. þeim fisktegundum sem ekki nytu tollalækkunar. Niðurstaðan varð að síður þessi: Gerður var samningur þar sem sjávarafurðum er skipt í þrjá flokka. Í fyrsta lagi er sá flokkur sjávarafurða sem fær núll-toll strax í byrjun samnings. Í annan stað er sá flokkur sjávarafurða þar sem tollar eru lækkaðir frá því sem þeir eru nú um 70%. Í þriðja flokknum eru síðan nokkrar sjávarafurðir þar sem tollum er ekki breytt.
    Ef við lítum á núverandi útflutning Íslendinga á sjávarafurðum og tökum tillit til þeirra tollaívilnana sem í fyrsta lagi voru tryggðar með bókun 6 á sínum tíma, sem er bæði að hluta til í núll-tollum en að öðru leyti í tollaívilnunum, og síðan á ákvæði þessa samnings, þá er niðurstaðan sú að í lok samningsins þegar hann er að fullu kominn til framkvæmda 1. janúar 1997, þá njóta íslenskar sjávarafurðir 96% tollfrjáls aðgangs að Evrópumarkaðnum. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því þar sem því var haldið fram hér í utandagskrárumræðu áður en haldið var í lokalotuna að bókun 6 hefði tryggt Íslendingum 100% markaðsaðgang. Það var að vísu leiðrétt í þeim umræðum. Í stórum dráttum mátti segja að hún hefði miðað við núverandi aðstæður tryggt okkur svona tæplega 60% tollfrjálsan aðgang. Árangurinn sem náðist núna í lokalotunni er þá sá að sú hlutfallstala hækkar í 96%. Það sem er síðan eftirtektarvert við þetta er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi. Þrátt fyrir þessa erfiðu samningsstöðu náðist ávinningur í þremur greinum þennan hálfan annan sólarhring sem setið var í samningum. Í fyrsta lagi hafði Evrópubandalagið sagt alveg skilyrðislaust að að því er varðaði lax, makríl og síld kæmu ekki neinar tollaívilnanir til greina. Samt sem áður tókst að fá það fram að saltsíldarflök eru í núll tollflokki, við fengum tollfrelsi í því til viðbótar því tollfrelsi sem bókun 6 áður tryggði okkur varðandi frysta síld. Þetta er afar mikilvægt atriði vegna þess að þetta skiptir sköpum fyrir framtíðarmöguleika síldarútgerðar og síldarvinnslu hér á landi í kjölfar á hruninu í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu. Sama máli gegnir með hörpudisk. Þeir höfðu sagt: Skelfiskur, nei. Við veitum ekki tollaívilnanir í því. Það tókst hins vegar að því er varðaði hörpudisk og loks til viðbótar tókst að fá tollaívilnanir í flokki 2 sem átti að lækka um 60% hækkað upp í 70%.
    Síðan er það að segja að eftirstöðvar tolla sem verða eftir eru orðnir svo lágir að þeir geta ekki talist viðskiptahindrun. Þetta er aðalatriði málsins. Með þessum samningum hefur tekist í fyrsta sinn að tryggja höfuðútflutningsafurðum Íslendinga, sjávarafurðum, sama sess í fríverslunarsamstarfi eins og áður um iðnaðarvörur og nú í þessum samningi um þjónustu þannig að sú sérstaða Íslendinga að þurfa sífellt að berjast vegna sérstöðu sjávarafurða er nú því sem næst komin á enda. Þetta er í fyrsta skipti sem þannig háttar til að við höfum getað tryggt íslenskum sjávarafurðum því sem næst sömu viðskiptakjör og helstu útflutningsafurðum annarra þjóða. Þetta eru þess vegna tímamót í efnahagssögu Íslendinga.
    Mér þykir ástæða til að geta þess, virðulegi forseti, að í raun og veru var hér um að ræða tvo samningaferla, annars vegar samninga framkvæmdastjórnar við okkur EFTA-ríkin, en hins vegar samninga framkvæmdastjórnar við aðildarríki sín og það er alveg ljóst að á lokastigi þessara samninga, að því er varðar sjávarútvegsmálið, var gerð mjög hörð og alvarleg atlaga af hálfu einstakra aðildarríkja til þess að knýja Íslendinga og Norðmenn til undanhalds í þessu máli. Vörn framkvæmdastjórnar var sú að ef við legðum áherslu á að fá einhverjar breytingar frá upphaflegum málamiðlunartillögum, þá yrði því svarað með gagnkröfum af þessu tagi, sérstaklega að því er varðar fjárfestingarréttindi og veiðiheimildir. Ég get þess vegna ekki annað en sagt nú þegar þessi samningsniðurstaða liggur fyrir að hún fór fram úr þeim vonum sem ég gat með raunsæju móti gert mér fyrir fram áður en haldið var að þessu endatafli.
    Það er sérstök ástæða til að geta þess að því er varðar veiðiheimildirnar að í því efni tókst að ná svona hagstæðum samningum án þess að beygja sig fyrir kröfu Evrópubandalagsins um veiðiheimildir. Það mun áreiðanlega ýta undir það að Evrópubandalagið taki nú af meiri alvöru á því máli en samkvæmt skýrslu sérfræðinganefndar, sem skilað var í desember 1990 til framkvæmdastjórnarinnar, er eindregið mælt með því að framkvæmdastjórn og ráðherraráð Evrópubandalagsins taki þá verndarstefnu í sjávarútvegsmálum, sem bandalagið hefur fylgt hingað til, til rækilegrar endurskoðunar.
    Þá er að geta rammasamnings um tvíhliða skipti á veiðiheimildum. Það mál hefur áður verið kynnt hér. Það er ekkert nýtt um það að segja. Það er einungis vísað í slíkan samning í aðaltextanum. Að öðru leyti stendur hann og er í því fólginn að við höfum gefið tilboð um að heimila veiðar, allt að 3 þús. tonn karfaígilda í skiptum fyrir allt að 25--30 þús. tonn af loðnu samkvæmt nánari reglum sem ég kynnti hér fyrr við utandagskrárumræðuna 16. okt. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á því, þegar skýrt er frá þessu máli, að meginþunginn að því er varðaði atlögu Evrópubandalagsins að því að tryggja sér veiðiheimildir beindist að Norðmönnum og niðurstaðan í því máli var sú að Norðmenn láta af hendi verulegar veiðiheimildir. Ég tek það skýrt fram að það eru ekki einhliða veiðiheimildir heldur er það innan ramma tvíhliða samnings sem Norðmenn hafa þegar. Hins vegar er hlutur beggja ríkja að því er varðar markaðsaðganginn hlutfallslega hinn sami þótt hlutur Norðmanna sé lægri hlutfallslega vegna þess að þeir höfðu lakari fríverslunarsamninga fyrir.
    Að því er varðar hafnir og hafnaraðstöðu, þá er það mál óbreytt, þ.e. við lýsum því yfir að við erum reiðubúnir til þess að heimila eðlilega þjónustu og löndun að því er varðar íslenskar hafnir, ef um er að ræða löndun á fiski úr umsömdum fiskstofnum. Að öðru leyti er það mál algerlega í höndum íslenskra stjórnvalda.
    Þá er þess að geta að í textanum er að finna þróunargrein sem kveður ekki á um annað en það að eftir tvö ár ræði aðilar saman en það er engin tilvísun í neinar skuldbindingar, enda skal það gert með vísan til fiskveiðistefnu hvers aðildarríkis.
    Áður en ég læt þessum kafla ræðu minnar lokið vil ég taka fram að það er á misskilningi byggt, sem mér hefur verið eignað, að ég hafi sagt að þessi samningur hafi tryggt Íslendingum allt fyrir ekkert, eins og það er sagt. Hið rétta er að ég hef vitnað í þau ummæli varaforseta framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, Frans Andriessens, sem lét þau orð falla á fyrsta viðræðufundi okkar. Það eru með öðrum orðum hans orð en ekki mín.
    Virðulegi forseti. Þá vil ég aðeins geta annarra stórra mála. Í fyrsta lagi er svokallaður þróunarsjóður. Það sem þar gerðist var að upphæðin, sem áður hafði verið mest um rætt, sem EFTA-ríkin þurfa að greiða í þann sjóð, lækkaði úr 2 milljörðum í 1 1 / 2 milljarð. Hins vegar hækkaði sá þáttur sem við almennt köllum styrk-þátt greiðslnanna úr 326 millj. í 500 millj. þannig að við erum hér að tala um heildarupphæð upp á 2 milljarða ECU, en þetta

eru hagstæðari kjör en við gerðum ráð fyrir áður. Af okkar hálfu metum við það svo að við getum átt von á því að þurfa að greiða í þennan sjóð um 67 millj. íslenskra kr. á fimm ára tímabili.
    Að því er varðar deilumálið mikla um flutningsrétt Evrópubandalagsríkja um Alpana, þá var það leyst að lokum á seinustu stundu. Ég mun ekki hér og nú skýra frá efnisatriðum þess, heldur vísa til þeirrar greinargerðar sem þingmenn munu fá í hendur þegar textar liggja fyrir.
    Önnur atriði, sem um var fjallað þarna og skipta verulegu máli, eru þessi: Það er tryggt að Evrópubandalagið skuldbindur sig til þess að beita EFTA-ríkin ekki gagnráðstöfunum vegna svokallaðra undirboða. Þetta er afar mikilvægt atriði, ekki hvað síst fyrir starfsemi t.d. stóriðjufyrirtækja á Íslandi, og það náðist. Að því er varðar skipasmíðar, sem er almennt mikilvægt mál en Finnar beittu sér einkum fyrir, þá náðist eftirfarandi árangur: Evrópubandalagið lýsir því yfir að það muni taka til endurskoðunar á árinu 1993 svokallaða tilskipun 7, sem um þetta fjallar, með það að markmiði að afnema ríkisstyrki í þessari grein. Þetta er hins vegar ekki skuldbinding en þetta er fyrirheit og því er við bætt að þessi endurskoðun skuli gerð í nánu samráði við EFTA-ríkin.
    Að því er varðar starfsmenntun þá liggur fyrir að okkur eru tryggð jöfn réttindi og jöfn staða að því er varðar aðgang að menntastofnunum og þátttöku í margvíslegum áætlunum, bæði á sviði vísinda, rannsókna og menntamála, en varðandi spurningu um skólagjöld, þá er því til að svara að það er ekki á verksviði framkvæmdastjórnar heldur einstakra landa. Það er viljayfirlýsing almennt um það að gera slíka samninga af hálfu flestra ríkja með undantekningunni tvö lönd, Bretland og Belgíu, sem taka við miklum fjölda erlendra námsmanna og taka skólagjöld í ágóðaskyni.
    Að því er varðar spurninguna um viðskiptameðferð á matvælum, unnum matvælum úr landbúnaðarhráefnum, þá er þetta að segja: Listinn sem EFTA-ríkin óskuðu eftir að yrði dreginn upp og samkomulag gert um þær vörur er staðfestur af þeim, en að því er varðar hinar þrjár umdeildu vörur, Létt og laggott, smjörva og rjómaís, þá eru þær ekki á þessum lista. Með öðrum orðum, meðferð þeirra að því er varðar spurninguna um innflutningsrétt fer þá eftir íslenskum lögum og reglum og reyndar er það svo að þær eru sumar hverjar þegar á fríverslunarlista viðskrn. og þurfti því ekkert sérstaklega um þær að fjalla í raun og veru.
    Að því er varðar öryggisákvæðið, sem er geysilega þýðingarmikið ákvæði í þessum samningi, þá fylgir því sérstök íslensk yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda um það við hvaða skilyrði við hyggjumst beita því.
    Að því er varðar spurningar um breytingar á einokun í viðskiptum með áfengi og tóbak, þ.e. Áfengiseinkasölu ríkisins í þessu tilviki, þá er á það fallist að þessari einokun sé uppi haldið af svokölluðum félagslegum ástæðum á Norðurlöndum og megi svo sem vera áfram að því er varðar smásöluverslun, en þá verður jafnframt að vera tryggt að ekki séu hömlur eða mismununarreglur að því er varðar innflutning á þessum varningi.
    Að því er varðar dómstólinn var ein breyting sem hefur engin efnisáhrif. Hún varðar það að upphaflega höfðu EFTA-ríkin gert samningskröfu um það að þau mættu leita forúrskurða í ágreiningsmálum frá EES-dómstólnum. Evrópubandalagið hafnaði þessu með þeim rökum að þeir vildu ekki gefa kost á því að annar dómstóll en þeirra eigin kvæði upp slíka forúrskurði vegna þess að það byði þá heim hættu á ólíkri túlkun. Evrópubandalaginu snerist hugur og sóttist nú eftir því að fjallað yrði um þetta. Niðurstaðan varð sú að hér er um að ræða valkvætt ákvæði, þ.e. það er hverju samningsaðildarríki í sjálfsvald sett hvort við óskum eftir því að leita slíkra forúrskurða og þá hjá Evrópubandalagsdómstólnum. Af hálfu okkar var því lýst yfir að við mundum ekki leita eftir því.
    Að því er varðar þátttöku í nefndastarfi, þá var það áhugamál og hagsmunamál sumra EB-ríkja, annarra en okkar, að auka fjölda þeirra nefnda þar sem EFTA-ríkin hafa fulla aðild, sérstaklega varðar þetta svissneska hagsmuni varðandi banka og fjárhagsmálefni. Niðurstaðan varð sú að nefndunum var fjölgað úr fjórum í níu. Reyndar er þetta ekki vandamál að því er varðar EB. Sennilega mun þessi aðild að nefndum aukast eftir hendinni en þetta er ágreiningsmál innan Evrópubandalagsþingsins og þess vegna var ekki gengið lengra í þá átt.
    Að því er varðar grein, sem þarna er um að aðildarríkin muni leitast við að samræma innbyrðis reglur um að draga úr ríkisaðstoð í sjávarútveginum, þá þarfnast hún þeirra skýringa að það er auðvitað vitað af hálfu Evrópubandalagsins að ríkisstyrkir eru verulegir í Noregi og að svo miklu leyti sem Norðmenn lögðu áherslu á það að fá varúðarákvæði gegn ,,anti dumping``, eða viðbrögð eða mótaðgerðir gegn niðurboðum á verði, þá var þetta sett á blað og er auðvitað okkur út af fyrir sig mjög hagkvæmt. Ég minni á að við gerðum á sínum tíma samninga innan EFTA um að koma þar á fríverslun með fisk sem skuldbinda Norðmenn til þess fyrir árslok 1993 að draga úr ríkisstyrkjum sínum í áföngum.
    Virðulegi forseti. Ég má þá víkja að nokkrum spurningum sem vaktar hafa verið upp í þessari umræðu á ýmsum vettvangi. Í fyrsta lagi er þessi spurning: Nú þegar fyrir liggur niðurstaða í þessum samningum, þá er ástæða til þess að spyrja: Hefur hann breyst að verulegu leyti á lokastigi frá þeim samningstextum í drögum sem lágu fyrir í tíð fyrrv. ríkisstjórnar? Hefur kannski eitthvað versnað frá því sem það var þá?
    Sannleikurinn er sá að meginefni þessara samningsdraga var mótað í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og það er athyglisvert að þannig hafa fjórir þingflokkar komið að þessu máli alveg frá því að það upphófst með undirbúningssamningunum sem fram fóru undir íslenskri verkstjórn á seinni hluta árs 1989. Þannig vek ég t.d. athygli á því að sá samningshópur, sem lauk fyrst störfum, var hópur tvö sem fjallaði um fjármagnsmarkaðinn. Það hefur ekkert breyst á því sviði frá því að fyrrv. ríkisstjórn stýrði þessum málum. Í raun og veru má segja að um það bil 96% af efnisákvæðum þessa samnings, og þá fyrir utan niðurstöðuna í sjávarútvegsmáli, Alpamálinu og sjóðsmálinu, hafi legið fyrir 19. des. 1990, þ.e. í tíð fyrrv. ríkisstjórnar.
    Þá skulum við víkja að einstökum spurningum. Það er spurt um fyrirvarana. Hefur þeim verið til skila haldið? Svarið er já. Fyrirvararnir sem skipta öllu máli voru fjórir. Í fyrsta lagi: Engar veiðiheimildir í staðinn fyrir tollaívilnanir. Það stendur. Í öðru lagi: Enginn fjárfestingarréttur að því er varðar útgerð og fiskvinnslu. Það stendur. Þriðji meginfyrirvarinn var að öðru leyti um nýtingu íslenskra auðlinda, þ.e. orkulinda. Það var líka upplýst í tíð fyrrv. ríkisstjórnar að ekki þyrfti sérstakan fyrirvara vegna þess að sú skipan sem við höfum á þeim málum stenst algerlega og það er ekkert í þessum samningi sem knýr á um breytingar á því. Fjórði fyrirvarinn varðaði vinnumarkaðinn. Hver er réttur íslenskra stjórnvalda til þess að takmarka innstreymi fólks sem hingað kynni að leita að atvinnu? Sá fyrirvari var í upphafi í því formi að við vísuðum til fyrirvara Íslands í samningnum um norræna vinnumarkaðinn. Þessi fyrirvari er efnislega enn nákvæmlega hinn sami þótt í öðru formi sé, þ.e. íslensk stjórnvöld hafa með vísan til hins almenna öryggisákvæðis og sérstakrar yfirlýsingar sinnar rétt til þess að stöðva innflutning erlends vinnuafls hvenær sem er ef að mati íslenskra stjórnvalda innflutningur af því tagi vekur upp hótun um röskun á íslenskum vinnumarkaði, hvort heldur er í einstökum atvinnugreinum, einstökum héruðum o.s.frv. Þetta fer ekkert á milli mála. Þetta er ákvörðunarefni íslenskra stjórnvalda.
    Hver er þá réttur gagnaðilans? Réttur gagnaðilans er samkvæmt þessum samningi að grípa til gagnráðstafana sem í enska textanum eru orðuð sem ,,proportionate``, þ.e. hlutfallslega jafngildar gagnráðstafanir. Í flestum tilvikum mundi vera um að ræða þá samsvarandi gagnráðstöfun, þ.e. að takmarka rétt íslenskra ríkisborgara til að leita að vinnu erlendis. Það gæti í einstökum tilvikum verið í öðru fólgið. Dæmi: Í Sviss eru 600 þús. farandverkamenn, mestan part frá Evrópubandalaginu. Ef Sviss lokaði á þann innflutning samkvæmt þessu ákvæði gæti Evrópubandalagið ekki út af fyrir sig lokað á Svisslendinga vegna þess að Svisslendingar leita yfirleitt ekki að atvinnu í Evrópubandalaginu. Þá mundu þeir geta gripið til gagnráðstafana en Sviss hefði þann rétt að áfrýja því undir úrskurð dómstólsins hvort um jafnvægar gagnráðstafanir væri að ræða. Það er það eina sem hægt er að áfrýja.
    Annað mál sem mikið er spurt um er hlunnindajarðir. Er hægt samkvæmt þessum samningi að selja laxveiðiárnar, dalina og fjöllin og öll náttúrudjásnin? Og það er gefið í skyn að þeim sem hér stendur sé það mikið kappsmál að selja landið þar sem aftur á móti eðalbornir menn í stjórnarandstöðu vilji náttúrlega gæta þess sem sannir föðurlandsvinir. Reyndar er málflutningur af þessu tagi fyrir neðan virðingu manna í umræðum af þessu tagi. En hverjar eru staðreyndirnar? Staðreyndirnar eru þessar: Við vildum setja almennan fyrirvara, sértækan að því er varðaði slíka hluti, þá undir rétti erlendra aðila til kaupa á fasteignum. Það kom á daginn í tíð fyrri ríkisstjórnar haustið 1989 að það yrði ekki unnt að fá fram slíkan fyrirvara. Þess vegna var það að forsvarsmaður í samningahópi tvö tók það mál sérstaklega upp við þáv. hæstv. landbrh. að eftir umræður EFTA-ríkjanna hefði það orðið niðurstaðan að menn vildu leysa þetta vandamál eftir öðrum leiðum, nefnilega með því að breyta lögum og reglum í hverju landi með þeim hætti að það skilaði sama tilgangi og sértækur fyrirvari. Það var að okkar hugmyndum í þessu erindi, því var lýst á þann veg að við óskuðum eftir því að landbrn. skoðaði sérstaklega breytingar á löggjöf, bæði jarðalögum, ábúðarlögum og fleiri lögum þannig að hert væri á ákvæðum um forkaupsrétt sveitarfélaga og þau styrkt með ákvæðum um forkaupsrétt ríkisins. Síðan væru sett sérstök ákvæði sem kvæðu á um búsetuskyldu ákveðinn tíma og jafnframt um nýtingarkvöð. Því miður er það svo að hæstv. þáv. landbrh. varð ekki við þessum tilmælum þannig að þessu máli var ekki sinnt fyrr en eftir stjórnarskiptin. Nú liggur það fyrir samkvæmt stefnuyfirlýsingu núv. hæstv. ríkisstjórnar að núv. hæstv. landbrh. er með í undirbúningi breytingar á lögum í þessu skyni þannig að ef stjórnarandstaðan er að gagnrýna það að þetta skuli ekki þegar vera frá gengið, þá er skýringin sú að það var dregið eða því hafnað af hæstv. fyrrv. landbrh. En þess er síðan að geta að á þessu sviði gildir þriggja ára aðlögunartími þannig að út af fyrir sig er nægur tími til þess að setja þessa löggjöf. Ákvæðin koma ekki til framkvæmda fyrr en 1996.
    Þess skal jafnframt getið af því að slíkt ofurkapp er lagt á að gera þetta tortryggilegt að um þessi mál hefur verið fjallað rækilega. Það sem ég á hér við er þetta: Menn hafa spurt: Er það alveg tryggt að íslensk stjórnvöld geti sett slíkar takmarkanir í lög og það standist jafnvel þótt það yrði kært fyrir dómi. Nú vil ég vekja athygli manna á því að við erum ekki með þessum samningi að ganga í Evrópubandalagið. Við erum ekki undir sömu kvöðum og aðildarríki Evrópubandalagsins. En það liggja fyrir þrír dómar þar sem á þetta hefur reynt að því er varðar aðildarríki Evrópubandalagsins. Fyrsta ríkið er Danmörk, þar sem Danir setja fimm ára búsetuskilyrði og það hefur staðist. Annað landið er Grikkland sem með sérstakri löggjöf útilokaði útlendinga frá kaupum á fasteignum á vissum svæðum sem nema 55% af landi innan landamæra Grikklands. Hér mun sérstaklega átt við hinar undurfögru eyjar gríska hafsins. Þeir útilokuðu erlenda aðila frá því með sérstökum rökstuðningi og dómur, sem um það gekk 30. maí 1989, staðfesti að leyfilegt væri að setja búsetuskilyrði fyrir kaupum. Og þriðja málið varðar Írland. Þar er opinber stofnun, svokölluð ,,Land Commission``, sem verður að samþykkja öll fasteignakaup utan þéttbýlis. Og þar eru einnig búsetuskilyrði að því er varðar sjö ár. EB-dómstóllinn taldi í dómi nr. 182/1983 að slíkar takmarkanir væru heimilar stjórnvöldum.
    Ég segi: Þetta liggur fyrir að því er varðar aðildarríki EB frá dómstóli sem hefur lögsögu yfir því. Að því er varðar þennan samning, þá erum við að gera samning við Evrópubandalagið og það er sérstakur dómstóll með fulltrúum EFTA-ríkja í dómnum sem um það fjallar. Það er hafið yfir allan vafa að okkar mati að réttur íslenskra stjórnvalda til þess að setja slík þrengjandi ákvæði í lög stenst.

    Þá er í þriðja lagi spurt: Hvað með fjármagnsmarkaðinn? Eru engar takmarkanir í honum? Jú, jú, það eru takmarkanir. Það er í fyrsta lagi fjárfestingarréttur að því er varðar útgerð og fiskvinnslu. Þá spyrja menn: Já, en getur það nokkuð staðist? Geta menn ekki farið á bak við það? Svarið er þetta: Fyrirvari okkar er með vísan til þess að íslensk stjórnvöld geta haldið óbreyttum íslenskum lögum. Það er á valdi íslenskra stjórnvalda. Spurning: Þau lög sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt, standast þau? Það er engin breyting að því er þetta varðar í þessum samningi. Og síðan er hitt að ef um er að ræða hlutabréfaeign einhvers fyrirtækis, þrjú, fjögur, fimm stig, þá er einfaldlega gagnspurningin þessi: Við erum hér að tala um framkvæmd laga og kemur þessum samningi ekkert við sérstaklega. Haldið þið að erlendir fjármagnseigendur mundu hætta miklu fé til kaupa á hlutabréfum í útgerðarfyrirtækjum vitandi vits um það að ef upp kemst verður viðkomandi fyrirtæki svipt veiðiheimildum og þar með hlutabréfin verðlaus?
    Að því er varðar t.d. þjónustusviðið að öðru leyti, banka. Fyrrv. ríkisstjórn leiddi í lög heimild til 25% erlendrar hlutabréfaeignar í bönkum. Sannleikurinn er sá að það gæti í sumum tilvikum við eðlilega dreifingu hlutafjár verið nóg til þess að ráða meiri hluta í stjórn viðkomandi banka. Hér er ósköp einfaldlega um það að ræða að á fjármagnssviðinu fyrir utan þá fyrirvara sem við höfum sett erum við að óska eftir því að frjáls fjármagnsmarkaður verði til þess að veita fákeppninni á hinum þrönga íslenska markaði aðhald og samkeppni. Það er hagsmunamál íslensks atvinnulífs, það er hagsmunamál fyrirtækja, það er hagsmunamál íslenskra neytenda. Þá spyrja menn: Já, en verður ekki fjárflótti? Ef menn eru þeirrar skoðunar að raunvextir á Íslandi séu hinir hæstu í heimi, þá verður væntanlega ekki flótti, heldur þvert á móti má þá búast við því að hinir háu raunvextir laði erlent fjármagn inn í landið.
    Það er sagt: Er ekki verið að hleypa útlendingum í fyrsta skipti inn í fiskveiðilögsöguna? Svarið er nei, það er rangt. Menn höfðu samninga við Belga til þess að ná hinni hagstæðu bókun 6 á sínum tíma. Menn hafa gert samninga við Færeyinga um heimildir, sem eru að vísu endurskoðaðar ár frá ári, 9 þús. tonn. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að í ljósi þessara samninga og í ljósi nýgerðra samninga Færeyinga við Evrópubandalagið sem að sumu leyti tryggja þeim hagstæðari markaðsaðstöðu en okkur vegna þess að þeir eru í reynd hluti af danska ríkinu sem er EB-ríki, þá beri okkur að endurskoða þessa samninga.
    Er hætta á því að útlendingar eignist flotann? Því er haldið fram. Ég er búinn að svara því. Er hætta á því að íslenskur landbúnaður verði lagður í rúst vegna innflutnings? Nei, það er engin hætta á því. Hitt er alveg ljóst, bæði vegna þess sem er að gerast í heiminum nú í þessum samningum um EES, í hinum mjög mikilvægu alþjóðaviðskiptasamningum í GATT, að auðvitað er stefnt að því að auka frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hér er stefnumarkandi yfirlýsing um það að aðildarríkin vilji gera það. Sum EFTA-ríkin hafa þegar tekið myndarlega á því máli, t.d. Svíþjóð, og fleiri munu á eftir koma. Og það er auðvitað sameiginlegt hagsmunamál neytenda í landinu og reyndar bænda líka.
    Erum við að beygja okkur fyrir heilbrigðisreglugerð EB? Er hætta á því að flutt verði inn dýr sem sýkja hinn göfuga, íslenska stofn? Svarið er nei. Við fengum undanþágu, eina EFTA-landið, frá heilbrigðisreglugerðinni. En viðvörunarorð: Heilbrigðisreglugerðirnar um dýr og jurtir eru nefnilega hinar sömu, enda landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál hin sömu í stjórnkerfi EB. Við höfum af því áhyggjur að það kunni að fara svo í framkvæmd að EB reyni að beita því að við erum ekki aðilar að þessum heilbrigðisreglugerðum og stöðlum sem eins konar viðskiptahindrun í útflutningi okkar á fiski. Við því verður að sjá þannig að við höfum óskað eftir sérstökum viðræðum um það til að tryggja hagsmuni okkar í því efni. Að sjálfsögðu er það svo að hinir meiri hagsmunir okkar hljóta að ráða í því efni.
    Síðan er frá því að segja að það sem þarna er frá gengið og um samið varðandi neytendavernd, vinnuvernd og félagsmál er almennt byggt á því að það eru hærri staðlar í viðkomandi samningsríkjum en hjá okkur og Íslendingum því til hagsbóta.
    Getur dómstóll hnekkt fyrirvörum sem Íslendingar hafa sett í þessum samningum? Því er haldið fram í gula skjalinu frá Samstöðu um óháð Ísland. Nei, það er fjarri lagi. Þeir geta ekki hnekkt því.
    Hefði verið betra að fara í tvíhliða samningaviðræður? Það er víst sérskoðun Kvennalistans núna. Svarið er mjög einfalt. Ef norska þingið felldi þessa samninga yrði staðan sú að við yrðum að fara aftur í endurskoðun á heildarsamningsdrögunum. Þá er hætt við því að sá ávinningur sem þessi samningur tryggir íslenskum sjávarútvegi yrði ekki tryggur vegna þess að við yrðum auðvitað spurðir: Eruð þið tilbúnir að borga í tvíhliða samningum það verð sem Norðmenn borguðu? Hverjir ætla að borga í sjóðinn fyrir Norðmenn ef þeir fella? Hverjir ætla að borga veiðiheimildirnar ef þeir fella? Þetta er auðvitað kjarni málsins. Við vorum í þessum samningum af því að það er hagstæðara fyrir okkur vegna þess að fórnarkostnaðurinn dreifist á fleiri.
    Var annarra kosta völ? Hefðum við frekar átt að semja við Bandaríkin, Japan eða einhverja aðra? Svarið er ósköp einfalt. Þessir samningar binda ekkert hendur okkar um samninga við þriðja ríki. Við erum ekki að ganga í tollabandalag. Við erum alfrjálsir að því að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin. Við vorum að gera fríverslunarsamning við Tyrkland, m.a. um fríverslun með fisk. Það er þó allavega 60 milljóna markaður. Og við erum að gera slíka samninga við Tékkóslóvakíu, Ungverjaland og Pólland og kemur þessum samningi ekkert við. Við erum alfrjálsir í því efni.
    Þá er spurt: Já, en er þetta ekki bara bráðabirgðasamningur? Eru ekki Norðurlöndin öll að ganga í Evrópubandalagið og EFTA-ríkin? Staldrið nú við. Þeim mun þýðingarmeira var það út frá íslenskum hagsmunum að

ná þessum samningi vegna þess að þessi samningur blívur út af fyrir sig og hann tryggir okkar brýnustu viðskiptahagsmuni. Þeir sem eru mest á móti því að það komi til álita að Ísland gangi í Evrópubandalagið, og ég er einn í þeim hópi, að óbreyttri fiskveiðistefnu Evrópubandalagsins kemur það ekki til greina og ég er alveg sannfærður um að það er enginn stjórnmálamaður á Íslandi og enginn stjórnmálaflokkur sem heldur öðru fram; út frá sjónarmiðum slíkra manna er það auðvitað stórkostlegt að hafa náð þessum samningi sem tryggir þessa hagsmuni og þennan aðgang okkar að innri markaði Evrópu og þessu 380 millj. markaðssvæði án nokkurra skuldbindinga um inngöngu í Evrópubandalagið.
    Það er spurt síðan að því er varðar sjávarútvegsmálið: Hvernig er það eiginlega? Er það rétt að það sé kannski sýnd veiði frekar en gefin þessi tollaniðurfelling á unnum vörum, hvort heldur það eru saltfiskur, saltfiskflök, síldarflök eða t.d. neytendapakkningar frystar? Við höfum tollfrelsi á þeim fyrir ef við vildum taka upp máltíðaframleiðslu. Svarið þetta: Þeir tollar sem eftir standa eru svo lágir að þeir eru ekki viðskiptahindrun. Það er staðreynd að með þennan samning í höndunum eru komin algerlega ný starfsskilyrði fyrir íslenskan sjávarútveg og fiskvinnslu.
    Þá eru það stóru spurningarnar: Felur þessi samningur í sér afsal á fullveldi? Svarið er nei. Hann gerir það ekki. Það er ekkert afsal á löggjafarvaldi Íslendinga. Það gerist ekkert. Þessi samningur verður auðvitað borinn undir Alþingi Íslendinga. Það er á valdi Alþingis Íslendinga að samþykkja hann eða hafna honum. Það verða engar ákvarðanir teknar um ný lög eða reglur nema Alþingi Íslands samþykki það. Það er ekkert framsal á löggjafarvaldi til einhvers yfirþjóðlegs valds. Það eru engar ákvarðanir teknar í æðstu stofnunum Evrópska efnahagssvæðisins nema með samstöðu. Þar fara engar atkvæðagreiðslur fram. Það er engin þjóð borin ofurliði.
    Sama máli gegnir með framkvæmdarvaldið og sama máli gegnir með dómsvaldið vegna þess að það segir sig sjálft að þegar við erum að mynda almennar reglur á viðskiptasviðinu á þessum hinum stóra markaði, þá þýðir það að við erum að óska eftir því sem smáþjóð að þessar reglur verði samræmdar. EFTA setur upp eftirlitsstofnun til þess að framfylgja því í framkvæmd. Og það er sjálfstæður EES-dómstóll sem kveður síðan upp úrskurði í ágreiningsmálum sem upp koma milli samningsaðilanna, ríkjanna. Þetta er ekkert framsal á valdi Hæstaréttar. Þetta er ekkert framsal á valdi íslenskra dómstóla. Þetta er gerðardómur um alþjóðlegar leikreglur og er satt að segja alveg nothæf samlíkingin um íþróttakappleik. Við höfum ekki sérreglur um íslenskan fótbolta, er það, hv. þm.? Eða sérreglur um íslenskan handbolta? Við förum eftir alþjóðlegum reglum, kveðjum stundum til í landsleikjum alþjóðlega dómara vegna þess að í alþjóðlegum samskiptum eiga að gilda lög og reglur. Og það er smáþjóðum meira hagsmunamál en nokkrum öðrum að það verði farið að lögum og reglum og hnefarétturinn ekki látinn gilda. Það er vegna þess að það er ekkert afsal réttinda í þessum samningi sem með hann á að fara eins og aðra slíka samninga, nefnilega leggja hann fyrir Alþingi og það er stefna íslensku ríkisstjórnarinnar að það sé ekkert tilefni til þjóðaratkvæðagreiðslu þess vegna.
    Virðulegi forseti. Þessi samningur er að mínu mati vegabréf okkar Íslendinga inn í 21. öldina. Hann er að því er varðar mikilvægi a.m.k. sambærilegur við stærstu ákvarðanir sem teknar hafa verið í sögu íslenska lýðveldisins eftir stríð, ákvörðunina um inngöngu okkar í Atlantshafsbandalagið og ákvarðanirnar um stækkun landhelginnar. Við höfum með þessum samningi tryggt brýnustu þjóðarhagsmuni frammi fyrir þróun mála í Evrópu gagnvart stærsta markaðssvæði okkar sem tekur við 75% af okkar vöruútflutningi og okkar sjávarafurðaútflutningi, tryggt aðild okkar að þeim efnahagsávinningi sem er í boði á þessum 380 milljóna markaði með öflugasta kaupmátt í heimi.
    Við höfum með þessum samningi tryggt það í fyrsta sinn í sögunni að uppistöðuatvinnuvegur okkar, sjávarútvegurinn, nýtur sambærilegra viðskiptakjara á við aðrar atvinnugreinar. Við tryggjum okkur hlutdeild í því hagvaxtarskeiði, í því vaxtarskeiði, í þeim verðlækkunum, í þeim lífskjarabata sem fram fer núna við samrunaferilinn í Evrópu. Við tryggjum hlutdeild okkar í þátttöku í vísindum, í rannsóknum, í samstarfi á menntasviði. Við tryggjum hag okkar og samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs með því að brjóta á bak aftur fákeppni hins íslenska fjármagnsmarkaðar. Við erum hér að tala um mál sem skírskota til hagsmuna neytenda vegna þess að samkeppnin mun aukast og þrýstingurinn á að draga úr einokun og fákeppni í íslensku þjóðfélagi sem er eitt okkar stærsta hagsmunamál. Það er í þeim anda. Þetta er í þágu neytenda. Þetta er í þágu unga fólksins á Íslandi. Þetta er í þágu landsbyggðarinnar að svo miklu leyti sem þessi samningur er alveg sérstaklega hagkvæmur íslenskum sjávarútvegi. Þetta er í þágu vaxandi þjónustugreina. Þetta er til þess að auðvelda okkur að renna fleiri traustum stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Með öðrum orðum, þetta er samningur sem gefur okkur tækifæri og nú er það undir sjálfum okkur komið hvernig við nýtum tækifærið.